Sirkus Íslands

Dagur í lífi Sirkus Íslands

„Velkomin í flottasta og vatnsheldasta sirkustjaldið á landinu!“ Á þessum orðum hefja þeir Jóakim og Bjarni sýninguna S.I.R.K.U.S, enn einn grámyglulegan föstudaginn þetta sumarið. En það er alltaf sól í Jöklu, nýja sirkustjaldi Sirkus Íslands sem staðið hefur á Klambratúni síðastliðnar vikur, borgarbúum til mikillar gleði. Að þessu sinni eru allar þrjár sýningar sirkussins á dagskrá en auk S.I.R.K.U.S, eru það Heima er Best og Skinnsemi. Þetta eru þó með síðustu sýningunum í Reykjavík í bili því í næstu viku heldur sirkusinn til Ísafjarðar og þaðan heimsækir hann Akureyri, Selfoss og Reykjanesbæ. Sirkus Íslands er nefnilega ekki bara höfuðborgarinnar.

S.I.R.K.U.S. er fyrir yngstu börnin enda hrífast þau auðveldlega inn í sirkusveröldina með tilheyrandi ljónum og loftfimleikaprinsessum. Þó að halda þurfi ró baksviðs má sjá glitta í Sindra Spiderman æfa slagsmál við Eyrúnu bófa sem senn mun læðast inn á sviðið og stela blessuðum Jóakim sem jójóar í sakleysi sínu. Þetta eru einungis nokkur af mörgum þeim hlutverkum sem sirkusmeðlimir munu bregða sér í yfir daginn.

Að sýningu lokinni hefur rigningin vikið fyrir glampandi sól og má sjá yngstu börnin hoppa í grasinu, full af innblæstri. Í sirkusnum ganga allir í öll verk, hvort sem það er að sýna, selja kandífloss, vera í miðasölunni eða elda fyrir allan tuttugu og fimm manna sirkushópinn. Hádegismaturinn í dag, spagettí með salati og sósu, er eldaður í gámi rétt hjá Jöklu og er eldunaraðstaðan til mikillar prýði. Sólarglætan er nýtt og sest hópurinn saman að snæðingi úti. Í hádegismat er farið yfir mistök sem að sjálfsögðu eru daglegt brauð á sirkussviðinu. Kúnstin er að bregðast svo vel við mistökunum að áhorfandinn haldi að þau séu gerð af ásetningi. Þá eru dónakarlaráðstafanir gerðar fyrir Skinnsemi – fullorðinssirkusinn, en þar er jafnan sýnt mikið skinn. Óþarfi að tipla á tánum í kringum það að dónar eru ekki velkomnir í glænýtt sirkustjaldið. Nonni leikur Kára að húlla í stóra húllaatriðinu og svo er boðið upp á snúða frá deginum áður því Daníel á afmæli í dag.

Hvernig undirbýr maður sig fyrir langa sýningu á degi sem þessum?

Bjarni: Undirbúningurinn er í rauninni bara að reyna að ná svefni og borða morgunmat
Eyrún: Já, það er mjög mikilvægt að sofa nóg, maður finnur alveg fyrir því ef maður nær því ekki.
Bjarni: Ég er einmitt að drífa mig að borða svo ég geti lagt mig á milli sýninga
„Jóakim. Ég frétti af tveimur mömmum sem voru voðalega ánægðar að sjá þig á nærfötunum í barnasýningunni“, segir Margrét Erla hinum megin við matarborðið og Jóakim svarar kíminn „Já, gott að geta glatt mömmurnar.“
„7 mínútur og svo er upphitun,“ er kallað yfir hópinn. Upphitun fyrir Heima er best hefst á því allir nudda á sér magann og koma meltingunni í gang eftir stóran matarmikinn hádegisverð. Það er létt yfir hópnum og eftir maganuddið eru gerðar nokkrar æfingar og farið í létta upphitunarleiki.

Hálftími er í sýningu og hægt og rólega klæða sirkusdýrin sig í búninga. Öllu er tekið með ró enda þrjátíu sýningar að baki á einungis þremur vikum og því allt komið í ágætis rútínu. Salurinn fyllist hægt og rólega af fjölskyldum en meðalaldurinn er þó nokkuð hærri en í S.I.R.K.U.S. Trúðarnir Labbi og Nebbi sópa poppkorni af gólfinu og grínast í spenntum áhorfendunum þar til ljósin slokkna. Þá skella þeir sér upp á sviðið og hlátursköllin hefjast í salnum nánast á sama augnabliki. Loftfimleikar og jafnvægisíþróttir, húll og einhjólaballett halda áhorfendum svo spenntum að þeir þora varla að blikka augum til að missa ekki af neinu. Tíminn flýgur og fyrr en varir eru boðaðar slæmar og góðar fréttir: Sirkusinn er að verða búinn en enn er þó eitt atriði eftir!

Á meðan Heima er best er í gangi eru skrifstofudömurnar að útbúa kvöldmat sem verður pasta þennan daginn. Þegar sýningunni lýkur hjálpast allir við að þrífa tjaldið, taka upp rusl undan bekkjum og þess háttar. „Aldursbil þeirra sem starfa í sirkusnum, hvort sem það er á sviðinu eða utan þess er frá 16-38 ára,“ segir Margrét Erla og bætir við: „Svo kemur pabbi með til Ísafjarðar en hann er 64 ára og mun þar af leiðandi sprengja skalann. Hann er æstur í að læra á kandíflossvélina.“

Hver er uppáhaldssýningin ykkar?

Bjarni: Ég hef alveg svakalega gaman af S.I.R.K.U.S en Skinnsemi er alltaf jafn æðisleg, hún er líka svo mikið bara okkar.Unnur María: Það er líka svo skemmtilegt við Skinnsemi að við skemmtum okkur alltaf jafn vel á henni.
Eyrún: Já, í henni erum við að skemmta okkur alveg jafn mikið og áhorfendurnir. Og hún er líka miklu sjaldnar en hinar sýningarnar tvær sem eru á hverjum degi.

Síðasta sýning dagsins er Skinnsemi. Sýningin er af allt öðrum toga en Heima er Best og S.I.R.K.U.S enda um fullorðinssirkus að ræða. Í áhorfendahópnum hefur því kandífloss og sleikjóum verið skipt út fyrir bjór og svo sígarettum í kortérshléinu. Það er bersýnilegt að sirkushópurinn hefur alveg jafn gaman af því að sýna og áhorfendaskarinn að horfa og þrátt fyrir langan dag býr enn í þeim orka til að leggja allt í sölurnar. Gestirnir eru sendir ánægðir og nett hífaðir út í föstudagsnóttina en sirkushópurinn endar langa sýningartörn á þrifum og uppgjöri. Nú er mál að ná nægum svefni fyrir næsta sirkusdag með nýjum loftfimleikum, trúðalistum og enn meiri hlátursköllum. „Það er æðislegt að fá að lifa þennan draum,“ segir Bjarni að lokum.