Sigga Soffía og Arnar Dan

Heimsókn til Siggu og Arnars en þau leigja íbúð í eldrauðu timburhúsi í hjarta miðbæjar Reykjavíkur.

Sigga Soffía og Arnar Dan búa á annarri hæð í rauðu timburhúsi í hjarta miðbæjar Reykjavíkur. Húsið er friðað og var reist árið 1898 af skáldinu og athafnamanninum Einari Ben. Húsið brann árið 1980 og var gert upp í upprunalegri mynd. Arnar útskrifaðist af leikarabraut LHÍ vorið 2013 og hefur síðan þá verið að vinna hjá Borgarleikhúsinu. Sigga er að fara á þriðja árið í klassískum söng í LHÍ og hefur fengið mikla athygli fyrir myndirnar sem hún teiknar.

Hvað eru þið að fást við í sumar?

Arnar: Samningurinn minn við Borgarleikhúsið rennur út í ágúst svo að ég verð „freelance“ leikari eftir þann tíma. Ég var að klára að sýna einleikinn Landsliðið í línu í Tjarnabíó sem ég skrifaði á lokaárinu mínu í skólanum. Verkið fjallar um ungan mann sem fer út á sjó og ætlar sér að verða ríkur en endar á því að verða fátækur af tilfinningum. Þetta var samstarf milli okkar Siggu að því leyti að hún hannaði t.d. leikmyndina, plakötin og leikskrána. Svo samdi Bára Gísladóttir vinkona okkar tónlistina.

Sigga: Með skólanum hef ég verið að teikna myndir sem ég hef verið að selja. Þær eru líka komnar á símahulstur og mikil eftirspurn eftir þeim. Það er ótrúlega gaman. Ég les ekki bækur þannig að ég teikna mikið til þess að róa hugann. Þetta byrjaði eiginlega þegar ég var í listfræðinni í HÍ. Ég átti mjög erfitt með að halda athyglinni en þá tók ég eftir að ég var allt í einu farin að teikna ótrúlega mikið á stílabókina og var komin með sjúklega mikið af mynstrum. Svo prufaði ég fyrir svona tveimur árum að pósta þessu á Facebook ég var nefnilega ekki alveg nógu örugg með það en þá fékk ég ótrúlega skemmileg viðbrögð og fyrirspurnir. Síðan hef ég þróað aðeins stílinn og er byrjuð að búa til stafi úr blómamynstrum og selja þá innramaða í gegnum Facebook. 

Getið þið sagt frá húsinu?

Sigga: Við tókum alveg heila kvöldstund í að grúska um sögu hússins eftir að við fluttum hingað inn. Eftir að hafa rannsakað húsið komumst við að því að það heitir Aberdeen og er reist af skáldinu og athafnamanninum Einari Ben.

Arnar: Það er forvitnilegt að koma inn í svona hús og komast að sögunum á bak við það. Hér hefur svo margt verið að gerast. Margir muna eftir hjólaverkstæði sem var hérna í kjallaranum þar sem listakonan Kogga er núna til húsa og svo voru hér lengi skrifstofur.

Sigga: Húsið er mjög hljóðbært svo við heyrum hvert einasta orð milli hæða en það venst. Ég ólst upp í gömlu húsi ekki ósvipuðu þessu, rautt og á næsta horni Vesturgötunnar. 

Hvernig er að búa svona miðsvæðis?

Sigga: Það er yndislegt. Okkur finnst gaman að vera mikið í kringum fólk og bjóðum oft í matarboð og kaffi. Nýja uppáhalds setningin mín er „ég verð með heitt á könnunni!“ Það er mikið af liði sem röltir framhjá okkur á leiðinni á og af djamminu. Stundum verður maður vitni af einhverjum slagsmálum eða lendir í því að einhverjir fara á trúnó beint fyrir framan gluggann. Ég datt í smá svona spæjarahlutverk eftir að við fluttum hingað því það eru gluggar allan hringinn svo ég get alltaf fylgst með öllum þeim sem ganga hérna framhjá. Það var orðið svolítið vandræðalegt svo ég er hætt því, að mestu leyti ...

Arnar: Talandi um þetta þá langar Siggu að setja upp ljósmyndasýningu með myndum af öllu fólkinu sem er að taka myndir af húsinu.

Sigga: Það eru svona 15 túristar sem taka mynd af húsinu okkar á dag. Það er ótrúlega fyndið.

Arnar: Það eru ekki fimmtán, Sigga, það eru fimmtánHUNDRUÐ. Ég er ekki að grínast, ég fer mjög oft út í glugga að kíkja á plönturnar mínar og sé að ég er alltaf á tveimur til þremur myndum. Oft er ég bara ber að ofan.

Sigga: Já, það er örugglega út af því að þetta er svona eldrautt og gamalt hús.

Arnar: Þetta húsnæði er friðað, það má ekki breyta því.

Hvað gerið þið í frítímanum ykkar?

Sigga: Mér finnst ótrúlega gott að fara á hljólabretti eða „longboard“. Ég kynntist því fyrir tveimur mánuðum. Ég finn mikið frelsi í þessu en það er mjög fyndið því þetta er svo töffaralegt.

Arnar: Það er mikilvægt að sinna því sem að maður hefur áhuga á og nærir mann. Sumir ná bara að gera það í frítímanum sínum en draumurinn er náttúrlega að fá að starfa við það sem nærir þig og forðast það sem tærir þig. Blessunarlega nærir leiklistin mig. Ég er oft þreyttur eftir sýningar en líka glaður. Maður fær þetta dópamínflæði. 

