Sisimiut

Sóley, Jakob og Óli fluttu til Sisimiut á Grænlandi fyrir ári síðan þar sem hreindýraveiðar og skinnsaumur urðu hluti af hversdagsleikanum.

Baldur Kristjáns, ljósmyndari, ferðaðist til Grænlands til að forvitnast um líf íslenskrar fjölskyldu í Sisimiut. Föstudaginn 15. ágúst verður götusýningin Sisimiut opnuð á Skólavörðustíg með ljósmyndum úr ferðinni.

Á miðri vesturströnd Grænlands, nánar tiltekið á 66. breiddargráðu, er Sisimiut, næststærsti bær landsins með um 6.000 íbúa. Eina leiðin til bæjarins er með flugi eða ferju en enginn vegur tengir Sisimiut við önnur bæjarfélög. Tilviljun réði því að hjónin Sóley Kaldal, doktorsnemi og áhættu- og öryggisverkfræðingur og Jakob Jakobsson arkitekt fluttust til bæjarins ásamt þriggja ára syni sínum, Óla. Þau dvöldu þar í eitt ár og eru nýkomin heim aftur. Bæði eiga þau rætur sínar að rekja til Reykjavíkur, hún úr Laugarnesinu en hann úr Vesturbæ. Lífið í einangruðu veiðimannasamfélagi er því ólíkt því sem þau hafa vanist. Hundasleðaferðir, skinnsaumur og hreindýraveiðar varð hins vegar fljótt hluti af hversdagsleikanum og áður en veturinn var liðinn hafði hún lært að verka fisk og sauma úr selskinni og hann tekið þátt í þriggja daga löngu gönguskíðamaraþoni.  

Sóley hafði um nokkurt skeið verið að leita sér að vinnu sem menntaskólakennari í Kaupmannahöfn. Hún tók þá ákvörðun að taka sér árs orlof frá doktorsnámi og skráði sig á vinnumiðlunarsíðu hjá danska menntamálaráðuneytinu. Einn daginn fékk hún tölvupóst þar sem auglýst var staða sem var sniðin að hennar áhugasviði. Nafnið Sisimiut hljómaði aftur á móti ekki mjög danskt og eftir að hafa flett upp póstnúmerinu kom í ljós að starfið var í 3.500 kílómetra fjarlægð. Hún leit á Jakob og spurði hvort þau ættu ekki að flytja til Grænlands. „Já, af hverju ekki?“ svaraði hann. Það var því tæknivillu, á vef danska ráðuneytisins, að þakka að Sisimiut birtist í leitarvélinni og að Grænland varð heimili þeirra næsta árið.

Áður en Sóleyju bauðst vinnan hafði hún aldrei heyrt minnst á Sisimiut. „Einu örnefnin á Grænlandi sem ég þekkti voru Nuuk og Kulusuk,“ segir hún. „Og Disko,“ bætir Jakob við. Þau voru ekki einu sinni viss hvort matvöruverslun væri í bænum, bílar, eða jafnvel ljósastaurar. „Við vissum ekkert,“ segir Sóley. Fljótlega komust þau þó að því að Sisimiut er stór bær á grænlenskan mælikvarða. Þrátt fyrir mikla einangrun eru flest nútímaþægindi til staðar og það reyndist fjölskyldunni auðvelt að aðlagast daglegu lífi. Þau segja Grænlendinga góðhjartaða, hjálpsama og brosmilda. „Og svakalega hjátrúarfulla. Þau elska draugasögur og hryllingsmyndir. Í gegnum tíðina hafa þau, eins og Íslendingar, setið í myrkrinu og sagt hvert öðru sögur. Af því að við eigum svo margt sameiginlegt; djúpstæð tengsl við náttúruna og sambandið við Dani, myndast alltaf einstök vinátta milli Grænlendinga og Íslendinga.“

Sóley lýsir kennarastarfinu. „Nemendurnir mínir eru frá sextán ára upp í fertugt. Á Grænlandi eru fáir menntaskólar og krakkarnir koma alls staðar að. Til þess að komast inn í skólann þurfa þau aðeins að klára samræmdu prófin svo þau eru misvel stödd námslega séð. Sem kennari var ég komin með ákveðna ímynd af því hvernig ég vildi vera: Kennari sem væri frekar strangur og næði aga á hópnum. Ég uppgötvaði hins vegar að svo beinskeytt nálgun virkaði illa á nemendur mína. Grænlendingar vilja almennt ekki mikið diskútera, takast á eða skeggræða málin. Auk þess spilar stóra rullu að alltof margir koma frá brotnum heimilum. Mikið af þessum krökkum þurfa frekar á því að halda að hafa einhvern til staðar, sem sýnir þeim virðingu og skilning. Svo kemur námið bara næst þar á eftir. Ég nýt þess á hverjum degi að hitta nemendur mína. Finnst þeir alveg frábærir og skemmtilegir.“

Þessari stöðu hafa hjónin aðlagast og kunna tilbreytingunni vel. „Ég kunni alls ekki að flaka fisk áður en ég kom,“ segir Sóley. „Ég þurfti að fleygja þremur fyrstu fiskunum sem ég gerði að, henti þeim út um gluggann til krumma.“ Sautján fiskum síðar var hún komin með góð tök á verkuninni. 

