Gísli í Dalsgarði

Síðasti rósabóndinn í dalnum.

Gísli Jóhannsson í Dalsgarði er eini rósabóndinn sem er eftir í Mosfellsdal. Hann er fæddur og uppalinn í garðyrkju og heldur ótrauður áfram þó svo að garðyrkjan geti einkennst af eilífum vandamálum. Gísli fór með okkur í göngutúr um Dalsgarð og fræddi okkur um rósarækt, hvernig tölvuvæðingin hefði breytt blómaræktun á undanförnum árum og hvaða leið blómin færu úr mold í vasa.

Gísli segir okkur frá barnæsku sinni, en blómarækt hefur verið hluti af lífi hans frá blautu barnsbeini. „Foreldrar mínir byrjuðu í blómaræktun hér í kringum 1950 og ég fæðist 1958. Á unglingsárunum er maður auðvitað að gera ýmislegt annað og reynir að vera sem minnst heima. Ég rak stöðina með pabba og elsta bróður mínum til 2000 en ætlaði þá að hætta. Stöðin var það lítil að hún bar okkur ekki alla þrjá. Ég ætlaði því að fara að gera eitthvað annað, til dæmis á sjóinn. Þá lést pabbi og bróðir minn varð veikur þannig að ég tók við þessu.“ Gísli bendir á gróðurhúsin og segir glettinn á svip: „Þetta var þá ekkert nema gler og skuldir.“

Blómaræktun á Íslandi hafði gengið vel fram til ársins 1995 en um það leyti bættust við margar nýjar gróðrastöðvar. „Ástæðan var sú að allir voru á hausnum í grænmetinu. Þar eru líka notuð gróðurhús og því fóru margir beina leið úr grænmetinu yfir í blómin. En þá breyttist blómabransinn og varð alveg vonlaus. Árið 1995 voru til dæmis framleidd blóm í 40 til 45 stöðvum. Fimm árum síðar hafði stöðvunum fækkað um helming. Rosaleg kreppa hafði þá orðið í blómaræktinni og margar farið hausinn. Síðan þá hefur okkur fækkað jafnt og þétt og í dag erum við sex sem framleiðum afskorin blóm.“

„Ég er einn eftir í Mosfellsdalnum en við vorum þrír fyrir fimm árum. Samt er framleiðslan af blómum jafn mikil og áður. Hún hefur hins vegar þjappast á færri hendur. Bransinn er erfiður en þetta lítur ágætlega út í augnablikinu.“

Líkt og landsmenn allir vita er sólarljós á Íslandi oft af skornum skammti. Það setur strik í reikninginn en plöntur eins og rósir þurfa mikla birtu til þess að vaxa. Blómaræktendur hérlendis þurfa því að setja upp sérstök ljós í gróðurhúsum sínum ætli þeir að stunda ræktun allt árið um kring. „Ég hef verið að setja upp fleiri ljós í gróðurhúsunum þar sem rósirnar eru ræktaðar en hef ekki mikið verið að stækka þau. Ég minnkaði rósaframleiðsluna úr 2.500 fermetrum í 2.000 en setti í staðinn upp helmingi fleiri ljós. Þannig framleiði ég fleiri rósir í minna rými. Þetta snýst bara um að lýsa meira. Lýsingin er stærsti og dýrasti þátturinn við rósarækt á Íslandi. Yfir dimmustu mánuðina var þetta rekið með tapi og ég íhugaði að hætta með rósirnar en ákvað að spýta í lófana í staðinn. Það kemur svo í ljós hvort það hefur borgað sig eða ekki.“

„Það þarf stöðugt að vera á tánum með rósirnar og skipta út tegundum reglulega. Koma með eitthvað nýtt og spennandi. Í dag erum við með 24 tegundir af rósum í ræktun. Það er þó breytilegt og stundum erum við með fleiri.“

Rósarækt er mikið nákvæmnisverk og ekkert má útaf bera. Jafnvægi þarf að vera á hita, vökvun, áburðargjöf og kolsýrumagni til ljóstillífunar. Gróðurhúsin í Dalsgarði eru tölvustýrð og fylgjast þarf vel með mælunum og breyta stillingum eftir veðri og vindum. Þegar Gísli var að alast upp voru aðstæðurnar talsvert öðruvísi. „Í dag eru hitanemar í gróðurhúsunum sem sjá til þess að gluggarnir opnist þegar hitinn er kominn yfir tuttugu gráður. Þegar ég var ungur strákur var ég sendur út í gróðurhús þegar það kom sól til þess að toga í keðjur sem opnuðu gluggana. Þegar sólin settist eða ský dró fyrir var maður sendur aftur út til þess að loka gluggunum. Á kvöldin opnaði maður fyrir heitavatnskranann og lokaði fyrir hann á morgnana. Heita vatnið liggur í rörum hér um öll hús og hitar þau upp. Maður var á stöðugum hlaupum allan daginn.“

