Aron Már

Segir frá grímunni, karlrembunni, sorginni og því hvernig hann fann betri braut eftir að hafa misst tökin á lífinu um stund.

Aron Már er 21 árs leiklistarnemi í LHÍ búsettur í Vesturbæ Reykjavíkur. Í sumar gafst honum skyndilega kostur á að leika í sýningunni Ræflavík sem sýnd var á Akureyri. Er hann því búinn að dvelja þar stóran part af sumrinu. Hann er hins vegar kominn heim og býður okkur til sín á Framnesveginn í Reykjavík. Þar segir hann okkur frá viðburðarmiklum atburðum sem hafa gengið á í lífi hans seinustu fjögur árin.

Aron Már flutti á Framnesveginn í byrjun sumars ásamt vini sínum, Agli. Hann segist hafa flakkað mikið á milli heimila undanfarin ár útaf ýmsum ástæðum; fjölskylduerfiðleikum, vinslitum og erfiðum leigusölum. „Það var síðan í mars sem okkur Agli bauðst þetta heila hús eftir að hafa misst aðra íbúð. Það á að rífa húsið og þrjú önnur hér í kring eftir tvö til þrjú ár og byggja blokk. Því borgum við skít og kanil í leigu fyrir þessa holu. Við fáum að gera allt sem okkur sýnist við eignina þar til hún verður rifin. Við ákváðum að gera það besta úr þessu og hófum framkvæmdir um leið. Við erum vanir iðnaðarmenn svo okkur tókst ágætlega til þó ég segi sjálfur frá,“ segir Aron brosandi.

„Ég held að í þetta skipti hafi mér takist að skapa heimili.“

Þegar Aron var búinn að hella uppá kaffi spyr ég hann nánar út í ástæður þess að hann hafi flakkað á milli heimila. Hann segir að hann hafi stöðugt verið að flytja sem krakki en hafi þó aldrei velt sér mikið upp úr því. Aron varði miklum tíma hjá afa sínum er hann var  yngri og síðar dvaldi hann í Svíþjóð eftir að mamma hans kynntist bandarískum manni, Keith. Saman eignuðust þau Evu Lynn litlu systur hans. „Æska mín einkenndist af stöðugum flutningum sem varð til þess að ég setti upp grímu og var því alltaf í hlutverki glaumgosans. Það var auðveldara að „fitta“ inn þannig. Það kemur manni langt að vera opinn og hress en til lengri tíma litið gerir það engum gott. Mín helsta áskorun í leiklistarskólanum hefur verið að finna út hver ég er án grímunnar sem ég hef haldið uppi öll þessi ár.“

Eftir að Aron flutti heim frá Svíþjóð hóf hann nám við Verzlunarskólann. „Ég var staðráðinn í að komast inn í Verzló eftir að hafa séð 12:00, skemmtiþátt nemendafélagsins. Þarna var ég kominn með algjöra dellu fyrir upptökum, myndavélum og að fíflast fyrir framan myndavélina.“ Í dag er Aron þó með efasemdir um skólann þrátt fyrir að hafa náð því markmiði að verða formaður 12:00 þáttarins og taka þátt í þremur leiksýningum á vegum nemendafélagsins. „Ég lærði fáránlega margt af þessu; lærði að vinna í hóp og að hafa agann í að skapa eitthvað upp á eigin spýtur. Ég myndi þó ekki mæla með þessum skóla ef stefnt er á listræna braut í lífinu.“

„Það er einhver slæða þarna yfir sem er skítalykt af; baktal, karlremba og feðraveldi.“

„Enginn veit hvað femínismi er og ég vissi það ekki sjálfur. Það er ekki fyrr en ég komst útúr þessum kassa og inn í nýtt umhverfi sem ég áttaði mig á því sem var í gangi þarna. Öll lögin sem voru gefin út í þættinum fjölluðu um að djamma og að fá að ríða, sungin af strákum með stelpur dansandi í bakgrunni. Svigrúm til þess að vera öðruvísi og gera eitthvað nýtt er síðan sorglega lítið. Þessi menntaskólaár voru tíminn sem ég hélt grímunni hvað næst andliti mínu.”

Aron talar um að á þessum tíma hafi samband hans og móður sinnar verið afar stirt sem endaði með að hann flutti út til afa síns. Þar bjó hann í rúmlega hálft ár án samskipti við móður sína. „Við vorum einfaldlega svart og hvítt á þessum tíma. Við höfðum litla þolinmæði fyrir hvort öðru sem leiddi til rifrilda og hvorugt okkar gaf eftir. Verst þótti mér hvað ég sá lítið af Evu, litlu systur. Ég man skýrt eftir því þegar Eva hringdi í mig nokkrum dögum fyrir verslunarmannahelgina 2011. Ég mátti ekki vera að því að spjalla, niðursokkinn í tölvuleik, en ég sagðist sakna hennar og lofaði að hitta hana fljótlega. Hefði ég vitað að þetta væri í síðasta sinn sem ég talaði við hana hefði ég ýtt á pásu. Ég náði þó að segjast elska hana og sakna hennar og er ég mjög þakklátur fyrir það í dag.“

Eva Lynn lést á Landspítalanum 3. ágúst 2011, fimm ára gömul. Hún hafði verið í sumarbústað ásamt föður sínum og vinafjölskyldu þeirra. Ekki er vitað nákvæmlega hvað átti sér stað en Aron segir margar kenningar á lofti. Sú líklegasta sé að Eva hafi verið að opna hliðið að bústaðnum og viljað hlaupa á eftir bílnum heim að innkeyrslu án vitundar ökumannsins sem var konan í hópi ferðarinnar, með þeim afleiðingum að hún varð undir bifreiðinni. Við krufningu kom í ljós að dekk bílsins keyrði yfir höfuðið á Evu sem lést nokkrum klukkustundum síðar. „Það er ómögulegt að vita nákvæmlega hvað gerðist en ég þekkti Evu Lynn. Það var engin jafn vanaföst og hún var. Hún vildi alltaf opna hliðið, loka hliðinu og fara síðan aftur upp í bíl. Hún hefði aldrei tekið upp á því að hlaupa á eftir bifreið, hvað þá fyrir hana.“ Aron segir sólarhringinn eftir slysið vera þokukenndan í minningunni.

