Ýrúrarí

Ýr Jóhannsdóttir býður okkur í heimsókn í vinnustofuna sína.

Ýr Jóhannsdóttir hefur í sumar komið sér fyrir í litlum gámi í Norðlingaholtinu þar sem hún vinnur undir fatamerkinu Ýrúrarí. Hún hefur vakið athygli fyrir prjónaflíkur sínar undanfarið en hún prjónar á eldgamla prjónavél sem knúin er af sjónvarpsloftneti. Á enn öðrum grámyglulegum fimmtudeginum tók Ýr hlýlega á móti okkur og sýndi okkur notalegt rýmið. Með henni var Skotta, 16 ára gamall íslenskur fjárhundur sem Ýr eignaðist þegar hún var 5 ára og hefur reynst ágætis félagsskapur á vinnustofunni.

Hvenær vaknaði prjónaáhuginn?

Ég lærði að prjóna þegar ég var í öðrum bekk í grunnskóla en ég var með snilldar textíl kennara og varð alveg óstöðvandi á tímabili. Síðan varð ég unglingur og áhuginn slokknaði en ég byrjaði aftur að prjóna fyrir tveim árum í skapandi sumarstörfum í Kópavogi, þá prjónaði ég smá skrímslalínu. Áhuginn fór svo á annað stig eftir að ég lærði á prjónavél þegar ég var í lýðháskóla í Danmörku. Það var algjör heppni að ég náði að draga einn gestakennara til að kenna mér á knitmaster vél frá 1950 en ég varð mjög heilluð af þessum vélum. 

Hvað gerir vinnustofuna að notalegum stað til að vinna á?

Ég færði eiginlega allt uppáhalds dótið mitt úr herberginu mínu inn í gám og hengdi svo upp allar flíkurnar sem ég hef gert og á sjálf, á víð og dreif um gáminn. Ég tók líka með mér uppáhalds bækurnar mínar og græjurnar mínar en það er mjög þægilegt að hlusta á tónlist eða hljóðbækur á meðan ég vinn og grípa í bók inn á milli þegar ég tek pásu. Það eru mest allt myndabækur eða barnabækur sem er einfalt að meðtaka og skoða í stuttum pásum. Síðan er alltaf notalegt þegar Skotta, hundurinn minn, er í gírnum til að kíkja með mér út í gám, það er alltaf gott að hafa smá félagskap í vinnunni.

Hvernig áskotnaðist þér prjónavélin?

Prjónavélina keypti ég á netinu af breskri konu sem gerir upp prjónavélar og selur. Það tók tíma að leita að hinni einu réttu prjónavél en ég endaði með Brother 950i vél sem var framleidd í kringum 1990. Vélin er handknúin en það er hægt að tengja hana við rafmagn og vinna tvílita mynsturgerð með henni. Með henni fylgdi græja sem maður tengir við loftnetstengi á sjónvarpi og getur teiknað upp einn og einn pixel í einu með mjög „retró“ fjarstýringu. En það er eitthvað mistengi á milli vélarinnar og sjónvarpsins. Ég hef reynt ýmislegt, svo sem að hakka mig á vélina með snúru sem ég bjó til og tengi við tölvuna. Það hefur ekki virkað, en ég hef líka mjög takmarkaða þolinmæði fyrir svona rafmagns stússi, vonandi rekst ég á einhvern græjugúrú í framtíðinni sem hefur áhuga á svona brasi.

Hver er uppáhalds hluturinn þinn á vinnustofunni?

Það er erfitt að segja til um það þar sem ég setti eiginlega alla uppáhalds hlutina mína inn í vinnugáminn. Prjónavélin er mér samt líklega kærust en það er eitthvað svo heillandi við svona vélar, og hún er orðin mjög mikilvægt verkfæri í vinnunni minni.

Geturðu sagt okkur aðeins frá hamborgarapeysunni þinni?

Hamborgarapeysan er fyrsta peysan sem ég gerði á prjónavél, en ég gerði hana sem lokaverkefni í lýðháskólanum sem ég var í í Danmörku í fyrra. Verkefnið átti að vera fullkomlega frjálst, en eiginlega allir í bekknum enduðu á því að búa sér til og sníða jakka sem þau gætu síðan notað eða gefið í jólagjöf. Það fannst mér mjög leiðinleg hugmynd og byrjaði á að gera einfalda peysu í prjónavélinni sem ég ætlaði síðan að handsauma einhverja mynd á. Ég veit ekki alveg hvernig ég endaði á því að að sauma út þessa mjög litríku mynd af mér að borða hamborgara á peysuna, en ég hef líklega verið orðin frekar þreytt á matnum í skólanum og öllu litleysinu í fyrri verkefnum sem við höfðum fengið. Peysan sló líka alveg í gegn á lokasýningunni í skólanum!

Hvað er framundan?

Í haust hef ég diplómanám í textílhönnun í Myndlistaskóla Reykjavíkur. Ég er ótrúlega spennt að hefja þar nám og læra meira um hvernig textílframleiðsla fer fram og svo á ég eftir að læra fullt af nýjum textíl trixum.

Meðfram skólanum ætla ég að reyna að búa til einhverjar flíkur og selja. Ég hef ekki alveg ákveðið hvort ég opni netbúð eða geri eitthvað spes pantana kerfi.

Eftir myndlistaskólann og vonandi frekari nám, vona ég að ég geti farið að vinna meira með Ýrúrarí merkið og framleiða eitthvað af viti. Þá er ótrúlega mikilvægt að hafa menntað sig í textíl frekar en fatahönnun. Það mikilvægasta við hverja flík er hvernig þær eru unnar frá byrjun til enda. Framleiðsluferli á bakvið flíkur í búðum í dag eru ólík og mis góð, en mér þætti einmitt gaman að læra meira um það og skapa meiri umræðu fyrir ábyrgum innkaupum á fatnaði.