Reconesse Database

Það að gera konur sýnilegri dregur okkur nær jafnrétti kynjanna.

Í lítilli skrifstofu í Hafnarstræti í Reykjavík er verið að vinna að nýju alþjóðlegu verkefni sem kallast Reconesse Database. Að verkefninu kemur metnaðarfullur hópur ungs fólks sem er búinn að fá nóg af því hve lítið er fjallað um konur í fjölmiðlum og í heimssögunni allri. Þau hafa ákveðið að taka málin í sínar hendur og nálgast vandamálið með jákvæðu hugarfari og nýrri lausn.

Við settumst niður með Andreu, Önnu Gyðu, Berglindi Sunnu og Völu sem vinna að verkefninu.

Hvað er Reconesse Database?

Alþjóðlegur gagnagrunnur á netinu um konur sem hafa á einn eða annan hátt haft áhrif á samfélagið okkar en lítið sem ekkert hefur verið fjallað um í heimssögunni. Tilgangur verkefnisins er að gera konur sýnilegri því við teljum að allt of fáum kvenkynsfyrirmyndum sé gert hátt undir höfði í heiminum. Sú staðreynd hefur mikil áhrif á það hvernig við sjáum okkur.

Verkefnið og síðunni er skipt í þrjá hluta; fortíð, nútíð og framtíð. Í fortíðarhlutanum færðu fróðleik um allar þær merkilegu konur sem höfðu áhrif á samfélagið en gleymst hefur að minnast á. Í nútímahlutanum verður eins konar fréttaveita um hvað konur eru að gera í dag og á hún að vera hvetjandi. Í framtíðarhlutanum bjóðum við síðan upp á ýmis tækifæri fyrir þær konur sem hafa fengið innblástur frá öllum þeim konum sem eru að gera þessa flottu, merkilegu hluti og vilja því gera eitthvað sjálfar. Þar verður hægt að nálgast stuðningsumhverfi með mismunandi styrkjum, hópa eða leiðbeinendur, allt eftir því hvað þú hefur áhuga á að gera. Þetta á að ýta konum af stað til að framkvæma og nýta sína bestu hæfileika.

Við höfum oft tekið dæmisögu af 12 ára stelpu sem hefur geðveikan áhuga á forritun en forritunarheimurinn er rosalega karllægur og lítið talað um konur í sögu tækninnar og tölvuheimsins. Hún fer inn á síðuna okkar og les sér til um eina af þessum ótrúlegu konum sem ber ábyrgð á tölvunarfræði eins og við þekkjum hana í dag. Til dæmis Ada Lovelace, oft kölluð fyrsti forritarinn, en hún skrifaði og gaf út fyrsta algorithmann sem var forrit ætlað tölvu, eða Hedy Lamarr, en hún uppgötvaði tækni sem gerði þróun wi-fi, bluetooth og farsímasamskipta mögulega.

Eftir að hún er búin að lesa um þessar konur fer hún í nútíðarhlutann og fær beint í æð fréttir af því hvað er að gerast í tækniheiminum í dag og hvaða konur eru að gera það gott. Því næst fer hún í framtíðarhlutann þar sem hún finnur gott stuðningsnet eins og Girls who Code, leiðbeinanda, og ákveður því að læra að forrita og fylgja eftir draumum sínum.

Svona viljum við að ferlið verði. 

Hver var kveikjan að verkefninu?

Berglind var að ferðast um Kolumbíu þegar að hún heyrði fyrst getið um Policörpu Salavarrieta, spæjara og frelsishetju. Rétt áður en Policarpa var drepin fór hún með þrumuræðu sem ætti heima í heimsögubókum alveg eins og allar frægu ræðurnar eftir frægu karlana. Hún varð ótrúlega sterk fyrirmynd ungra stúlkna í Kolumbíu. Andrea hafði hins vegar aldrei heyrt um þessa konu áður þrátt fyrir að vera lærður sagnfræðingur. Þá fórum við að hugsa hvað margar konur væru þarna úti sem gætu veitt okkur innblástur, ef við bara heyrðum af þeim. Eftir þetta rekst Berglind á frétt um að fyrir hverja hundrað nafngreinda karla í skólabókum eru á bilinu ein til tíu konur. Í þokkabót var þetta gömul frétt; sú nýja var að búið væri að fara fram á að bækurnar yrðu endurskrifaðar með þetta í huga, en ekkert breyttist. Og þetta á alls ekki við bara hér á Íslandi. Þetta er alþjóðlegt vandamál. Þá hugsuðum við: „Nei þetta gengur ekki. Við skulum bara henda í þau fullt af efni því afsökunin var sú að það væru engar konur til að skrifa um. “

Við þurfum ekki endilega sjálfar að gera það sama og þessar konur eru að gera heldur er nóg að vita að þær eru að gera það sem þær vilja. Það hvetur okkur hinar áfram til þess að fylgja því eftir sem við viljum gera. Það er líka mikilvægt fyrir stráka að sjá að konur eru til alls megnugar. Það litar jafn mikið stráka og stelpur að sjá ekki konur í öllum hlutverkum. Það leiðir svo mörg önnur vandamál af sér. 

Hvaðan kemur nafnið?

Við vorum rosalega lengi að finna nafn. Á tímapunkti héldum við að þetta yrði bara nafnlaust verkefni, vorum búnar að eyða ótrúlega miklum tíma í hugmyndavinnuna. Þetta ætlaði engan enda að taka. Við vildum að nafnið gæti höfðað til allra og væri kröftugt. Svo loksins duttum við niður á þetta orð Reconnaissance sem er stríðsorð og er notað í hernaði. Það þýðir að fara fyrir aftan óvinalínur og afla upplýsinga sem eru ekki auðfinnanlegar. En það er svolítið þannig með söguna; við þurfum að fara aftur fyrir línuna og leita stanslaust og það getur oft veriðerfitt.