Í Sisimiut, eins og víðast hvar á Grænlandi, er rótgróið veiðimannasamfélag. Hvort tveggja; sjórinn og fjöllin í kring eru matarkistur og þangað sækja þorpsbúar sér ferskt kjöt og fisk til að borða allt árið um kring. Jakob hefur tvisvar brugðið sér á hreindýraveiðar ásamt félaga sínum. Hann hafði aldrei skotið úr byssu en komst að því að reglur um byssueign og meðferð skotvopna eru öllu slakari en á Íslandi. „Maður borgar einhvern tvöhundruð kall á bæjarskrifstofunni og má þá veiða allt upp í fjórtán hreindýr. Svoleiðis reglur ganga upp hérna því enginn veiðir meira en hann þarf. Veiðisvæðin eru hátt uppi í fjöllum og þurfa menn því að bera heim það sem þeir veiða. Enginn hérna er heldur með frystipláss til að geyma meira en það sem hann og hans fólk notar sjálft.“

Í fyrstu ferðinni náðu þeir félagarnir ekki öðru en nokkrum snæhérum. Í seinni ferðinni þurftu þeir að fara yfir um 18 kílómetra áður en þeir gengu fram á hjörð dýra. Þá var takmarkinu náð, að fá kjöt í frystinn fyrir allan veturinn. „Við skutum sitthvort dýrið. Félagi minn skar höfuðið af sínu dýri, ég gerði slíkt hið sama og allt sem heitir pjatt og tilfinningasemi var víðs fjarri meðan ég var að því. Ég hef borðað kjöt alla mína ævi og hefði ég ekki getað gert þetta væri ég hræsnari. Næst kenndi hann mér að skera á belginn, í barkann og undir hnén og svo hamflettum við dýrin. Þau voru sjóðandi heit að innan og síðan var hreindýralykt af manni í tvær vikur á eftir. Þegar búið er að gera að dýrinu er það erfiðasta eftir, að bera kjötið heim. 18 kílómetrar með 50 kíló á herðunum. Það var erfitt.“

Óli, sonur Sóleyjar og Jakobs, er tæplega þriggja ára og þarf að fást við þrjú tungumál dagsdaglega. Á leikskólanum tala allir vinir hans grænlensku, heima fyrir er töluð íslenska, og fólkið sem hann og foreldrar hans eiga mest samskipti við talar flest dönsku. „Hér fær hann að upplifa að vera innflytjandi, sá eini með blá augu og krullur,“ segir Jakob. „Ég vona að hann eigi eftir að hafa gott af þeirri reynslu. Á Grænlandi fær Óli að kynnast milliliðalaust hvernig maturinn verður til. Hann sér að maturinn kemur ekki bara úr frystikössunum í búðinni. Hér fylgist hann með öllu ferlinu, frá því að maður veiðir fiskinn, gerir að honum og síðan borðar. Þetta er veiðimannasamfélag.“ segir Jakob. Og Óli fer ekki varhluta af þessari menningu. „Við horfðum á Bamba fyrr í vetur og hann upplifði ekki mikla samúð með Bamba. Hann hélt með veiðimönnunum.“

Í Sisimiut eru hundasleðar algengur samgöngumáti. Flestir eru með átta til fjórtán hunda sem þarf að sinna á hverjum degi, gefa þeim að éta og sýna athygli, auk þess þarf að koma sér upp búnaði. Sóley og Jakob tóku þá ákvörðun að vera ekki með hunda en hafa þó farið í sleðaferðir upp í fjöllin í kring með vinum. „Þetta er fagurfræðileg upplifun; symetrískt og litirnir fallegir,“ segir Sóley og Jakob tekur undir: „Það er ekkert fallegra en að horfa á tíu hundarassgöt fyrir framan sig. Allir að vinna vinnuna sína, að toga sleðann upp brekkur. Það er ekki hægt að lýsa því.“ Hjónin segja að það borgi sig þó að hafa varann á. „Ef þú dettur af sleðanum þá er heppni ef þér tekst að kalla þá aftur til baka. Sumir hafa langt reipi bundið í sleðann sem þeir geta þá gripið í ef þeir detta af og dragast eftir sleðanum þangað til hundunum dettur í hug að stoppa.“ segir Sóley.

