Vinkonur vors og blóma

Íris, Eva og Hildur ræða borgarmál, gamla fólkið á Facebook og skort á sundlaugum miðsvæðis.

Ég sat á kaffihúsi þegar ég tók eftir þeim Írisi, Evu og Hildi, tíu ára, rúlla niður Frakkastíginn á hjólabrettunum sínum. Þegar ég var á þeirra aldri voru hjólabretti fyrir stráka og kannski þess vegna sem þær vöktu athygli mína. Ákveðin að hafa uppi á þeim og forvitnast um þetta eitursvala miðbæjargengi fann ég þær í gegnum samstarfskonu vinkonu minnar. Þegar ég hitti á þær voru stelpurnar nýkomnar úr Hljómaskálagarðinum að njóta síðustu daga sumarfrísins á hjólabrettunum sem þær kalla „penny boards“. Hjólabrettið er þeirra helsti samgöngumáti og þekkja þær orðið götur miðbæjarins inn og út. Saman ræða þær um miðbæinn og samgöngur, gamla fólkið á Facebook og skort á sundlaugum í miðborginni.

Hildur: Maður er mjög fljótur að læra á svona „penny board.“
Íris: Áður vorum við mest á hjólum.
Eva: Við tökum stundum strætó í Vesturbæinn en förum eiginlega aldrei í bíl.
Hildur: Við erum ekki að gera einhver trix á brettunum, notum þau bara til þess að komast á milli staða.
Íris: Ég er samt alveg búin að vera prófa mig áfram í að fara í svona hringi.
Eva: Það eru svo sterk dekk á þessum brettum, ef einhver keyrir yfir þau gerist ekkert. Þess vegna eru þau líka mjög dýr.
Íris: Mér finnst svo fyndið að eftir að við keyptum okkur svona bretti keyptu alveg þrír eða fjórir sér svona líka. Við fundum upp á þessu. Eða nei kannski ekki alveg.
Hildur: Já, við keyptum allar á sama tíma svona bretti í sumar án þess að vita af því.
Eva: Vorum allar að hugsa það sama.
Íris: Já, ég var búin að suða í pabba og þá voru þær búnar að kaupa sér.
Hildur: Engin í sama lit, sem betur fer.

Íris: Svo eru svona einhverjir sem kaupa sér bretti en nota það síðan ekkert.
Hildur: Pósta bara mynd af sér með því á Instagram.
Eva: Ég hef ekki sett mynd af mér á Instagram með mitt bretti.

„Íris: Sjálfsmyndir og ís er líka það eina sem fólk póstar.“

Hildur: Ég er mest bara að pósta náttúrumyndum.
Íris: Sjálfsmyndir eru ofnotaðar.
Hildur: Ég heyrði af einni stelpu sem var með 28 myndir á Instagram og 27 af þeim voru sjálfsmyndir.
Íris: Ég held að sumir vilji bara fá kommentið: „Þú ert sætust“og eitthvað svona.
Hildur: En svo segir enginn það við mann í alvöru, maður hittir einhvern og þá er hann rosa feiminn en á Instagram, þá bara: „Sætasta.“

Íris: Mér er soldið heitt í þessari úlpu en get ekki bundið hana því síminn minn er í vasanum.
Hildur: Það er eins og ágúst sé að bjarga sumrinu. Það er svo heitt.
Eva: Það verður gaman að fara í skólann á brettunum á mánudaginn ef það verður gott veður.
Hildur: Strákarnir vita ekki enn að við séum á brettum en þeir fá sko að vita af því þá.
Eva: Enginn af strákunum er á bretti.
Íris: Ég er samt ekkert spennt að byrja í skólanum núna. Við erum einni kennslustund lengur.
Hildur: Maður hlakkar til þess að byrja í skólanum svona um mitt sumarið en svo kemur að því og maður er að fara að læra og vakna snemma. Frábært.
Íris: Ef ég fengi að ráða væri sumarfrí í júní alveg fram að áramótum og skólinn væri frá áramótum að júní aftur.
Eva: Ég held að manni færi að leiðast í þínu fríi.
Hildur: Já, mér finnst fríið sem við eigum núna bara alveg æðislegt.
Íris: Þetta var bara hugmynd.

Íris: Einhvern tímann þurfum við síðan að vinna á sumrin og þá fáum við ekkert sumarfrí.
Hildur: Ég verð samt í skemmtilegri vinnu, að sinna hestunum.
Íris: Þú veist þú færð ekki borgað fyrir það.
Hildur: Nei, mér er alveg sama, það er allavega vinna.
Eva: Sumarfríð er bara svo skemmtilegt, stundum hittumst við klukkan ellefu og erum úti til tíu um kvöldið.
Íris: Svo steinsofnar maður á kvöldin, búin að bretta um allan bæinn.
Hildur: Spyrja eftir stelpunum, fara á trampólínið og í sund.
Íris: Það vantar samt fleiri sundlaugar í miðbæinn, það er bara Sundhöllin.
Eva: Hún er alveg glötuð.
Hildur: Það er alveg margt sem vantar hérna.
Eva: Eins og hvað?
Hildur: Æi, maður sér svona hluti en gleymir þeim strax.

„Íris: Það mætti t.d. vera hreinna í bænum. Eins og um helgar eftir að fólk er búið að vera í bænum þá eru bjórflöskur úti um allt.“

Hildur: Og sígarettur.
Eva: Það mættu líka vera fleiri hjólastígar en þessir nýju eru mjög þægilegir.
Hildur: Mér finnst vanta fleiri staði eins og þennan, til þess að setjast niður og slaka á.
Íris: Það eru oftast bara rólóar sem eru bara fyrir litla krakka, ekkert fyrir okkur hin.

Íris: Ég elska Reykjavík en mig langar að flytja til útlanda einhvern tímann að læra kannski.
Hildur: Uppáhaldið mitt er Krambúðin á Skólavörðustíg, mjög lítil búð og mjög sjaldgæf.
Eva: Ég væri samt alveg til í að flytja til útlanda.
Hildur: Bróðir minn býr í útlöndum með kærustunni sinni og barninu þeirra. Ég er sú eina sem er með Facebook bara til þess geta fylgst með þeim.
Íris: Það er bara gamalt fólk á Facebook.
Eva: Allir eru bara með Snapchat og Instagram kannski.
Íris: Svona unglingar eru held ég bara að nota Facebook til þess að spjalla saman.
Hildur: Ég er samt ekkert að spá mikið í Snapchat, ég kíki stundum á þetta en er annars bara að hugsa um allt aðra hluti.
Eva: Já, ég líka. Maður kíkir bara svona stundum.