Sex hjólaleiðir

Emil Þór hjá Kríu mælir með sex ólíkum götu- og fjallahjólaleiðum víðsvegar um landið.

Emil er annar eigandi hjólaverslunarinnar Kría Cycles úti á Granda. Þar hefur reksturinn blómstrað síðustu ár enda hafa hjólreiðar aldrei verið jafn vinsælar og nú. Við fengum Emil til þess að segja okkur frá sínum uppáhalds fjalla- og götuhjólaleiðum hér á landi. Á listanum má finna leiðir fyrir byrjendur sem og lengra komna svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Þá er ekkert að vanbúnaði en að velja sér leið, smella á sig hjálminn og hjóla af stað.

Götuhjólaleiðir

1. Þriggjavatnaleið - 45 km.

Hjólað er upp Fossvoginn og Elliðaárdalinn. Þar er stefnan tekin suður í átt að Hafnarfirði í gegnum Kópavog og niður hjá Vífilstaðavatni. Þar er beygt inn í Heiðmörk og haldið áfram fram hjá Urriðavatni. Því næst er Ásbrautin tekin inn í miðbæ Hafnarfjarðar og þar beygt inn á Fjarðargötu og því næst Vesturgötu. Þaðan liggur leiðin inn á Álftanesveg. Góður hjólastígur er meðfram Álftanesvegi í gegnum Garðabæ og um Kársnesið að Nauthólsvík. Samtals eru þetta rúmir 45km. Sjá leið á Strava

2. Þingvallahringur - 100 km.

Frá Reykjavík eru hjólastígar upp í Mosfellsbæ. Þar er beygt inn á Þingvallaveg. Þegar komið er að afleggjaranum að Nesjavöllum er Grafningurinn tekinn (nema menn þurfi að stoppa í vöfflu í þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum). Eftir Grafninginn tekur við ein brattasta brekka landsins þegar við beygjum inn á Nesjavallaveg og stefnum aftur í átt að Reykjavík. Þessi hringur nær 100km og mælt er með því að taka með sér nesti og kreditkort! Sjá leið á  Bikemap.

3. Jökulmílan - 160 km.

Jökulmílan er keppni sem hefst á Grundarfirði og hægt er að hjóla í ýmist vestur eða austur. Sökum landlægra vindátta er ráðlagt að byrja á því að hjóla vestur í átt að Ólafsvík. Þegar komið er að Vegamótum er Vatnaheiðin tekin og stefnan tekin á Grundarfjörð. Samtals nær þessi hringur 160km/100 mílum eða svokölluðu „century ride“. Sjá leið á Bikemap

Fjallahjólaleiðir

4. Jaðarinn - 23 km

Jaðarinn eða „böddinn“ er fjallahjólaleið sem liggur frá Bláfjöllum, í gegnum Lækjarbotna og endar inni í Heiðmörk. Lagt er af stað eftir S-beygjuna á leiðinni upp að Bláfjöllum. Leiðin er tilvalin fyrir byrjendur og er þokkalega auðveld. Hún myndi teljast sem græn leið í skíðabrekkunni! Ef hjólað er frá Bláfjöllum og að Olís við Rauðavatn í gegnum Heiðmörk eru þetta tæpir 23km. Sjá leið á Wikiloc.

2. Kjarnaskógur - 20 km

Ef þú ert á Akureyri án fjallahjóls ertu að missa af einni skemmtilegustu hjólaleið landsins. Leiðin hefst við Fálkafell og endar við flugvöllinn. Það er lítið mál að klifra á hjólinu að Fálkafelli eða keyra þangað og ná í bílinn seinna. Brautin er þokkalega merkt og liggur ofan á Hömrunum að gamla skálanum og þaðan niður í Kjarnaskóg. Ef talið er með klifrið upp og aftur niður eru þetta tæpir 20km. Sjá leið á Wikilog.

3. Kjalvegur forni - 40 km

Þessi fjallahjólaleið hefst á Hveravöllum og liggur í gegnum Þjófadali og þaðan niður í Hvítárnes meðfram Langjökli. Leiðin er nokkuð greiðfær og er lítið um klifur á leiðinni. Frá Hvítárnesi væri svo hægt að lengja túrinn upp í Kerlingafjöll og hjóla svo suður í átt að Gullfossi daginn eftir. 40km dagleið að Hvítárnesi. Sjá leið á Wikilog.