Heimsókn í Algera Studio

Sunneva og Ýmir segja okkur frá uppbyggingu Algera Studio

Með hækkandi leigu í miðbæ Reykjavíkur þar sem hótel og lundabúðir spretta upp á hverju götuhorni hefur orðið æ dýrara fyrir listamenn að setja upp vinnustofur eða gallerí. Á sama tíma er ætlast til þess að listamenn setji svip sinn á miðborgina og skapi menningu. Það er hins vegar erfitt ef ekkert er komið til móts við þá. Reykjavík er vaxandi ferðamannastaður en listamenn hafa ekki endilega áhuga á því að viðhalda ímynd miðbæjarins sem listamannahverfis í þágu ferðamannaþjónustunnar. Sífellt fleiri leita því annað og hreiðra um sig fjarri miðborginni. 

Algera Studio var stofnað af listamönnunum Sunnevu Ásu og Ými Grönvold. Sunneva útskrifaðist í fyrra úr Listaháskólanum og Ýmir úr Myndlistaskólanum í Reykjavík. Þau eru sammála um að brýn þörf sé á að bæta aðstöðu og samstöðu fyrir nýútskrifaða listamenn.

Sunneva og Ýmir tóku til sinna ráða fyrir rúmu ári og tóku í gegn iðnaðarhúsnæði uppi á Höfða. Þau smíðuðu flest allt sjálf með hjálp frá vinum og vandamönnum. Afraksturinn var Algera Studio, alhliða vinnustofa þar sem fjölbreytt flóra listamanna úr ólíkum áttum starfar frá degi til dags. Listamönnum býðst að leigja pláss hjá þeim yfir lengri eða skemmri tíma og einnig við sérstök tímabundin verkefni. Margir hafa þegar nýtt sér aðstöðuna til þess að vinna í verkum sínum hvort sem um er að ræða dans, myndlist, upptökur, innsetningar, götulist eða tónlist. Mikið líf hefur kviknað í stúdíóinu en aðstaðan býður upp á sýningar, viðburði, tónleika og uppákomur sem þau hyggjast halda nóg af í sumar.

Hvernig hefur starfsemin gengið?

Sunneva: Starfsemin hefur gengið gríðarlega vel eftir að við kláruðum rýmið. Hér er stöðug umferð, fólk að koma og fara, þá sérstaklega síðustu daga. Ég var til dæmis að ljúka tökum og klippingu á tónlistarmyndbandi fyrir nýju hljómsveitina East of my Youth. Við Kata Mogensen unnum líka verkið sem prýddi plötuumslagið fyrir „Komdu til mín Svarta Systir“ með Mammút hér í stúdíóinu. Núna erum við að skipuleggja alls konar námskeið sem okkur langar til þess að halda í sumar. Við höfum nú þegar verið með opið námskeið í módelteikningu.

Hvað þarf til þess að byggja upp heilt stúdíó?

Ýmir: Maður kemst langt á viljanum.

Sunneva: Við erum bæði í fullri vinnu sem persónulegir aðstoðarmenn munnmálara og þannig höfum við fjármagnað framkvæmdirnar hingað til. Hér tölum við um að það sé sexí að vera duglegur.

Hver er framtíðarsýnin hjá Algera Studio?

Sunneva: Í framtíðinni sjáum við fyrir okkur net, þ.e.a.s. að starfa með öðrum vinnustofum víðs vegar um landið. Þá er hægt að skiptast á rými og nýta aðstöðu hvers annars. Markmiðið er einnig að fara með samstarfið út fyrir landsteina og byggja tengslanet út um allan heim. En annars þarf listasamfélagið á Íslandi kannski á viðhorfsbreytingu að halda og koma sér út úr miðbænum. Þið getið ímyndað ykkur virknina ef það væri meira um stórar og góðar vinnustofur. Það tekur tíu mínútur að taka strætó en ekki hálfan handlegg.

Ýmir: Hérna hefur líka skapast atorka og samstaða þar sem allir eru tilbúnir til þess að hjálpast að. Það njóta allir góðs af fjölbreytileikanum sem myndast við það að ólíkir listamenn vinni undir sama þaki og deili þekkingu og reynslu.

Orka og metnaður umlykur þennan stað, hvernig hafa viðtökurnar verið?

Ýmir: Viðtökurnar hafa verið vonum framar. Við erum alls ekki að finna upp hjólið hérna og heldur ekki stúdíó sem slíkt en það er greinilegt að fólk sér eitthvað ferskt í þessu.

Sunneva: Ef þetta er hvetjandi fyrir unga listanema þá er það frábært, algjör plús.