Hrefna Hörn

Hrefna Hörn teiknar með brothamri og þrívíddarprentar plastpoka

Hrefna Hörn Leifsdóttir býr í hinu svokallaða Kreuzkölln hverfi, milli Kreuzberg og Neukölln, í Berlín ásamt ítölskum og hollenskum meðleigjendum. Íbúðin er í fyrrum Tyrkjahverfi, þar sem lág leiga lokkaði að afkomendur tyrkneskra innflytjenda. Seinustu ár hafa námsmenn, listamenn og aðrir flykkst að hverfinu og leiguverð hefur hækkað töluvert með vaxandi vinsældum.

Hrefna er að klára sitt fyrsta ár í skúlptúr við Kunsthochschule Berlin Weissensee en hún brautskráðist í fyrra úr Myndlistaskólanum í Reykjavík með stúdentspróf í sjónlistum. „Weissensee er dálítið út úr, þannig að ég er ekkert að skreppa þangað í stutta stund. Fyrsta árið fáum við ekki ákveðið vinnupláss og þar sem ég hef þörf fyrir slíkt vinnupláss skrópa ég stundum og vinn heima.“

Að sögn Hrefnu fór síðasta önnin í Myndlistaskólanum mestmegnis í að setja saman möppur með mismunandi verkum og fljúga út í viðtöl vegna umsóknar um skólavist. „Í Weissensee var ekki nóg að senda bara inn möppuna, ég varð að mæta á staðinn og skila henni inn. Flestir þeir sem eru með mér í náminu núna tóku sér ár til þess að undirbúa inntökuprófið, gera möppu og fleira. Ég fór bæði í inntökupróf hér í Berlín og í Amsterdam. Svo sótti ég líka um í UdK, sem er hinn listaháskólinn í Berlín. Ég klúðraði því reyndar aðeins og sótti óvart um nám í listkennslu. Ég fékk seinna tölvupóst þar sem stóð: „Are you sure that this is what you want?“

Í hverju felst nám í skúlptúr?

Mér finnst fyndið að kalla þetta skúlptúr því það hljómar svo gamaldags. Fólk heldur oft að ég sé bara að höggva myndir af Davíð og vinna með marmara. En í raun og veru er þetta myndlist með áherslu á þrívíða vinnu. Í skólanum er síðan önnur deild fyrir þá sem vilja einbeita sér að málverkinu. Ég get í rauninni gert hvað sem ég vil hérna. Í skólanum eru góð verkstæði og tæki til að vinna með alls kyns efni og þar get ég prófað mig áfram. Ég taldi námið góðan grunn og aðstaðan í skólanum er tilvalin og eitthvað sem ég mun ekki ganga að sem vísu að námi loknu.

Að hverju ertu að vinna núna?

Ég er að klára teiknikúrs í skólanum og ætla að leigja búnað fyrir eitt verkefnið. Ég veit ekki alveg hvernig það endar.

„Ég var smá pirruð í kúrsinum því allir voru að teikna eitthvað í litlu teiknibókina sína. Mér fannst það hins vegar leiðinlegt. Ég ákvað í staðinn að leigja borvél eða „Press Lufthammer“ og teikna með honum í steypuflöt.“

Ég hef aldrei prófað svona græju áður og get náttúrlega ekkert stjórnað þessu. Mér finnst sjúklega fyndið að nota „Press Lufthammer“ í teiknikúrs þar sem allir aðrir eru að dúlla sér í bókunum sínum. Ég ætla að taka upp myndband af þessu og sýna það sem lokaverkefni.

Kennarinn minn er mjög fyndin norsk kona um sextugt. Hún er algjör nagli, týpan sem ber í borðið og segir hreint út sína skoðun. En ég held að hún fíli mig alveg. Hún talar þýsku með frekar skrítnum hreim og stundum getur verið snúið fyrir okkur að skilja hvor aðra. Samskiptin fara stundum út í einhvern látbragðsleik, eins og til dæmis þegar ég var að reyna að spyrja hana út í „Press Lufthammer.“ Og hún svaraði: „Já, ég man ekki heldur hvað það heitir. Talaðu við þau í Hellweg og segðu bara að þú sért að fara vinna í garðinum. Þeir skilja ekki svona listnema.“

Hvernig dettur þér svona í hug?