Hvernig gengur heimilislífið fyrir sig á Vesturgötunni?

Sigga: Sko, það fer náttúrlega eftir hvaða árstíma við erum að tala um, hvort við séum í skólanum og vinnunni eða ekki. Núna í sumar hefur rútínan verið aðeins öðruvísi. Mér finnst rosa gott að setjast á Iðu hérna beint á móti. Ég ólst upp við það að fara alltaf með pabba mínum á laugardögum á Mokka. Þar las hann blöðin sín þannig að ég er ótrúlega mikil kaffihúsafrík. Arnar getur staðfest það. Á Iðu er „happy hour“ milli átta og tíu á morgnanna þar sem þú getur fengið hvaða kaffi sem er á þrjúhundruð krónur.

Arnar: Maður er bara ungur og vitlaus svo maður þarf að læra þennan aga. Sérstaklega þegar að maður er að vinna svona sjálfstætt. Hugmyndir eins og einleikurinn geta verið lausar í sér en þegar við náum að festa þær niður og trúum á þær, erum við komin á fullt skrið. Það var brjálað að gera hjá okkur í kringum frumsýninguna á Landsliðið í línu.

Arnar: Í vetur var samt rosalega mikil keyrsla á okkur. Það tekur alveg á sambönd þegar maður er að leika svona mikið. Mikil fjarvera að heiman og sérstaklega þegar maður er í átakanlegum senum. Það þarf gagnkvæman skilning til þess að þetta virki og við erum búin að ná að vinna rosalega vel í því sem par.

Hvað gerir íbúðina að heimilinu ykkar?

Arnar: Ég veit það, það er mottan við útidyrnar. Það er upphafið, þegar að þú stígur inn á heimilið.

Sigga: Maður er alltaf að gera þetta að heimili, við vorum heppin og fengum borð frá bróður mínum, stóla frá mömmu hans Arnars. Við áttum svo líka eitthvað af þessu fyrir eins og til dæmis sjónvarpið, Arnar átti það.

Arnar: „Home is where the heart is“ er geðveikt kliskjukennd lína en hún er rosalega sönn. Þú veist, bara þar sem maður dvelur langtímum saman, það verður einhvern veginn að heimkynnum manns.

Sigga: Svo finnst mér alltaf gaman að hengja upp á vegg allskonar myndir, eins og kannski sést. Mér finnst það heimilislegt.

Hverjir eru uppáhalds hlutirnir ykkar í íbúðinni?

Sigga: Má segja blóm? Þessar pelagóníur sem amma mín átti hafa mikið tilfinningalegt gildi. Þær eru að verða fimmtán ára. Amma hugsaði alltaf svo vel um blómin sín. Allir gluggarnir hennar voru stútfullir af plöntum. Annars held ég mikið upp á vatnslitina mína. Hér er ég að reyna að vera skipulögð með þá. Hérna eru penslarnir og pennarnir. Og vatnslitirnir. Hér er ég með myndirnar mínar. En já, og svo kannski bara rúmið. Það er svo gott að hvíla sig og hafa kósý. Æ, nú er ég komin með fullt af hlutum. Ég er með valkvíða, ég get ekki valið bara einn hlut.

Arnar: Ég spila mikið á gítarinn svo ég verð eiginlega að segja að hann sé uppáhalds hluturinn minn. En svo er það líka playstation fjarstýringin mín. En ég verð líka að sýna ykkur eitt svolítið sorglegt. Því að lífið er ekki bara léttvægt. Lífið er líka erfitt. Þetta avókadó tré var einu sinni stórt og í blóma. Svo gerist það bara, að tréið fékk sjúkdóm. En þetta er samt alltaf mín uppáhalds planta. Sigga hefur oft í laumi reynt að henda henni. Ég hef séð hana oft mjög nálægt útidyrahurðinni, með hinu ruslinu.

Sigga: Nei það er ekki satt.

Arnar: Það er reyndar eitthvað til í því. En ég hef verið að reyna að halda í henni lífi. Svo hef ég líka ofboðslega mikinn áhuga á ræktun, það er ekkert grín. Ég hef rosa áhuga á því að sjá eitthvað verða til. Sjá sköpunarferlið í þessu.

Sigga: Já, svo var ég bara að fatta það núna að mér þykir líka rosalega vænt um þetta skatthol hér sem hún Sigríður Soffía amma mín átti. 

Hvað er framundan hjá ykkur?

Sigga: Ég er að fara í hálfs árs skiptinám til Mílanó núna í september. Það verður mjög spennandi. Við Arnar erum búin að vera að vinna að leikriti sem við ætluðum að setja upp líka í sumar en föttuðum að við hefðum ekki nægan tíma til þess að setja það upp svo það yrði eins flott og við vildum. Planið er að vinna það saman úti. Svo langar mig að gera rosalega margt, t.d. að læra grafíska hönnun. En fyrst ætla ég að klára söngnámið áður en ég fer að gera frekari plön.

Arnar: Já, ég fer með Siggu til Ítalíu þar sem ég ætla að vinna betur að handritinu okkar og sækja um styrki. Svo ætla ég að skrifa sjónvarpsþætti úti líka. Við erum bæði uppfull af hugmyndum.