Oddur og Saga

Að búa með besta vini sínum.

Það er hvorki óalgengt né óvenjulegt að ólofað ungt fólk sem vill flytja úr foreldrahúsum bregði á það ráð að finna sér meðleigjanda. Í flestum tilfellum er það bæði hagstæðara og skemmtilegra. Oddur Júlíusson og Saga Garðarsdóttir eru bestu vinir sem hafa búið saman í 3 ár. Þau eru bæði leikarar og oft mikið að gera hjá þeim. Þegar þau eru heima á sama tíma hella þau upp á te, borða dökkt súkkulaði og tala um lífið, listina, leikfimi og ástina. Við heimsóttum þau snemma á mánudagsmorgni og ræddum hvaða afleiðingar það getur haft fyrir erfðargripi ef það gleymist að kaupa klósettpappír, hvað einkennir góðan sambýling og hvernig það er að búa með besta vini sínum.

Oddur og Saga voru bæði í leiklistarskólanum þegar þau byrjuðu að búa saman en þekktust lítið sem ekkert. „Ég þekkti Sögu nánast bara af afspurn en var búinn að vera að leita mér að íbúð og meðleigjanda í smá tíma. Svo leist mér bara vel á Sögu og hugsaði að það væri örugglega gaman að búa með henni.“

Þau hafa búið á Sólvallagötu síðan í mars og eru hæstánægð. „Þetta fer að nálgast fulla meðgöngu hjá okkur. Núna væri barnið kannski á stærð við stóra kókdós.“ Saga hlær og heldur áfram. „Fyrst bjuggum við saman í litlum kjallara á Grenimel. Þar komumst við að því að maður verður oft óhamingjusamur í kjallara. Seinna fluttum við á Kaplaskjólsveg og svo hingað á Sólvallagötuna.“ Íbúðin er öll undir súð sem getur reynst ákveðin áskorun fyrir hávaxna einstaklinga. „Við höfum prófað að búa við ýmiss konar lofthæð. Það er kannski fremur fágætt að líða vel í íbúð sem hentar manni illa líffræðilega séð.“ Oddur hlær að meðleigjanda sínum og bætir við: „Saga passar ekki inn í helminginn af íbúðinni, hún er sífellt að reka hausinn í. Það eykur bara viðbragðshæfnina hjá henni.“

Þegar maður er með meðleigjanda þarf að hafa ýmsa hluti í huga til þess að hlutirnir gangi átakalaust fyrir sig. Einfaldir hlutir eins og uppvask geta orðið að viðkvæmri deilu sem sprengir allt í háaloft. Oddur og Saga eru sammála um að mikilvægt sé að tala um hlutina áður en þeir verða að einhverju stærra og viðameira. En sumum finnst það erfitt og þá luma þau líka á öðru ráði. „Stundum getur verið gott að semja bara lítið lag. Oddur hefur stundum notað það á mig og hefur það gert stormandi lukku. Hann kemst upp með að segja alls konar hluti og ég klappa bara með. Það getur líka verið gott að kunna nokkra brandara og taka stundum til. Það hefur aldrei drepið neinn.“ Oddur tekur undir með meðleigjanda sínum og viðurkennir að hann grípi stundum í gítarinn ef eitthvað liggur þungt á honum. „Það er svo ótrúlega leiðinlegt ef eitthvað eins og uppvask, sem engum finnst skemmtilegt umræðuefni, fer að setja eitthvað strik í reikninginn.“

Í kjölfar sambúðar verða oft til skrifaðar og óskrifaðar reglur um hvernig samlífið skuli fara fram. Oddur og Saga kannast vel við það. „Hér vöskum við til dæmist alltaf upp með heitu vatni og sápu. Það er eitthvað sem ég hafði ekki tileinkað mér áður en ég fór að búa með Oddi. En þessi regla hefur hjálpað okkur mikið og gert alla okkar sambúð betri og léttari.“ Oddur skýtur inní. „Þessa reglu þurfti ég að skrifa niður. Saga hefur kannski ekki mikla heimilishugsun. En hún vill rosalega vel og er viljug að læra. Það er líka bara svo ótrúlega gott og gaman að búa með bestu vinkonu sinni. Saga er mikið á ferð og flugi og það er alltaf mikið að gera hjá henni þannig að ég er oft einn hér heima sem mér finnst bara huggulegt. En svo kemur hún hérna eins og stormsveipur af gleði.“

Oddur og Saga eru bæði upptekin í allskyns verkefnum og af þeim sökum stundum lítið heima við. En þegar þau eru heima á sama tíma sitja þau í stofunni, drekka te og hlusta á tónlist. „Svo tölum við um lífið og ástina. Stundum erum við ekki einu sinni að hlusta. Tölum hvort ofaní annað og erum bara að tappa af.“ Saga hlær og heldur áfram. „Við erum náttúrulega bæði leikarar! Svo tölum við alveg stundum um hluti sem skipta máli. Við tölum oft um vinnuna. Það er mjög verðmætt að búa með einhverjum sem starfar í sama geira og maður sjálfur. Viðra áhyggjur og hugmyndir varðandi vinnu og verkefni. Við gerum það mjög mikið. Þá kemur líka tilfinningagreind Odds sterk inn, ég hef mikið hlustað á hann í þeim efnum.“ 

„Svo er líka miklu skemmtilegra að búa með einhverjum sem er gaman að tala við. Það er ekkert sem við getum ekki spjallað um.“ 

Engin sambúð er með öllu átakalaus. Því hafa Oddur og Saga ekki farið varhluta af. „Amma og afi gáfu mér Lesbók Morgunblaðsins frá árinu 1997, afmælisrit Leikfélags Reykjavíkur. Nokkurskonar óhefðbundinn erfðagripur. Það hafði gleymst að kaupa klósettpappír og Saga hafði í einhverju óðagoti gripið í Lesbókina og rifið forsíðuna niður í nokkra snyrtilega strimla án þess að átta sig á tilfinningalegu gildi pappírsins.“ Saga skýtur inní: „Ég hélt að þetta væri bara gamalt fréttablað. En svo varð ég auðvitað alveg miður mín þegar Oddur útskýrði fyrir mér að ég hefði rifið niður erfðargripinn hans og skeint mér á honum. Ég veit ekki hvernig maður bætir svona upp. Ég keypti súkkulaði, skrifaði fallegt bréf og barst einlæglegrar afsökunnar.“ Saga sýnir okkur fallegt innrammað bréf. „Svo fær Oddur bara að segja fólki frá þessu því þetta er ágætis saga. Ég hef svolítið borgað fyrir þetta með mannorði mínu. Erfðagripur fyrir mannorð, það eru ágætis skipti.“ 

Allt gott tekur enda og þar eru sambúðir hvergi undanskildar. Sameiginlegum fjárfestingum getur verið erfitt að skipta upp þegar hverskyns sambúð líður undir lok. En Oddur og Saga voru skynsöm í þeim efnum „Við keyptum okkur þessi plaggöt eftir Sigga Eggerts. Þetta er svona sameiginleg fjárfesting, voða fullorðins.“ Saga heldur áfram: „Það góða við þau er að það er ekkert mál að skipta þeim á milli okkar. Ef eitthvað kemur uppá og við hættum að búa saman tökum við bara sitthvort plaggatið og förum hvort okkar leið. Þau geta alveg staðið ein og sér og verið voða fín. Myndirnar eru samt bestar saman, svolítið eins og við Oddur.“