Cynthia vs. Embla

Aðalnúmer Druslugöngunnar ræða stöðu kvenna í minnihlutahópum íslensks samfélags.

English

Í Druslugöngunni laugardaginn 26. júní héldu þær Cynthia Trililani og Embla Guðrúnar Ágústsdóttir áhrifaríkar ræður um stöðu asískra kvenna og fatlaðra kvenna í íslensku samfélagi. Cynthia lauk fjölmiðlafræði í Indónesíu áður en hún flutti til Íslands en hér heima hefur hún lokið BA-námi í íslensku sem annað mál og er nú í meistaranámi í menntunar- og kynjafræði. Embla er í Háskóla Íslands í félags- og kynjafræði auk þess sem hún er verkefnastýra Tabú.

Cynthia: Okkar sameiginlegi grundvöllur er náttúrlega sá að við tilheyrum báðar minnihlutahóp á Íslandi. Þú ert með fötlun og ég af erlendu bergi brotin. 

Embla: Það er áhugavert að vita hvaða mismunun og fordóma við upplifum báðar, þó ástæðurnar séu kannski mismunandi. Því þegar öllu er á botninn hvolft er niðurstaðan alltaf sú sama, hvort sem um er að ræða fólk af öðrum kynþætti, fatlað fólk eða kyn. Við verðum að vera meðvituð svo við getum unnið saman, því baráttan gegn fordómum verður ekki unnin standi maður einn í henni.

Cynthia: Ég ber mikla virðingu fyrir því að þér finnist þú ekki þurfa að fela sjálfa þig, að þér sé alveg sama hvað fólki finnst um þig og að þú standir með sjálfri þér.

Embla: Já, málið er að maður er orðinn svo vanur að biðjast afsökunar á öllu. Og bera ábyrgð á öllu, ekki hinn aðilinn. Mér finnst Druslugangan senda skýr skilaboð um skömm og að maður eigi ekki að skammast sín fyrir hver maður er. Við getum einnig yfirfært það á kynþætti og fötlun. Ég er til dæmis vön að segja ekki neitt þegar ég upplifi fordóma af einhverju tagi því á einhvern hátt þykir mér það mitt vandamál. Þegar fólk segir: „Oh, þú ert svo sæt og góð lítil stelpa og svo…“ langar mig yfirleitt bara að segja þeim að fara til fjandans. En ég geri það ekki því ég verð að vera kurteis. Ég er samt að hugsa um að byrja á því að segja fólki bara að fara til fjandans. Það er ekki mín ábyrgð að láta fólki líða betur, en þetta er erfitt því manni hefur alltaf verið kennt að vera ekki dónalegur. Að tala um mig sem sætt lítið grey vegna þess að ég er með fötlun er ótrúlega fordómafullt og með því að láta fólk vita af því er ég ekki dónaleg. Ég er bara að velja að vera ekki meðvirk með þeirra fordómum.

Cynthia: Ég er þér hundrað prósent sammála. Það gerist svo oft að ég hugsa með mér: Æ, þau meintu þetta ekki þannig, þau bara skilja ekki. En eftir svolítinn tíma verð ég bara: Hey kommon! Þótt ég tali annað tungumál og líti öðruvísi út gefur það ykkur ekki leyfi til að koma svona fram við mig.

Embla: Já, Íslendingar trúa af fullri alvöru að hér sé engan rasisma að finna. Það er sem setningin „ég er ekki rasisti“ sé lærð utanbókar af landsmönnum án þess að fólk geri sér grein fyrir því hvað rasismi sé.“

Cynthia: Já, rasismi snýst ekki bara um kynþætti, hann er mun flóknara fyrirbæri.

Embla: Það sama er með fordóma gegn fötluðu fólki og konum. Ísland er ekki þetta frábæra land sem við höldum að við búum í. Sem gerir það erfiðara fyrir fólk að ræða þessa hluti því við erum svo föst í þessari „frábæra Ísland þar sem allir eru jafnir“ ímynd.

Cynthia: Fordómarnir eru alltaf þarna. Við finnum þá í öllum löndum og hjá öllum þjóðarbrotum. Og því miður beinast þeir oftast gegn minnihlutahópum og konum. Það tekur langan tíma og vinnu að koma af stað breytingu. Það mun ekki gerast á augnabliki, mánuði eða ári. Við þurfum að breyta hugarfari fólks. Einn daginn mun Ísland vera fjölbreyttara land, með mismunandi fólki frá mismunandi menningarheimum. En þangað til höfum við líka allan rétt til að verja rétt okkar og krefjast þess að komið sé fram við okkur af sömu virðingu og við aðra. Eftir að hafa haldið þessa ræðu í Druslugöngunni finnst mér ég vera mun öflugri, eins og ég hafi loks fengið viðurkenningu á því að ég sé partur af þessu þjóðfélagi og að ég geti látið í mér heyra. Ég hef búið á Íslandi í fjöldamörg ár og börnin mín eru íslensk. Næst þegar ég fer á staði og fólk reynir að neita mér aðgangi af því að ég er af asískum uppruna ætla ég að standa með sjálfri mér og segja nei, ég hef sama rétt og aðrir Íslendingar.

