Marteinn Sindri

Marteinn eldar fyrir okkur nýrnabaunaburrito og spjallar um heimspeki brossins

Á gráum sunnudegi í huggulegri íbúð á Vesturvallagötunni býður Marteinn Sindri heimspekingur, útvarpsmaður og lífskúnstner í mat. Vegna skemmtanahalds kvöldsins áður eru gestir ýmist seinir eða ekki til staðar. Gestgjafinn sjálfur tekur á móti okkur vafinn handklæði, nýskriðinn úr rekkju og á eftir að versla í matinn. Ekki er annað í stöðunni en að sameinast í hópferð í Nóatún til að versla inn fyrir fámennt en góðmennt matarboð.

Á leiðinni segir Marteinn okkur frá þeim spennandi verkefnum sem hann mun takast á við í sumar. Ásamt systur sinni, Katrínu Helenu, hlaut hann styrk frá Rannís til rannsókna á engu öðru en brosinu. Þau hyggjast skoða brosið í menningarlegu og félagslegu samhengi út frá öllum mögulegum vinklum t.d. hvernig konur og karlar brosa með ólíkum hætti. Þá er Marteinn að vinna að útvarpsþætti, Ölduróti tímans, sem er fjögurra þátta sería sem fluttar verða á ólíkum stöðum í ólíkum stofum. Verkefnið verður með listasmiðju á LungA í sumar þar sem unnið verður með ólík listform til túlkunnar á tímanum. 

„Hugmyndin er að fara með útvarpið út fyrir útvarpshúsið og vekja athygli á því sem miðli en ég tel hann hafa verið vanmetinn síðustu ár.“

Er mikið eldað á þessu heimili?

Já, ég reyni að borða heima flest kvöld vikunnar en ég veit ekki hvort túnfiskdolla með kotasælu og ólívum geti talist til eldamennsku. Ég fylgi aldrei uppskriftum, ég nánast hræðist þær, því þar stefnir maður að einhvers konar fullkomnun sem ég vil frekar skilgreina sjálfur. Ég veit aldrei hver útkoman verður og spila þetta oftast eftir eyranu. Ég er lítið fyrir að elda kjöt enda finnst mér kjúklingur frekar óspennandi, svínakjöt asnalegt og lambakjöt spari. Ég nota því mest alls konar grænmeti.

Nú hefst eldamennskan, byrjum á einu avókadó?

Já, eitt avókadó, maukað, með smá salti. Þetta er besti en á sama tíma versti ávöxtur í heimi en mér sýnist við hafa verið heppin í þetta skiptið. Mér skilst að til sé Facebook grúppa sem heitir „avókadó/mangó“ þar sem fólk lætur vita hvar og hvenær er verið að selja þroskuð mangó og avókadó í búðum. Ég gæti skipulagt líf mitt með allt öðrum hætti væri ég aðeins virkari á Facebook.

Hvert er næsta skref?

Ég byrja yfirleitt alla mína eldamennsku eins. Hvort sem ég matreiði karrý, súpu eða kjúklingarétt þá legg ég áherslu á sama grunninn: laukur, hvítlaukur og grænmeti steikt upp úr salti, olíu og kryddi. Í þessari tilraun ætla ég að bæta við sveppum og baunum en það má setja hvað sem er, hér er ekki hægt að gera neitt vitlaust. Ég reyni auðvitað að hrista upp í þessu á milli rétta svo mataræðið sé ekki einsleitt en þetta er góður staður til þess að byrja á og gerir eldamennskuna einfalda. Síðan bæti ég grænmetistening út í og smá af cayenne pipar sem ég er hrifinn af. Þessi krukka hefur enst mér í tvö ár enda má alls ekki setja of mikið. Þá má leyfa þessu að malla og skera niður grænmeti í leiðinni. 

Hvenær hófst áhuginn fyrir því að elda?

Ég byrjaði að elda fyrir sjálfan mig þegar ég flutti til Þýskalands í skiptinám. Ég bjó fyrir utan Berlín rétt hjá Potsdam í litlum fallegum bæ þar sem var lítið um að vera. Það var mikið álag að flytja í nýtt land og hausinn á mér var stöðugt á milljón. Þá fann ég ákveðna slökun í því að koma heim, setja á tónlist og elda í klukkustund eða tvær. Það var mikill gæðatími sem mér þótti vænt um. Ég er enginn listakokkur en ég komst að því að ég hef gaman að þessu og hver sem er getur lært að elda.

Mamma útbjó þessa úrklippubók handa mér þegar ég flutti að heiman. Þetta er samansafn af uppskriftum og húsráðum með myndum af okkur fjölskyldunni inni á milli. Hérna er t.d. að finna „klassa“ uppskrift af grjónagraut.

Þegar fersku grænmeti, avókadómauki með kotasælu, rifnum osti og steikta grænmetisbaunaréttnum hefur verið listilega raðað á stofuborðið setjumst við niður til að snæða. Marteinn vefur sér burrito sem hann setur svo í samlokugrill. „Ég fékk grillið frá mömmu og pabba í jólagjöf en var ekkert búin að nota það lengi þegar ég ákvað að smella burrito í það um daginn. Og það líka þrælvirkaði. Matargerð er náttúrulega tilraunastarfsemi, þetta er tilraun númer svona 387.“