Ef maður er listnemi á maður að gera það sem maður vill. Ef það klúðrast algjörlega og verður hræðilegt, er það frábært, þá lærir maður af því. Kannski hugsar fólk: „Djöfull er hún mikill fáviti,“ en einn góðan veðurdag mun kannski einhverjum finnast þetta vera snilld. Um leið og maður er útskrifaður og er ekki lengur hluti af þessu akademíska samfélagi verður erfiðara að fá áhorfendahóp. Þá eru engir prófessorar eða samnemendur til að hlusta á hugmyndir þínar. Þess vegna er mikilvægt að nýta tímann eins vel og maður getur.

Finnurðu mikinn mun á vinnuaðferðum Þjóðverja og Íslendinga?

Já, algjörlega. Heima er meiri samvinna. Þar er viðhorfið: „Við skulum gera þessa sýningu saman og gera hana frábæra.“ En svo eru oftast allir á síðustu stundu í algjöru stressi, hlaupandi um í símanum að reyna að redda öllu. Þjóðverjar eru algjörar andstæður. Hér hittist fólk og fundar kannski tvisvar í viku í nokkra mánuði til að skipuleggja eina sýningu. Það getur farið heill fundur í að skipuleggja ómerkilegustu hluti. Ég get orðið mjög þreytt á því hvað einföldustu hlutir taka ótrúlega langan tíma. Þá er ég til í að samþykkja allt, til þess að láta þetta ganga hraðar, en aftur á móti er allt mjög pottþétt og tilbúið á réttum tíma.

Hvernig er djammlífið í Berlín?

Annað hvort ferðu á bar og drekkur bjór eða þú ferð í svartan kassa og gerir sömu hreyfinguna í fleiri fleiri klukkutíma. Opnunartímar eru allt aðrir en heima. Þetta er kannski ekki fyrir alla en er rosa vinsælt, allavega koma mörg hundruð þúsund „djamm túristar“ til Berlínar í helgarferðir.

Það er mikið í tísku að fela staðina. Ég fór til dæmis á kokteil-bar um daginn sem var falinn inni á hamborgarastað. Til þess að komast inn þurfti ég labba í gegnum staðinn og fara á bak við þar sem klósettin voru. Þar stóð símklefi rétt hjá og inni í símklefanum var lítill hleri sem maður opnaði.

„Þar birtist maður fyrir innan og hann spurði: „Hvað eru þið mörg?“ og þá á maður helst að segja: „Vinir mínir eru inni“ til þess að komast inn. Þetta leit út eins og í einhverri spæjaramynd.“

Svo þegar maður kemur inn í gegnum símklefann sér maður að þetta er bara venjulegur kokteil staður. En málið er að um leið og þú heyrir um leynikokteilstaðinn, ferðu að reyna að komast að því hvar hann er.

Hvernig gengur að komast inn í listaheiminn hérna í Berlín?

Ég er í starfsnámi núna hjá stelpu sem rekur svokallað verkefnarými (Project Space) sem virkar svipað og gallerý en gengur ekki jafn mikið út á að selja. Meira frelsi felst í því að reka „Project Space“; meiri áhætta tekin með listamenn og verk og ungt fólk er sömuleiðis oftar tekið inn. Ég er að hjálpa henni með alls konar verkefni og kynnist alls konar fólki. Það er mjög áhugavert að fá smá innsýn í hvernig er að reka svona batterí og fá að kynnast listheiminum með þessum hætti.

Ég veit ekkert hvert þetta mun leiða, en kannski verður einhver peningur til og kannski verð ég ráðin í vinnu. Ef ekki þá hef ég reynsluna eftir þetta. Í Berlín er mikið um að fólk vinni ókeypis; fólk er tilbúið að vinna launalaust tímunum saman í von um að það leiði eitthvað af sér. Oft ber það árangur, því þegar verið er að ráða fólk í vinnu eða leita að fólki í ákveðin verkefni er ekki auglýst heldur er einfaldlega notast við tengslanetið.

Hvað er framundan?

Stefnan er að vera í skóla sem lengst, að minnsta kosti á meðan ég fæ lán hjá LÍN til að halda mér uppi. Ég næ alveg að lifa á þessu eins og er og um leið og ég fæ fína vinnuaðstöðu í skólanum og get unnið þar að því sem ég vil, þó að það sé innan einhverrar akademíu, verður það frábært. Síðan er það bara að stökkva út í djúpu laugina. Ég verð vonandi búin að átta mig á því hvernig á að lifa á þessu þegar að því kemur.

Annars fer ég bráðum til Reykjavíkur og verð þar í mánuð, síðan aftur til Þýskalands. Ég fékk styrk til að vera þar í einhverjum smábæ í tvær vikur. Hálfgert „residency“ fyrir listnema alls staðar að, þar sem við verðum bara að vinna að verkum sem við sýnum í lokin.