Siggi Odds og Anna Lalla

Heimsókn til Sigga, Önnu og Marinós sem hafa komið sér fyrir í lítilli og fallegri íbúð á Fálkagötunni

Með Ægissíðuna innan seilingar er gengið inn um lítið port á Fálkagötunni í Vesturbænum. Á annarri hæð hafa þau Siggi Odds og Anna Lalla hreiðrað um sig ásamt þriggja mánaða brosmildum syni sínum Marinó. Það er sólríkur sunnudagur þegar fjölskyldan tekur á móti okkur á litlu en afar vel skipulögðu heimili sínu. Íbúðin, rúmir 60 fermetrar,  fangar vel birtuna að utan og er hver krókur og kimi vel nýttur. Fallegir litir, einfaldleiki og óhefðbundnir gluggar einkenna rýmið en það er greinilegt að þarna býr fólk með auga fyrir smáatriðum. 

Hvað eruð þið að fást við í dag?

Anna: Ég er algjört heilsunörd sem stundar ótrúlega mikið jóga og ég er lærður jógakennari. Núna hef ég verið mikið heima við með Marinó en stefni á næringarfræðina í háskólanum í haust. Hingað til hef ég menntað mig sjálf og lesið mér endalaust til um heilsu og mataræði en maður þarf víst gráðu til þess að aðrir treysti manni fyrir heilsunni sinni.
Siggi: Ég er að vinna sem grafískur hönnuður á auglýsingastofunni Jónsson & Le’macks í alls konar mismunandi verkefnum. Þar reyni ég að vinna með fjölbreyttum hópi kúnna en ég vil síður festa mig við einhvern einn stóran. Síðan er ég í alls konar sjálfstæðum verkefnum, ég teikna mikið af „illustrations“, sem tónlist og fleira.

Hafið þið verið að vinna í einhverju saman?

Siggi: Við Anna máluðum þennan kassa fyrir HönnunarMars. Þemað var tehús í „Spark Design Space“ og við gerðum þennan japanska tekassa sem á að innihalda allt sem þarf í japanska te athöfn.
Anna: Siggi er síðan á fullu að semja tónlist og plataði mig eitt sinn til þess að koma fram og syngja lag með sér. Hann hefur hjálpað mér aðeins við að komast út úr skelinni minni.
Siggi: Hún er mjög góð söngkona en hafði ekki sungið fyrir nokkurn lifandi mann og það var mikið afrek fyrir mig að fá hana til þess að gera þetta með mér. Það var líka ótrúlega gaman.

Hvenær fluttuð þið hingað inn?

Siggi: Við fluttum inn í janúar. Við bjuggum áður í Garðastrætinu í ágætis íbúð sem var síðan keypt af einhverju fjárfestingafyrirtæki og þau hækkuðu leiguna um 50.000 krónur. Þá nenntum við ekki að standa í leigumarkaðnum lengur og ákváðum að kaupa þessa íbúð. Þetta var mjög týpískt íslenskt, að fjárfesta í íbúð nokkrum mánuðum áður en barnið kom.
Anna: Við erum alveg ótrúlega ánægð hérna, þetta er svo lítið og krúttlegt en þannig viljum við einmitt hafa það. Ef ég ætti að kvarta yfir einhverju þá eru það þessir hraunveggir, alveg hræðilegir, en það er nánast ómögulegt að láta fjarlægja þá.
Siggi: Ég held að hraunveggir séu að koma aftur og eftir svona fimm ár mun fólk vera alveg: „Oh, ég hefði ekki átt að taka niður hraunveggina, þeir voru svo ógeðslega original.“

Hvernig gengur heimilislífið fyrir sig á Fálkagötunni?

Anna: Við höfum mikið verið heima síðan Marinó fæddist. Nema um helgar þá erum við mjög dugleg að fara út á land en við vorum að eignast bíl í fyrsta skipti í langan tíma. Ég fæ gríðarlega þörf fyrir að komast út úr bænum því það getur verið þreytandi að búa miðsvæðis. Hér er yndislegt að eiga bækistöð en það er alltaf gott að komast í burtu.
Siggi: Á kvöldin er það síðan alltaf sama spurningin: Hvað skal borða? Við borðum mikið úti og fáum æði fyrir einum stað. Það nýjasta er Coocoo’s Nest úti á Granda. Við erum rosa þakklát þegar nýir veitingastaðir eru opnaðir í miðbænum og erum dugleg að prófa.
Anna: Mér finnst síðan ekkert betra en að fara í langt bað þegar litli er kominn i háttinn. Fara i göngutúra á Ægissíðunni og að horfa á góðar velvaldar þáttaraðir og náttúrulífsþætti á kvöldin.

