Sigga Ólafs

Í skapandi geiranum verða að vera til starfsmenn sem eru fjölhæfir og til í að aðlagast hverju verkefni fyrir sig. Líkt og Sigga.

Sigríður Ólafsdóttir eða Sigga eins og hún er gjarnan kölluð hefur í mörgu að snúast þessa dagana. Í ár tekur hún þátt í að skipuleggja fjórar af stærstu tónlistarhátíðum landsins en ásamt því er hún í fullu námi og í fimm öðrum störfum. Sigga nýtur þess greinilega að hafa marga bolti á lofti og það geislar af henni. Þetta hljómar kannski eins og klisja, en þannig er það nú samt. Hvernig hún fer að þessu er nokkuð ótrúlegt en jákvætt viðhorf og lífsgleði virðist vera hennar töfralausn. 

„Sigga er svo algengt nafn að í gegnum tíðina hef ég fengið ýmis gælunöfn til aðgreiningar. Ég er ýmist kölluð Sigga litla, af því að ég er svo lágvaxin, eða Sigga Ólafs. Svo hafa vinir mínir tekið upp á því að kalla mig Siggu West. Allavega, alls ekki kalla mig Sigríði! Þá finnst mér eins og verið sé að skamma mig. Ég tek það kannski upp þegar ég verð orðin fimmtug eða framkvæmdastjóri Iceland Airwaves eða eitthvað, þá má fólk kalla mig frú Sigríði. Foreldrar vina minna eru alltaf eitthvað: „Hvað kallaðirðu hana, Siggu litlu? Ekki kalla hana það.“ En Sigga litla er bara skemmtilegt gælunafn. Það truflar mig ekki neitt.“ 

Við hvað starfarðu?

„Fólk er alltaf að spyrja mig: „Sigga hvað gerirðu eiginlega? Þú ert alltaf alls staðar en ég hef ekki hugmynd um hvað þú ert að gera!“ Ekki einu sinni mínir nánustu vinir vita það almennilega.

Það að vinna á tónlistarhátíðum var aldrei sérstakur draumur hjá mér. Þetta byrjaði á því að ég var alltaf eitthvað að sniglast í kringum Retro Stefson en ég kynntist Unnsteini og Þórði í ungmennaskiptum þegar ég var í félagsmiðstöðinni Frostaskjóli. Ég hafði gaman af því að vera í samskiptum við fólk svo ég spurði hvort ég mætti ekki vera í miðasölunni fyrir tónleikana þeirra. Upp úr því þróaðist þetta smám saman og í dag er ég aðstoðar umboðsmaður og eins konar „tour manager“. Ég fer með þeim og skipulegg tónleika, passa upp á að allir fari í „soundcheck“ og fái að borða. Þetta er hálfgert foreldrahlutverk. Svo hef ég verið að framleiða myndböndin þeirra t.d. við lögin Qween og Glow og ég hef líka verið að vinna fyrir Young Karin. Ég á það til að vera frekar feimin með það að segja hvað ég sé að gera með hljómsveitinni og stundum finnst mér það alls ekkert merkilegt. Kannski vegna þess að það er svo ótrúlega margt sem ég er að gera og því erfitt að útskýra það fyrir fólki. Unnsteinn og Logi eru samt mjög duglegir að „peppa“ mig. Þeir treysta mér vel og láta mig vita að starfið mitt sé mikilvægt. Ég á þeim bræðrum margt að þakka.“ 

Hvernig leiddi þetta til þess að þú fórst að vinna á tónlistarhátíðum?

„Umboðsmaður Retro Stefson, Grímur Atlason, er einnig framkvæmdastjóri Iceland Airwaves. Það er í raun honum að þakka að ég komst inn í þann bransa. Eitt leiddi af öðru og ég byrjaði að vinna hjá Airwaves árið 2011. Síðan þá hef ég fengið stærri og stærri verkefni hjá hátíðinni og nú er ég eiginlega „backstage manager.“ Í því felst m.a. að sjá um hljómsveitirnar baksviðs, redda því sem þær biðja um og ýmis smáatriði varðandi skipulagningu. Ég er því mikið á hlaupum allan daginn. En það er erfitt að útskýra þetta því verkefnin eru svo fjölbreytt. Ég þarf eiginlega bara að vera með svona GoPro myndavél á mér og vera með videoblogg um einn dag í vinnunni. Beiðnirnar sem rigna yfir mig eru svo ótrúlega margar að stundum þarf ég bara að fara inn á klósett, loka mig af í smá stund og rifja upp hverju ég þarf að redda.“

En þú ert ekki bara að vinna á Airwaves?

„Nei, ég tek þátt í minni fjórðu Airwaves hátíð nú í haust. Í fyrra bættust svo við fleiri hátíðir á verkefnalista minn, Sónar og ATP og í ár Secret Solstice. Þar sé ég um svipaða hluti og á Airwaves þó að engin tónlistarhátíð sé eins, þær hafa allar sín sérkenni. Alls er ég því að vinna á fjórum tónlistarhátíðum í ár. Ég myndi aldrei nenna að taka þátt í þessum verkefnum nema vegna þess hve spennandi þau eru og krefjandi. Mér myndi finnast mjög óspennandi að vinna í verkefnum sem reyndu ekkert á mig og ég væri bara stöðugt að gera sama hlutinn aftur og aftur. Ég held að ein af ástæðunum fyrir því hversu vel mér gengur í þessum bransa sé sú að ég sit beggja vegna borðsins. Það að hafa unnið með Retro Stefson, einni stærstu hljómsveit landsins, gefur mér skilning á þörfum hljómsveita á tónlistarhátíðum.“

Hvað ertu líka að starfa við annað?

