Heitar laugar
Blær mælir með sex laugum víðsvegar um landið
Eitt helsta sérkenni íslenskrar náttúru eru heitar laugar sem finna má á ótrúlegustu stöðum. Blær ferðaðist um landið og mælir með sex laugum. Þessar náttúruperlur eru misþekktar en allar eiga þær það sameiginlegt að vera umkringdar stórbrotinni náttúru. Fátt er betra en að baða sig í heitu og notalegu vatni, í fögru umhverfi og í góðra vina hópi.
1. Hellulaug í Flókalundi
Í flæðarmálinu stutt frá Flókalundi er náttúrulega heit laug þar sem gott er að slappa af og horfa á Vatnsfjörðinn. Laugin er hlaðin í grjóti og steypu og er kjörinn áfangastaður enda rétt hjá Brjánslæk þar sem ferjan Baldur kemur í land.
Staðsetning Vestfirðir
Hitastig Um 38 gráður
Verð Ókeypis
Aðstaða Enginn búningsklefi
Afgreiðslutími Alltaf opið
2. Pollurinn í Tálknafirði
Fátt jafnast á við að sitja í Pollinum eftir langan dag og njóta fagurs útsýnis út á Tálknafjörð. Pollurinn er uppi í hlíðinni aðeins fyrir utan þorpið. Hann er þrískiptur; tveir setpottar og einn til viðbótar sem er dýpri.
Staðsetning Vestfirðir
Hitastig 38-40 gráður
Verð Ókeypis
Aðstaða Búningsklefi
Afgreiðslutími Alltaf opið
3. Sundlaugin Hofsósi
Sundlaugin á Hofsósi er á sjávarbakka sunnarlega í þorpinu. Náttúrufegurðin nýtur sín allt um kring og útsýnið yfir Skagafjörðinn er engu líkt. Þegar synt er norður virðist vatnsflöturinn renna saman við hafflötinn líkt og hægt væri að synda óhindrað til Drangeyjar. Hver veit nema maður mæti Gretti sterka þar á sundi.
Staðsetning Norðvesturland
Hitastig 38-40 gráður
Verð 550 fyrir 18 ára og eldri
Aðstaða Búningsklefar og gufa
Afgreiðslutími 09:00–21:00
4. Gamla laugin
Ein elsta laug landsins er Gamla laugin í Hverahólmanum nálægt Flúðum. Sundlaugin var gerð 1891 og er því 123 ára gömul. Gömlum gróðurhúsum við laugina hefur verið breytt í baðhús og lagðir hafa verið pallar og göngustígar. Í næsta nágrenni eru hverir en einn þeirra, Litli Geysir, gýs á nokkurra mínútna fresti.
Staðsetning Suðurland
Hitastig 39 gráður
Verð 2.500 krónur
Aðstaða Búningsklefar, setustofa og kaffihús
Afgreiðslutími 13:00–22:00
5. Seljavallalaug
Við rætur Eyjafjalla liggur friðuð útilaug sem nefnist Seljavallalaug. Þessi einstaka laug var byggð árið 1923 í djúpum dal við Seljavelli. Hún hefur þá sérstöðu að önnur hlið hennar er dalshlíðin sjálf. Umhverfið í kring er ævintýralegt og tekur um 15 mínútur að ganga að lauginni frá veginum.
Staðsetning Suðurland
Hitastig 39 gráður
Verð Ókeypis
Aðstaða Búningsklefar
Afgreiðslutími Alltaf opið
6. Reykjarfjarðarlaug
Laugin er rétt við þjóðveginn innst inni í Reykjarfirði, einum af innfjörðum Arnarfjarðar og rétt hjá Bíldudal. Í laugina rennur vatn allt árið um kring og hægt er að skipta um föt í litlum kofa sem stendur við laugarbakkann. Rétt fyrir ofan er lítil hlaðin torflaug sem er nokkuð heit, þótt flestir geti baðað sig í henni, a.m.k. í stutta stund.
Staðsetning Vestfirðir
Hitastig 32 gráður
Verð Ókeypis
Aðstaða Búningsklefar
Afgreiðslutími Alltaf opið