Hvað gerir íbúð að heimili fyrir ykkur?

Siggi: Anna er með meiri kröfur um heimili en ég. Mér nægir borð og staður fyrir tölvuna mína svo ég geti unnið og gert eitthvað, tónlist eða hvað sem það er.
Anna: Það er vinnuaðstaða kjáninn þinn. Heimili er staður þar sem þú ert alveg öruggur og þér líður alltaf vel að koma heim til. Að vera umkringdur því sem þér finnst fallegt og hitta fólkið sem þú elskar. Ég veit að Sigga finnst það auðvitað líka.
Siggi: Já, það er kannski réttara svar.

Hvernig endurspeglar íbúðin ykkar karakter?

Anna: Við erum algjörar andstæður en þrátt fyrir það „meikum við sens“ saman. Ég hugleiði mjög mikið svo það skiptir mig máli að vera ekki með of mikið í gangi í umhverfinu mínu. Ég reyni að eiga bara hluti sem ég nota. Ég tek mánaðarlega saman dót sem ég er hætt að nota og gef til Fjölskylduhjálpar. Það er svo gríðarlega frelsandi. Til hvers að eiga föt eða hluti sem maður notar ekki?
Siggi: Já, hérna fer meira dót út heldur en inn. Ég hins vegar á svona sjö þúsund boli sem ég tími ekki að henda og er mikill safnari. Þetta litla rými og skortur á geymsluplássi hefur þó fengið mig til þess að losa mig við helling af drasli.

Hvað er í uppáhaldi hjá ykkur?

Siggi: Gluggarnir voru það fyrsta sem greip okkur. Þessir dökku rammar í kringum þá eru ótrúlega steiktir en maður sér þetta hvergi. Nánast allir sem koma hingað spyrja hvort við ætlum ekki að mála þetta hvítt, en auðvitað gerum við það ekki. Þetta er það besta við íbúðina og auðvitað staðsetningin líka.
Anna: Ég elska þetta handmálaða verk frá Tíbet, garðinn og gluggana líka, þó þeir séu mjög skítugir núna. Einnig eru litlu nautin inni í eldhúsi sem ég og mamma máluðum í uppáhaldi. Það eru líka svoleiðis heima í Frakklandi í húsinu sem ég ólst upp í. Það eru þessir litlu hlutir sem eru ekkert voðalega sýnilegir sem gera hús að heimili.

Er eitthvað af verkum eftir þig hérna Siggi?

Siggi: Nei, ekkert uppi á veggjunum. Eitthvað er í kringum vinnuaðstöðuna mína og síðan teppið inni í svefnherberginu. Það er hluti af seríu af fjórum teppum sem ég gerði ásamt þremur öðrum hönnuðum fyrir HönnunarMars undir nafninu Børk. Þetta eru prótótýpur en þær eiga að fara í framleiðslu með 66° Norður fljótlega. Við vorum að fara af stað með heimasíðu þar sem hægt er að forpanta teppin.

Hvað veitir þér innblástur?

Siggi: Náttúra Íslands, nei djók, ég veit ekki. Innblástur fyrir mig er bara banki sem maður er stöðugt að safna í. Innblásturinn kemur alls staðar að, síðan er bara að velja viðfangsefni og taka úr bankanum það sem maður á og nýta það.

Hvað er framundan?

Anna: Við erum á leiðinni til Frakklands í hús fjölskyldunnar sem er í litlu þorpi í Suður-Frakklandi en þangað förum við á sumrin. Við ætlum að reyna að leigja út íbúðina okkar á meðan en það gengur eitthvað brösuglega. Kannski gerist eitthvað eftir þessa umfjöllun.
Siggi: Ég er svo spenntur að fara með Marinó út í sól og sumar, setja á hann sólhatt og leyfa honum að busla í vatninu. Það er algjör lífsbjörg að fara þangað einu sinni á ári. Eftir ferðalagið ætla ég síðan að taka mér smá frí og vera heima með strákinn.
Anna: Við höfum lengi rætt að flytja eitthvert út, San Francisco er efst á listanum. Ég held að það sé alveg tryllt að búa þar.