„Áður en lýsingin kom til sögunnar voru rósirnar eingöngu sumarblóm. Ræktunin var því bundin við árstíðir. Núna er allt í botni allan tímann.“

Í einu af gróðurhúsunum er allt á fullu. Starfsfólk stendur við færiband að setja niður túlípanalauka. „Laukarnir sem við erum að setja niður núna eru jólalaukarnir og verða farnir að blómstra í desember. Túlípanarnir eru vetrar- og vorblóm. Laukarnir þurfa að vera í kæli í 16 vikur til þess að þroska blómið,“ útskýrir hann.

„Áður fyrr voru menn kannski með 40 til 80 þúsund túlípanalauka hver. Þegar stöðvunum fækkaði byrjaði ég að sanka þessu að mér. Um leið og einhver hætti jók ég við mig. Ég hugsaði þetta þannig að ef ég tæki þetta ekki yfir þá gerði það einhver annar og þá yrði maður undir í bransanum. Ég er kominn í 700 þúsund lauka núna og held áfram að bæta við mig í túlípanalaukunum,“ segir Gísli.

„Maður er auðvitað að vasast í þessum blómum allan liðlangan daginn en ég fæ samt aldrei leið á þeim. Það eru algjör forréttindi að fá að vera í þessu. Ég og konan mín erum yfirleitt með einhverjar rósir heima. Það er alltaf að minnsta kosti ein rós í vasa einhvers staðar í húsinu.“

Á sumrin eru ræktuð jarðarber í stað túlípana í Dalsgarði. „Jarðarberin eru mín sumarstemning,” segir hann. Túlípanavertíðin stendur yfir frá jólum og endar í byrjun maí. Þá standa gróðurhúsin tóm og er því kjörið að nýta þau í annars konar ræktun. „Ég ákvað að fara í einfalda ræktun og valdi jarðarberin. Það gaf afleitlega í fyrra en mjög vel árin þrjú þar á undan og svo sæmilega í ár. Svona er þetta bara. Það er rosa fínn markaður í þessu af því við erum að tína beint inná markaðinn. Fólk þarf ekkert að kíkja í öskjurnar og athuga hvort eitthvað sé ónýtt eða óþroskað. Það er bara verið að tína beint uppí viðskiptavininn.“

Á yfirbyggðu plani á bakvið gróðurhúsin stendur stór moldarhrúga. Við hlið hennar er gamall traktor sem Gísli notar til þess að blanda moldina. „Moldina blanda ég sjálfur í ár. Moldin sem ég fékk í fyrra var ekki nógu góð svo það urðu nokkur afföll í túlípönunum. Það er svona með garðyrkjuna, það eru eilíf vandamál sem þarf að bregðast við.“ Gísli veltir moldinni á milli fingra sér og útskýrir fyrir okkur hvernig hann blandar hana. „Ég er með íslenska mómold sem er frekar þétt í sér en blanda hana við svarmosa og vikur sem gerir hana djúsí og léttari í sér. Ég er spenntur að sjá hvað kemur út úr þessu og vona að ég sé kominn með toppmold.“

Í lok heimsóknarinnar segir Gísli okkur frá týpískum degi í Dalsgarði. Þar er dagurinn tekinn snemma og morgunverkin eru mörg. „Á morgnana byrjum við á því að fara út í gróðurhús og skera rósirnar sem eru tilbúnar. Að því loknu eru þær flokkaðar í búnt, pakkað og svo eru þær sóttar af dreifingaraðilanum eftir hádegi. Grænn markaður sér um að dreifa þessu fyrir okkur. Þeir dreifa í blómabúðir víðs vegar um landið þar sem blómaskreytar vinna svo úr blómunum og selja þau til viðskiptavinarins í formi skreytinga eða blómavanda. Við höfum náttúrulega ekki hugmynd um hvar blómin enda í vasa, það getur verið hvar sem er.“