Steinunn Eyja og Björn Steinar

Segja frá skólanum, sambúðinni og kynnum sínum af Ikea.

Björn Steinar og Steinunn Eyja búa saman í örsmárri risíbúð á Grettisgötunni. Þau eru bæði að læra hönnun við Listaháskóla Íslands, Steinunn fatahönnun og Björn vöruhönnun. 

Hvað hafið þið verið kærustupar lengi?

Björn: Sko, við vorum fyrst skotin í hvort öðru þegar við vorum pínulítil.
Steinunn: Við vorum ekkert pínulítil, við vorum á fyrsta ári í menntaskóla!
Björn: En það mistókst alveg harkalega. Það er of skrítið til þess að tala um. Við töluðum ekkert saman í svona tvö ár eftir það.
Steinunn: Já, það var mjög fyndið. En svo sá ég Bjössa þegar hann var nýkominn frá Asíu og þá varð ég í fyrsta sinn alvöru skotin í honum. Nú erum við búin að vera saman í næstum tvö ár!

Það er afskaplega heimilislegt hjá ykkur, hvað hafið þið búið hérna lengi?

Björn: Við erum búin að búa hérna síðan í byrjun sumars.
Steinunn: Við erum búin að flytja fjórum sinnum á rúmu ári. Fyrst flutti Bjössi inn til mín á Laugaveginn, í pínulitla íbúð, svona helmingi minni en þessa. Svo fluttum við á Grettisgötu í rosa fína risíbúð. Síðan fluttum við í aðra íbúð á Laugavegi og svo komum við hingað.
Björn: Mikið flakk en alltaf á sömu götunum. Það er samt mjög hentugt. Við vinnum bæði hérna rétt hjá og svo er alls ekki langt í skólann.

Hvernig er það að vera saman í skóla? Eruð þið ekki mikið saman?

Steinunn: Jú.
Björn: Nei.
Steinunn: Ég held sko að á meðan maður er í svona krefjandi og tímafreku námi þá þurfi maður annað hvort að vera með einhverjum sem er í sama skóla eða bara vera á lausu. Það er bara svo ótrúlega lítill frítími.
Björn: Já, ég held að það væri skelfilegt að vera í sambandi með einhverjum sem væri ekki með mér í skóla.
Steinunn: Auðvitað er það alveg hægt, ég er ekki að segja það, en það væri bara erfiðara. Stundum er bara ótrúlega mikið að gera í þrjár vikur og þá verður maður að búa við skilning heima við.
Björn: Það er mjög þægilegt. Þegar það eru yfirferðir hjá okkur á sama tíma þá löbbum við saman í skólann og svoleiðis.

Hvernig líkar ykkur námið?

Björn: Ég kann mjög vel við mig í vöruhönnun. Stundum tekur maður reiðisköst og skilur ekkert hvað maður er eiginlega að gera en ég held að það sé bara eðlilegt. Ég er að fatta svolítið núna hvað námið snýst í raun og veru um. Á fyrsta ári vissi maður ekkert hvað maður var að gera. Þegar ég sótti um hélt ég til dæmis að ég væri bara að fara að sitja í sófa og hugsa. Svo þegar ég fengi góða hugmynd þá myndi ég smíða stól eða eitthvað álíka. Þetta er alls ekki þannig. Fyrsta árið vorum við að strauja þara og smíða hirslur og alls konar. Mikil konsept-vinna í gangi; það skiptir engu máli hversu fallegan hlut þú býrð til ef það er ekki sterk pæling á bakvið hann. Maður er aldrei bara að smíða stól.

Steinunn: Maður lærir rosalega mikið þarna. Ég var svolítið óánægð eftir síðustu önn af því að það var mjög mikið álag á okkur en ég þurfti bara smá tíma til að jafna mig. Núna er ég mjög ánægð. Á þessari önn erum við mikið búin að vera að læra um það hvernig fatahönnunarbransinn virkar; þetta er ekkert rómantískt en það er mjög gagnlegt að kynnast öllum hliðunum.
Björn: Þetta er raunar frekar leiðinlegt nám ef maður nýtir sér það ekki rétt. Maður verður að finna leið til þess að aðlaga það áhugamálum sínum. Ég hef til dæmis alltaf haft mikinn áhuga á plöntum og ætlaði meira að segja að verða garðyrkjumaður og fer oft í þá áttina með verkefnin mín. Núna er ég að búa til nýstárlegt vökvunarkerfi.
Steinunn: Í svona námi þarf maður að standa með hugmyndum sínum, það er ekkert rétt eða rangt.

