Fólkið á Leifsgötu

Býr í sátt og samlyndi með útsýni yfir rassinn á Guði.

Í 101 Reykjavík er lítil gata nefnd eftir Leifi heppna sem er full af fuglum, köttum og áhugaverðu fólki. Íbúar götunnar ræða saman um týnda ketti, götuhátíð og önnur aðkallandi málefni á fésbókarsíðu hennar. Orðspor götunnar markaðist í nokkur ár af tveimur morðum sem framin voru þar á stuttu tímbili en viðmælendur okkar voru allir sammála um að Leifsgata væri róleg, vinaleg og að þar væri einstaklega gott að búa.

Leifsgata 12

Steinunn „Eldflaug“ Harðardóttir, tónlistarkona býr á Leifsgötu ásamt Ísaki, kærastanum sínum. Steinunn á þrjú uppáhalds dýr: snáka, pomeranian hunda og bænarækjur.

„Leifsgatan er svo notaleg. Nágrannarnir banka bara uppá og koma inn í kaffi. Svo eru líka alltaf að koma gestir af því að þetta er svo mikið í leiðinni. Ég held að ein ástæða þess að manni fer að þykja svona vænt um götuna sé af því að hún hefur slæmt orð á sér en þetta er í raun bara besta gata og allir íbúar mjög vinalegir.“

„Hallgrímskirkjan sér til þess að maður veit alltaf hvað klukkan er. Ég er stundum svolítið sein þegar ég á að mæta eitthvað þannig ég er eiginlega alltaf að hjóla einhvers staðar nálægt kirkjunni þegar klukkurnar hringja. Það getur samt verið pínulítið erfitt þegar ég er heima að taka upp tónlist, þá þarf ég að loka öllum gluggum svo það heyrist ekki í þeim þegar ég syng.“

Leifsgata 26

Lóa Auðunsdóttir er aðjúnkt í hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Lóa og Mía, dóttir hennar, hafa búið á Leifsgötu síðastliðin 9 ár. Þær eiga einn páfagauk sem á kærasta í næsta stigagangi.

„Það er allt í svo mátulegri fjarlægð héðan. Maður verður lítið var við bæjarlæti en er samt kominn niður í bæ eftir 5 mínútur. Það er algjör draumur. Mía á líka skólasystur í næstu stigagöngum þannig að það er mikill samgangur á milli sem er æðislegt.“

„Húsið sem við búum í, ásamt fleirum í götunni, var byggt fyrir herforingja í stríðinu á sínum tíma. Það var byrjað á að byggja eina hæð og síðan bætt ofan á. Ég [Lóa] hef ekki breytt íbúðinni neitt síðan við fluttum inn.“

Leifsgata 28

Stefán Jónsson er leikari, leikstjóri og prófessor við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands. Stefán býr á Leifsgötu ásamt börnum sínum og nýtur þess að fara út að hlaupa í hverfinu nokkrum sinnum í viku.

„Ég er ekki búinn að búa hérna lengi, bara síðan í fyrravor. Ég hef búið í póstnúmerinu 101 alla mína tíð en hef alltaf verið hinum megin við Hallgrímskirkju. Fyrst fannst mér ég vera að flytja í úthverfi, gangan yfir Skólavörðuholtið var rosalega löng. En svo er þetta auðvitað ekkert mál.“

„Hallgrímskirkja hefur alltaf verið miðpunktur í tilveru minni og ég verð mikið var við hana. Það er nýtt fyrir mér að sjá aftan á kirkjuna, maður er miklu vanari að sjá bara framan á hana. Núna sér maður rassinn á Guði, sem er skemmtilegt.“

Leifsgata 18

Jón Þorsteinsson, Högna Ingunnardóttir og sonur þeirra Þorsteinn Tyrfingur hafa búið á Leifsgötu í rúmt ár. Jón og Högna eru hvorugt með bílpróf svo litla fjölskyldan fer allra sinna ferða fótgangandi.

„Við sáum íbúðina auglýsta þegar við vorum á leiðinni í sónar. Við vorum ekkert viss um að við myndum fá hana af því það var svo mikið af fólki sem kom að skoða. En svo gekk það eftir og það fer mjög vel um okkur hérna.“

„Það er alveg rosalega fallegt að rölta upp götuna og sjá aftaná Hallgrímskirkju, tvímælalaust eitt besta útsýnið í Reykjavík. Svo er gatan líka svo vinaleg og allir bjóða góðan daginn. Það er ekkert alls staðar þannig og okkur finnst það voða notalegt.“

Leifsgata 10

Ragnheiður Maísól, Ragnar Ísleifur og sonur hans Ari Ísleifur búa ásamt kettinum Míu á Leifsgötu. Ragnheiður Maísól setti á fót fésbókarsíðu Leifsgötunnar þar sem íbúar götunnar hafa rætt ýmislegt smávægilegt sem og stórtækt.

„Ég [Ragnheiður Maísól] og vinkona mín spiluðum mikið Kubb útí garði á sumrin yfir nokkra ára tímabil. Einu sinni hitti ég strák í partýi sem bjó á Eiríksgötu og það kom til tals að ég byggi á Leifsgötu. Hann kannaðist þá við mig sem „Kubb-stelpuna“. Ég bauð honum að koma og vera með næst þegar við spiluðum en hann kom aldrei. Kannski hélt hann að ég væri að grínast en ég var alveg að meina það.“

„Það er rosalega gott að búa hérna. Leifur var náttúrulega heppinn. Það gæti haft eitthvað um þetta að segja. Eiríkur var rauður, Egill stór og svakalegur en Leifur, hann var heppinn.“

Leifsgata 7

Gunnar Tynes tónlistarmaður flutti á Leifsgötu fyrir fjórum mánuðum. Hann á engin dýr en fullt af pottaplöntum sem krefjast umhyggju og athygli.

„Ég fíla hvað Leifsgatan er mikill leynistaður. Fólk er ekkert að koma hérna að óþörfu, enginn að stytta sér leið eða svoleiðis. Það er ótrúlega rólegt hérna, sem er fyndið því gatan er þekkt sem morðgatan.“

„Einn besti matur sem ég hef smakkað er djúpsteiktur smokkfiskamunnur. Ég fékk þannig í Taívan. Það er geðveikt gott. Mjög sterkt en mikið gúmmelaði. Ég veit ekki meir.“