„Sumt man ég betur en annað. Ég man t.d. að það hvarflaði ekki að mér á leiðinni á spítalann að hún væri dáin.“

„Ekki heldur á meðan við biðum eftir læknunum. Ég vissi reyndar að eitthvað alvarlegt hefði gerst um leið og ég mætti þar sem Keith sat alveg stjarfur, mamma í æðiskasti og hjúkkurnar sátu grátandi. En aldrei datt mér í hug að hún væri farin. Eftir að læknarnir tilkynntu okkur fréttirnar man ég ekkert meir. Ég fékk víst æðiskast og reyndi að ryðjast inn til hennar til að bjarga henni. Síðan var ég sprautaður og bundinn niður.“

Aron lýsir fyrstu dögunum: „Líkaminn setur upp einn heljarinnar varnarvegg. Þú ert ekki til, þú ert aðeins ímynd af þér. Þú ert fullkomlega tómur, það er ekkert og þú veist ekki hvernig þú átt að bregðast við umhverfi þínu. Á þeim tíma sem ég fór aftur í skólann hefði ég átt að leita mér hjálpar. Í staðinn var gríman sett upp og ég leitaði huggunar á röngum stöðum svo sem í áfengi, fíkniefnum og klámi.“

Það var ekki fyrr en í leiklistartíma í LHÍ sem Aron segir eitthvað hafa opnast innra með sér þegar hann stóð sig að því að brotna niður í miðjum tíma fyrir framan alla. „Ég lét grímuna sem ég hafði haldið þétt að mér niður. Eftir það fann ég að ég þurfti verulega að breyta einhverju. Ég sneri blaðinu algjörlega við og hætti að drekka, reykja gras og horfa á klám sem var allt orðið vandamál á þessum tímapunkti.“

„Það sem sat í mér var klámið. Það er svo auðvelt að nálgast klám og að hætta því var miklu erfiðara en ég bjóst við.“

„Á tímabili var ég farinn að horfa á stelpur sem einhverja hluti, spáði bara í rassinum og brjóstunum og var búinn að afklæða þær í huganum áður en ég byrjaði að tala við þær. Þetta var orðin fíkn sem ég leitaði í til þess að dreifa huganum.“

Aron heldur áfram: „Þetta er eitthvað sem rosalega stór hópur af strákum gerir. Maður heldur að þetta sé bara normið, að setja stelpum svona ótrúlega miklar útlitskröfur. Núna sé ég klám í allt öðru ljósi. Karlinn er ekki með nein hár á líkamanum né heldur konan. Allt er ótrúlega tilgerðarlegt. Hún er undirgefin, hann með yfirhöndina. Ótrúlega mikið karlaveldi sem er í kringum þennan bransa. En eftir að ég hætti þá breyttist hugsunarhátturinn til muna gagnvart báðum kynjunum og kynlífið varð miklu betra,“ segir hann.

Hann segir mikilvægt að fólk fái að njóta. „Eins mikið og við erum búin að opna fyrir samkynhneigð og Gaypride hér á Íslandi þá finnst mér að maður megi ekki bara vera maður sjálfur í sinni kynhneigð án þess að þurfa að passa sig á því hvert maður er að fara eða í hvernig umhverfi maður er. Okkur er kennt að vera við sjálf en á sama tíma verðum við að ákveða hvernig við sjálf ætlum að vera.“

„Fólk vill svo mikið flokka hvert annað, við fáum bara lista þar sem okkur er sagt: Þú mátt vera svona þú sjálfur eða svona þú sjálfur.“

„Ég myndi til dæmis ekkert skilgreina mig en ég er ekki bara gagnkynhneigður, ég gæti þess vegna líka verið samkynhneigður. Ég hef alveg oft horft á stráka og verið bara: „Já, næs“ og gert eitthvað með strákum. Það þarf að opna meira á þetta. Tilfinningar. Fólk þarf að hleypa þeim út öðru hvoru. En hjá okkar kynslóð er þetta auðvitað allt öðruvísi en hjá þeim eldri. Hjá okkur er miklu meira frelsi.“

Í dag er Aron á góðum stað í lífinu. Hann segist hafa notið þess að leika fyrir norðan í sumar. Bekkjarsystir hans hafi haft milligöngu um hlutverkið, þegar sárvantað hafi leikara með skömmum fyrirvara. Hann tók boðinu, flaug norður, og fékk að gista hjá frænku sinni. Hann segir að þetta hafi verið frábær reynsla og það besta hafi verið að fá borgað fyrir að gera það sem hann hefur brennandi áhuga á. Hann mun hins vegar taka sér frí frá námi í vetur og er byrjaður að aðstoða fatlaðan strák sem býr rétt fyrir utan Selfoss. Hann mun starfa þar í vetur. „Ég mun ekki halda áfram með bekknum mínum í leiklistinni þar sem ég féll í tveimur áföngum í vor. Ég stefni á að ferðast til Suður-Ameríku eftir áramót og svo hefst leiklistarnámið aftur að ári með nýjum bekk. Leiklistin á hug minn allan og ég veit að það er það sem ég vil gera í framtíðinni; að leika.“