Jakob hefur verið að smíða göngusleða til að flytja ýmsar vörur og Óla litla milli staða. Til þess hefur hann þurft að læra að binda sleðann saman með sérstakri tækni því nagli, hamar og skrúfur koma ekki við sögu í hefðbundinni grænlenskri sleðagerð. „Það meikar engan sens að negla þá saman. Sleði verður að geta gefið eftir þegar þú ert að keyra hann á ójöfnu. Ef þú ekur yfir stein á sleða sem er skrúfaður saman þá springur hann í tætlur,“ útskýrir Jakob.

Sóley hefur heldur ekki setið auðum höndum og hefur meðal annars lært skinnsaum. Meðal þess sem hún hefur saumað er selskinnsjakki á Óla, hefðbundinn grænlenskan anórakk í Túle stíl. Á hettuna setti hún feld af snæhéra sem Jakob skaut og þetta gerir hún allt í höndunum. „Það sést nefnilega þegar maður saumar skinn í vél. Þá klessast hárin niður.“ Saumað er með hnausþykkum vaxbornum þræði og nauðsynlegt að herða svo á saumnum að ekki er óalgengt að fremsta kjúkan verði blóðug. „Eins og Dexter,“ segir Sóley. „En maður tekur ekki eftir því meðan maður er að hnýta.“ Jakob segir þetta vera eins þegar maður er að hnýta sleða. „Þetta verður að halda.“

Í mars á hverju ári fer fram stór alþjóðleg skíðagöngukeppni í Sisimiut, Arctic Circle Race, og fer daglegt líf í bænum meira og minna á hvolf á meðan á henni stendur. Keppendur ganga 160 km leið á þremur dögum og koma keppendur víða að úr heiminum. Þegar Sóley og Jakob komu til bæjarins um haustið var þeim sagt frá keppninni og fannst hún spennandi. „Sóley sagði við mig „Þú verður með í þessari keppni.“ Og ég sagði bara ókei. Það er voða mikið þannig í okkar sambandi.“

Fyrsti keppnisdagur rann upp og 137 keppendur stilltu sér upp á ráslínunni, þar á meðal nokkrir sem höfðu tekið þátt í vetrarólympíuleikunum fyrr um veturinn. Það var snjókoma og fimbulkuldi. „Sem betur fer var ég vel búinn, með góðan viðlegubúnað og 66° Norður styrkti mig um fatnað. Það kom sér vel,“ segir Jakob. Gangan reyndist erfið fyrsta daginn en leiðin lá mestmegnis upp. „Ég kláraði fyrstu dagleiðina, 57 km á um 9 klukkustundum.“ Seinni tvo dagana hlýnaði og Jakobi gekk betur. Reynslan frá fyrsta deginum hafði gert hann að betri skíðamanni og hann segist hafa farið að njóta þess að skíða. „Ég ákvað að hafa enga tónlist í eyrunum, heldur njóta þess að vera einn með náttúrunni. Svo heyrir maður bara í skíðastöfunum og er alveg einn í sínum heimi.“ Á sunnudeginum skilaði Jakob sér í mark eftir þriggja daga keppni við sjálfan sig og náttúruöflin. „Það var ólýsanlega þægilegt að koma í mark og hafa klárað þetta. Allur bærinn tók á móti okkur. Og Sóley og Óli náttúrulega. Ég var stoltur af sjálfum mér og hafði komið sjálfum mér á óvart.“

Þrátt fyrir að kunna vel við sig í Sisimiut stóð ekki til að framlengja vistinni lengur. „Óli á kannski ekki eftir að muna mikið eftir þessu. En við endursköpum minninguna með frásögnum og með því að sýna honum myndir. Hann mun geta sagt frá því að hann gekk í selskinsjakka sem mamma hans saumaði og ferðaðist um á sleða sem pabbi hans smíðaði. Hann á þessar sögur,“ segir Sóley.

Jakob og Sóley segjast einnig hafa margt í farteskinu. „Við tókum þá ákvörðun að flytjast á stað þar sem við erum víðs fjarri hringiðunni, hvorki með sjónvarp né internet. Hérna bregður maður sér út í göngutúr og upplifir mögnuðustu ljósaskipti sem maður getur ímyndað sér. Tíu mínútum seinna stendur maður sig að því að hafa bara staðið kyrr og horft upp í himininn með tárin í augunum. Um leið og maður hefur losað sig undan amstri dagsins hefur maður meiri tíma til að upplifa þessa hluti. Þó að þetta sé tímabundin vera hérna þá verðum við að taka eitthvað af þessu með okkur þangað sem við förum næst.“