Embla: Mér þykir það stórt skref að þau sem komu að skipulagningu Druslugöngunnar hafi haft samband og beðið okkur tvær um að halda ræður á Austurvelli. Það er ótrúlega jákvætt og ég er ekki viss um að þetta hefði verið gert fyrir tveimur eða þremur árum.

Cynthia: Þegar Samtök kvenna af erlendum uppruna höfðu samband og báðu mig um að halda ræðu á Austurvelli hafði ég ekki hugmynd um hvað ég vildi fjalla um. En þær ítrekuðu bara að ég ætti að tala um það sem mér þætti mikilvægt og snerti málstaðinn. Í háskólanum vann ég rannsókn um staðalímyndir asískra kvenna hér á Íslandi og nýtti þar bæði mína reynslu og vinkvenna minna. Ég er ekki frá því að Druslugangan hafi verið ágætis miðill til að fræða fólk og bera skilaboðin áfram. Fólk á nefnilega erfitt með að viðurkenna og sjá að það sé rasískt og fordómafullt. Í stað þess að fræðast og læra fer fólk bara í einhverja afneitun. En fordómarnir eru alls staðar. Það sjá allir sem vilja.

Embla: Ég held að við séum hægt og rólega að átta okkur á því að þegar við fjöllum um réttindabaráttu kvenna hérna heima verðum við að hætta að einbeita okkur bara að hvítum íslenskum konum af millistétt. Við þurfum að taka alls konar konur inn í reikningsdæmið. Eins og er, erum við ekki að gera það. Þegar við tölum um málefni kvenna núna erum við yfirleitt bara að fjalla um málefni mjög lítils hóps kvenna. Það er svo margt annað sem gerir okkur að því sem við erum, svo sem kynþáttur okkar og hvort við séum með fötlun eða ekki. Og við þurfum að byrja þar; á því að hugsa um málefni kvenna sem málefni allra kvenna.

Cynthia: Já, einmitt! Því konur er ekki bara ein týpa af konum. Konur eru alls konar.

Embla: Og það er líka ekkert til að hræðast að málefni kvenna séu mismunandi. Þess heldur að fagna því og taka þau öll inn í reikningsdæmið.

Embla: Þegar kemur að kynferðisofbeldi er fatlað fólk oft gert að auðveldu skotmarki. Svo er ekki vegna fötlunarinnar, heldur útaf stöðu okkar innan samfélagsins. Ég las einu sinni að fatlað fólk væri líklegra til að vera beitt ofbeldi vegna þess að þau geta ekki varið sig. En það meikar engan sens, hvergi á að vera til krafa um að fólk geti varið sig svo það verði ekki fyrir kynferðisofbeldi. Vandamálið er miklu dýpra en það, og hefur ekkert með fötlun manneskju að gera.

Cynthia: Einmitt, vandamálið liggur hjá manneskjunni sem beitir ofbeldinu, ekki því hvort brotaþoli geti varið sig.

Embla: Það er eins með rasisma. Fordómarnir spretta ekki af litarhafti húðar okkar heldur einhverju dýpra en það. Eins og stöðu fólks innan samfélagsins, hvort sem það er hérna heima eða alþjóðasamfélagsins. Og við þurfum að horfa á vandamálið með þeim augum. Því það er ekki lögmál úr náttúrunni að á sumum sé meira brotið en öðrum. Það kemur af félagslegri stöðu.

Cynthia: Staðalímyndin af asískum konum, sérstaklega þegar þær fara á bari, er mjög oft lituð af þeim hugmyndum að þær hljóti að vera vændiskonur. Þetta hefur svo mikil áhrif á mig að ég þarf að velja fötin sem ég klæðist vel og vandlega svo ég passi ekki inn í þessa ímynd sem fólk hefur af manni. Þar af leiðandi get ég ekki klætt mig í stutt pils og háa hæla að vild þó ég njóti þess sjálf að klæða mig þannig. En næst þegar fólk kemur með svona athugasemdir ætla ég, eins og þú sagðir, að segja þeim að fara bara til fjandans.

Embla: Hjá mér er þessu öfugt farið. Sjaldan er litið á fatlað fólk sem kynverur eða yfir höfuð þroskaða einstaklinga. Svo þegar ég fer á bari þarf ég að klæða mig upp extra kvenlega eins og til að sanna fyrir fólki að ég sé í alvöru kona. Ef ég myndi bara klæða mig í venjuleg föt þegar ég færi út á lífið, væri ég bara að uppfylla þessa staðalímynd. Og þar sem ég vil það ekki heldur, verður valið varla val.

Cynthia: Einmitt, við erum alltaf að reyna að laga okkur að samfélaginu. En endrum og eins má samfélagið alveg laga sig að okkur. Því eins og þú sagðir: Við erum öll mismunandi og það er ekki eitthvað til að óttast.