Úr baun í bita

Súkkulaðigerðin Omnom hefur verið starfrækt í gamalli bensínstöð á Seltjarnarnesi síðan í nóvember 2013

Kjartan Gíslason súkkulaðigrís með meiru er einn stofnenda og segir súkkulaðigerð ekki vera ósvipaða og kaffi- og víngerð. Áhuginn á því að gera hlutina sjálfir allt frá grunni rak hann og félaga hans áfram í því að láta drauminn rætast.

Hvað kom til að þið ákváðuð að stofna súkkulaðigerð?

Gríðarlegur súkkulaðiáhugi og almenn forvitni á því að vita hvernig súkkulaði er búið til. Ég hef unnið sem matreiðslumaður í 18 ár bæði hér heima og erlendis og þetta hefur því alltaf verið nálægt mér. Við erum fjórir á bakvið Omnom, ásamt mér eru Óskar æskuvinur minn, Karl Viggó bakari og konditorimeistari og Andri Úlfur hönnuður.

Við byrjuðum á því að fjárfesta í vélum og kakóbaunum og svo tók við tilraunastarfsemi í eldhúsinu heima í Breiðholtinu. 

Hvernig fenguð þið þetta húsnæði?

Við værum líklegast enn að gera tilraunir heima ef við hefðum ekki fundið þetta húsnæði. Einn félagi okkar frétti af því að það væri að losna og stuttu síðar skoðuðum við það og ákváðum að kýla á það. Við erum búnir að setja allt upp hérna sjálfir. Það er samt strax orðið frekar lítið og þröngt hjá okkur. Hingað koma margir og biðja um að fá að pissa eða kaupa sígarettur og halda greinilega enn þá að þetta sé bensínstöð. Svo koma líka margir ferðamenn og biðja um vegaleiðbeiningar. En það er bara gaman, við náum oft að selja þeim súkkulaði í leiðinni.

Hvernig framleiðir maður súkkulaði?

Það er alls ekki jafn flókið og maður myndi halda. Við flytjum inn okkar eigin kakóbaunir og ristum þær sjálfir. Fyrir vikið höfum við meiri áhrif á ferlið. Okkur finnst það miklu skemmtilegra enda viljum við gera hlutina sem mest sjálfir frá grunni. Mesta vinnan fer þó fram á plantekrunni þar sem ávöxturinn er ræktaður. Í hverjum ávexti eru um það bil þrjátíu til fjörutíu baunir og það dugar í eina súkkulaðiplötu. Baununum er skúbbað út og þær látnar gerjast í kassa úti á ökrunum. Eftir gerjunarferlið sem tekur um viku hefst þurrkun. Síðan eru baunirnar sendar til okkar í poka og við tökum við þeim til þess að rista þær. Það er gaman að segja frá því að súkkulaðibaunirnar geta verið margbreytilegar eftir héruðum og árstíðum. Frá því baunirnar eru ristaðar og þar til súkkulaðiplatan er tilbúin, líða um það bil fimm dagar. Svo er súkkulaðinu pakkað inn og það selt. 

Hvaðan koma baunirnar?

Baunirnar okkar koma frá Venesúela, Papa Nýju-Gíneu, Ekvador og Madagaskar. Við komum okkur í samband við kakósérfræðing í Bandaríkjunum sem vinnur við það að fara út á plantekrurnar og finna góðar baunir. Hann er algjör hippi og selur baunirnar til minni framleiðenda eins og okkar. Þetta fer allt fram „fairtrade“ og baunirnar eru allar lífrænar. Hann hefur gefið okkur mörg góð ráð um súkkulaðiframleiðslu en það er í raun engin bók sem kennir þetta og engar upplýsingar á netinu um súkkulaðiframleiðslu frá A til Ö. 

Hvernig hafa viðtökurnar verið?

Allir hér heima hafa tekið vel á móti þessari framleiðslu en margir héldu samt fyrst að þetta væri erlend vara. Omnom hefur verið að spyrjast út því við höfum aldrei auglýst okkur nema á samfélagsmiðlum. Einnig höfum við fengið einhverja umfjöllun í fjölmiðlum. Öskubuskusagan á bakvið velgengni okkar er hönnun umbúðanna. Hún heppnaðist mjög vel og höfum við fengið flotta umfjöllun á erlendum bloggsíðum. Það sýnir hvað hönnun skiptir miklu máli. Nær jafnlangur tími fór í að hanna umbúðirnar og að gera uppskriftirnar, eða um það bil eitt og hálft ár.

Hver er framtíðarsýnin ykkar?

Við viljum einbeita okkur að því að ná góðri fótfestu hérna á Íslandi. Við erum einnig byrjaðir að selja svolítið á erlendri grundu, svo sem í París, New York og Amsterdam. Það gengur mjög vel. Svo erum við alltaf að prófa nýjar tegundir og nýjar baunir. Við eigum heilan lager af prufum. Smökkunarferlið við gerð nýrrar súkkulaðitegundar getur tekið gríðarlangan tíma sökum fullkomnunaráráttu en á einhverjum tímapunkti þarf maður að segja stopp. Þrátt fyrir að við tökum þessum viðskiptum alvarlega má ekki gleyma því að þetta er fyrst og fremst gert til þess að hafa gaman. Við viljum að það sé líflegt í kringum okkur og þess vegna völdum við nafnið Omnom sem er einmitt hljóðið sem maður gerir þegar að maður borðar eitthvað gott: „Omnom!“ Hver veit nema við gerum Omnom páskaegg 2015?