„Ég vinn í félagsmiðstöðinni Frosta í Vesturbænum, vinn á sushi-veitingastað inni á milli og einnig í KR heimilinu við og við. Mér finnst rosalega gaman að vinna með unglingum og gera eitthvað skapandi. Ég fell vel inn í hópinn og minn helsti kostur felst í því hvað ég næ auðveldlega að vera jafningi þeirra. Þannig finnst mér best að vinna. Þá hlusta krakkarnir líka meira á mig ef ég er að reyna að leiðbeina þeim í lífinu.

Félagsstörf eru auk þess ótrúlega spennandi og mér hefur alltaf fundist skemmtilegt að vinna með fólki og tengja það við forvarnir. Það er einmitt ástæðan fyrir því að ég nýt þess svo vel að vinna á Stuðlum meðferðarheimili, en ég byrjaði að vinna þar upphaflega vegna vettvangsnáms í skólanum. Krakkarnir þar eiga við alls kyns vandamál að stríða en mitt hutverk er að vera til staðar fyrir þau og gera með þeim eitthvað skemmtilegt.“ 

Í ofanálag ertu í námi?

„Já, ég er að fara á þriðja árið mitt í tómstunda-og félagsmálafræði í Háskóla Íslands. Ég er að gera marga hluti í einu en einhvern veginn næ ég að láta þetta virka. Námið tengist því sem ég er að gera í félagsmiðstöðinni, Stuðlum og á vissan hátt á tónlistarhátíðunum. Þetta nám tengist samfélaginu mjög mikið sem er ótrúlega skemmtilegt. Til dæmis: Hvernig ætlum við að draga úr fíkniefnanotkun unglinga og byggja tómstundir barna okkar upp á jákvæðan hátt? Í náminu átta ég mig enn betur á því hvað það er vanmetið að vinna með börnum og unglingum. Mér finnst margt gallað í menntakerfinu og í starfi félagsmiðstöðva, eins og víða annars staðar, en á heildina litið er þetta það besta sem við gerum í samfélaginu; að sinna ungmennunum vel.“  

En ferðu aldrei í frí eða sefurðu aldrei?

„Sko, ég sef voða lítið. Ég þarf kannski að fara að huga að því. Mamma mín og pabbi eru alltaf að segja: „Sigga þú verður að sofa meira“, en ég hef bara geðveika orku. Fólk spyr stundum í gríni: „Hvað heldur þér gangandi, ertu á einhverjum efnum?“ En svoleiðis er það ekki. Ég drekk ekki einu sinni áfengi. Stundum er hins vegar svo mikil keyrsla á okkur í kringum hátíðirnar að ég hef varla tíma til að fara heim og sofa. Einu sinni endaði ég meira að segja á því að gista uppi í Hörpu. Það var bara mjög kósý. En ég er rosalega mikill adrenalín fíkill. Ég elska að stökkva niður fossa og kletta og svo finnst mér gaman í sjósundi og syndi stundum frá Nauthólsvík yfir til Kópavogs. Adrenalínfíknin gæti líka tengst því hvað ég fíla mikið að vinna í stressandi umhverfi eins og við skipulagningu tónlistarhátíða. Svo fer ég líka mikið út að borða, kannski aðeins of mikið, en mér finnst það gaman. Það einkennir mjög menningu okkar sem búum miðsvæðis því það er auðvelt að nálgast alla góðu staðina. Mér finnst gaman að fara á K-bar og svo stendur Sushi Samba alltaf fyrir sínu.“ 

Hefurðu alltaf verið svona lífsglöð og ánægð?

„Já, ég hef alltaf verið mjög ánægð og glöð síðan ég man eftir mér. Ég hef aldrei tapað einhverri gleði. Það hefur eiginlega aldrei neitt hræðilegt komið fyrir mig en svo er líka svo mikilvægt að geta séð gleðina í sorginni. Ég lenti reyndar í bílslysi þegar að ég var 11 ára gömul sem gangandi vegfarandi. Ég var mjög heppin að hljóta ekki varanlegan skaða. Það kenndi mér svolítið að tapa ekki gleðinni. Ekki það að mikil sorg sé í kringum mig. Allt sem ég geri er svo skemmtilegt. Ég á góða vini, góða fjölskyldu og er að vinna ótrúlega skemmtileg störf sem ég hef geðveikan áhuga á. Því sé ég engan tilgang í því að vera eitthvað leið.“

Hvað er næst á dagskrá hjá þér?

„Mikil keyrsla hefur verið á mér síðan í maí og því ætla ég að reyna að njóta þess sem eftir er af sumrinu og vinna sem minnst. Ég fer á nokkrar útihátíðir með Retro Stefson og svo byrjar skólinn í haust með tilheyrandi Airwaves skipulagningu. Mig langar að fara út í meistaranám en veit samt ekki alveg hvað mig langar að læra eða hvar. Mér finnst gott að búa á Íslandi eins og er en ég veit að ég þarf að víkka sjóndeildarhringinn. Akkúrat núna finnst mér bara svo margt skemmtilegt að gerast hérna heima að ég myndi hvergi annars staðar vilja vera. Svo lengi sem ég er að gera eitthvað skemmtilegt þá held ég að ég sé bara góð.“