Eruð þið að stefna á að fara í skiptinám?

Steinunn: Já, við erum búin að sækja um í Eindhoven í Hollandi. Ég vil helst bara ferðast innan Evrópu, ég hef alltaf verið svona. Ég held bara að ég sé svolítið lífshrædd. En Bjössi hefur farið út um allt!
Björn: Ég var að segja við Steinunni í gær að mig langaði að vera búinn að heimsækja allar heimsálfur áður en ég yrði þrítugur. Hún sagði: „Já, gerðu það!“
Steinunn: Það er ekki það að mig langi ekki að fara með þér eða að ég sé eitthvað fordómafull. Mér finnst bara gott að þekkja einhvern innan seilingar, þannig að það er mjög gott að við séum að stefna á Holland.
Björn: Já, ég var skíthræddur við að sækja um þar. Mér finnst það vera svona mekka hönnunar þessa dagana.
Steinunn: Það er samt svolítið fyndið að við séum að sækja um á sama stað því þar sem er góð vöruhönnun er sjaldnast spennandi fatahönnun. Þetta er rosa mikið bara annað hvort eða í þessum skólum þarna úti. En Eindhoven virkar eins og hann virki fyrir okkur bæði.
Björn: Svo langar okkur að fara í starfsnám í Berlín næsta vor. Ég verð að komast aðeins í burtu. Ég vil meina að það sé bara vanafesta að búa á Íslandi, maður er svo háður því að þekkja alla.
Steinunn: Það er náttúrulega ákveðið öryggi að búa í svona litlu sætu landi. Ísland væri alveg snilld ef að stjórnmálaástandið væri betra. Það er bara ekkert að viti að gerast í þeim geira.

Hafið þið ferðast mikið saman?

Steinunn: Við fórum saman til Barcelóna og Helsinki síðasta sumar. Sáum Tove Jansson sýningu í Helsinki, það var magnað. Hún var ótrúlega flink, gerði svo margt meira en bara Múmínálfana. Eftir það heimsóttum við pabba minn og konuna hans í Svíþjóð.
Björn: Í Ikea-bæinn Älmhult. Það er a.m.k. þriðjungur af bæjarbúum að vinna fyrir Ikea. Þeir eru sko með heimsyfirráðastefnu. Á næstu sex árum ætlar Ikea að tvöfalda sölu sína á heimsvísu. Opna búðir í öllum bæjum í Kína og Japan.
Steinunn: Pabbi og Anna, konan hans, vilja endilega að við flytjum til Svíþjóðar og förum að vinna hjá Ikea; ég sem textílhönnuður og Bjössi sem vöruhönnuður. Við erum nú eitthvað efins um það.
Björn: Ég held ég muni aldrei vinna hjá Ikea. En hver veit, kannski fæ ég svaka gott tilboð einhvern tímann.

Eigið þið mikið af sameiginlegum áhugamálum?

Björn: Okkur finnst gaman að fara saman í útilegur.
Steinunn: Já, það er gaman að spila rommí og fara í útilegur. Svo fáum við okkur gjarnan rauðvín saman og matur er stórt áhugamál hjá okkur; bæði að borða saman og að elda saman.
Björn: Við erum ekki svona hobbí-fólk, ekkert í því að klifra eða eitthvað svoleiðis. Við erum eiginlega bara pínu haugar.
Steinunn: Mér finnst við alltaf vera að gera eitthvað saman og mér finnst það gaman. Ég veit ekki hvað við erum að gera en það er eitthvað.
Björn: Líf mitt í hnotskurn! Ég hef ekki hugmynd um það í hvað peningarnir mínir fara og ég veit ekkert hvað ég er að gera en dagarnir líða og peningarnir hverfa og ég hef það ágætt.

Gaman að fá að skyggnast aðeins inn í líf ykkar. Er eitthvað sem þið viljið koma á framfæri að lokum?

Björn: Tófúnaggar og chillipestóið hans Jamie Oliver. Besti þynnkumatur í heimi. Eitthvað sem allir verða að smakka.
Steinunn: Maður þarf ekkert að hugsa, bara skella nöggunum inn í ofn og smyrja svo á þá pestói. Tada!