Flestir sem kannast við þetta orð þekkja það úr tölvuleikjum á borð við Black Ops. Við tókum fyrri hlutann af orðinu og bættum við frönsku kvenkyns endingunni -esse til þess að búa til þessa táknmynd, Reconessuna. Hún er fyrirmynd og leggur á sig að vekja athygli á öðrum kvenfyrirmyndum. Allir sem taka þátt í verkefninu eru Reconessur. Við notum slagorð eins og „Join the movement, become a Reconesse.“ Strákar geta líka verið Reconessur.

Hvernig gengur að finna allar þessar konur?

Við leggjum mikið upp úr því að gera hreyfingu úr verkefninu og virkja fólk út um allan heim til þess að skrifa um konur í sínu umhverfi og byggja þannig saman gagnagrunninn. Við hér á Íslandi erum aldrei að fara að finna bækur á bókasöfnum sem er með öllum þessum konum, eða ferðast til allra þessara landa og kynnast þeim og sögu þeirra. Mikið af þessum heimildum eru líka bara á tungumálum sem við skiljum ekki og getum ekki komist í. Við myndum aldrei geta skilað frá okkur þessum heimildum á sama hátt og konur sem þekkja söguna og menninguna eins og lófann á sér. Við erum nú þegar byrjaðar að koma okkur í samband við kvennasöfn úti í heimi og markmiðið er að vera í samstarfi við þau öll. 

Af hverju er þetta verkefni nauðsynlegt?

Af því að við trúum því að það að gera konur sýnilegri og að virkja þær betur muni draga okkur nær kynjajafnréttinu. Það er rosalega mikið ójafnrétti í heiminum en við viljum bjóða upp á eina jákvæða nálgun þar sem við kjósum ekki ójafnréttið sem okkar stærsta vandamál heldur sem okkar stærsta tækifæri.

Hverjir eru að vinna á bakvið Reconesse Database og hvernig hefur ferlið verið?

Verkefnið byrjaði sem lokaverkefni hjá Berglindi við Kaos Pilot skólann í Danmörku fyrir tæplega tveim árum. Síðan þá hafa fleiri bæst í hópinn og í dag erum við átta sem vinnum að því. Ásamt Berglindi eru Andrea Björk sagnfræðingur, Anna Gyða lögfræðinemi, Valgerður sem er heimspekimenntuð og ljóðaútgefandi hjá Meðgönguljóðum, forritarinn David Gundry, Arnar Ingi grafískur hönnuður, Ragnhildur sagnfræðingur og Þórhallur Auður sem hefur verið að skrifa prófíla um konur í sumar.

Við erum búin að taka okkur mjög góðan tíma í að þróa verkefnið og hugsa fyrir öllum mögulegum hlutum. Það getur verið smá erfitt að hætta fullkomnunaráráttunni og ýta verkefninu úr vör. Við höfum lært svo ótrúlega margt í gegnum ferlið; forritun, mannleg samskipti og allt þar á milli. Það er ekki alltaf auðvelt að vinna svona náið með fólki sem manni þykir vænt um. Sérstaklega ekki þegar við erum öll rosalega sterkir karakterar. En þegar öllu er á botninn hvolft er það frábært því þannig komumst við að bestu niðurstöðunni. Í byrjun hafa starfstitlarnir vafist fyrir okkur því við erum öll í öllu en um leið og vefsíðan fer að taka á sig heildarmynd fara titlarnir að skýrast og við getum farið að sinna meira okkar hlutverkum. Við erum að gera þetta í fyrsta sinn svo það tekur smá tíma að finna hvar styrkleikar hvers og eins liggja. Orkan hver frá öðrum drífur mann áfram. Þetta er algjört ástríðuverkefni sem skiptir okkur miklu máli.

Hvað er á döfinni?

Við erum að klára að búa til kynningarmyndband um verkefnið sem fer inn á hópfjáröflunarsíðuna Kickstarter innan skamms. Þá fer næsta hálfa árið í það að kynna verkefnið, prófa síðuna og fá viðbrögð frá prufunotendum. Við erum ekki búnar að negla niður endanlega dagsetningu fyrir formlega opnum. Það gæti verið um áramótin en það fer eftir hvernig mun ganga að prófa síðuna.

Við stefnum á að fara með prufuútgáfuna í nokkra menntaskóla í haust. Við erum með leiðbeinanda sem er prófessor í rafrænum kennslufræðum og erum að hefja samstarf við menntaskólana. Í sögukennslu er lögð meiri áhersla á þá vélbáta sem komu til landsins en konur sem höfðu áhrif. Reconesse Database getur verið lausn fyrir þá skóla sem vilja koma fleiri konum inn í söguna en geta ekki nálgast neitt efni. Við erum búin að vera að vinna efnið út frá sögunni sem er kennd í skólum svo það sé strax hægt að setja efnið um konurnar inn í námsefni skólanna. Það gæti verið heimavinna fyrir nemendur að skrifa prófíla um konur eða lesa og svara spurningum úr þeim. 

Hvernig er hægt að taka þátt?

Núna er hægt að fara inn á síðuna okkar, senda okkur tölvupóst og taka fram hvernig þú vilt taka þátt og þá á hvaða hluta síðunnar. Við erum með leiðbeiningar um hvernig skal skrifa prófíl og svo verður Ragnhildur í því starfi að fara yfir alla texta og passa upp á heimildir og fleira. Þegar síðan okkar verður tilbúin verða allar upplýsingar um þátttöku mjög skýrar. Við leggjum mikið upp úr því að hún verði aðgengilegt fyrir alla þá sem hafa áhuga á að taka þátt og við tökum vel á móti öllum.