Vietnam market

Blær spjallaði við Megan og Quang Li sem reka verslunina Vietnam Market á Suðurlandsbraut

Sæt mangólykt fyllir vitin þegar gengið er inn í Vietnam Market á Suðurlandsbraut. Tilfinningin er líkt og Reykjavíkurkuldinn hafi vikið frá eitt augnablik og Víetnam sólin tekið á móti manni. Quang Li og Megan flutti til Íslands fyrir um tíu árum en hafa rekið verslunina í rétt rúm fimm ár og vinsældir hennar hafa vaxið stöðugt frá opnun. Þau segja sífellt meiri áhuga á austrænni matargerð hér á landi en í búðina flytja þau inn vörur frá Víetnam, Tælandi, Indlandi, Singapúr og Kína. Þau fá ferskt grænmeti vikulega, allan ársins hring frá Víetnam og Kambódíu.

Quang Li og Megan koma bæði frá Ha Long Bay flóa í Víetnam, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Þangað flykkjast milljónir ferðamanna á hverju ári og segja þau staðinn alveg yndislegan. Bæði bera þau miklar tilfinningar til Víetnam og reyna að sækja landið heim reglulega. „Ég elska Ha Long Bay á sumrin,“ segir Quang Li brosandi er við spyrjum hann út í uppeldisslóðirnar „en það er líka yndislegt að vera hérna á Íslandi“.

Hvernig mat er hægt að kaupa í búðinni?

Víetnam er frægt fyrir víetnömsku núðlusúpuna og hvert hérað hefur sína ólíku súpugerð. Þekktasta núðlusúpan er Pho sem er nautasúpa og við seljum einmitt krydd til þess að búa til súpukraftinn. Við erum einnig með krydd til að búa til Bún bò Huế sem er frægur sterkur núðluréttur.

„Víetnamskar vorrúllur sem gerðar eru úr hrísgrjónablöðum eru einnig mjög vinsælar. Það er mjög einfalt að búa þær til, en þær innihalda oftast grænmeti og núðlur. Hrísgrjónablöðin eru hörð og örþunn en ef maður setur blöðin í volgt vatn í nokkrar sekúndur verða þau mjúk og þá er hægt að vefja þeim saman.“

Blær prófaði þessa einföldu uppskrift.

Annars erum við með alls konar mat hjá okkur. Til dæmis erum við með fersk karrý lauf sem er tilvalið að nota í indverska rétti. Við fáum gott úrval af frosnum fisk frá Indlandi, Víetnam og Tælandi. Svo er hægt að kaupa Thai jurtate sem er gott fyrir meltinguna eftir barnseignir. Við erum með mikið úrval af alls kyns kryddum, chili, grænum pipar og einnig bjóðum við upp á bambus.

Quang Li segir Pho nautasúpuna vera í persónulegu uppáhaldi enda varla hægt að teljast Víetnami nema elska blessaðan þjóðarréttinn. „Ég borðaði mikið af honum hér áður fyrr en eftir að við opnuðum Vietnam Restaurant borða ég enn meira.“