Halla Mia
Eftir frumsýningu sinnar fyrstu heimildarmyndar ræðir Halla Mia viljann til að miðla röddum sem ella myndu ekki heyrast
Hin 28 ára gamla Halla Mia frumsýndi á Skjaldborgarhátíðinni á Patreksfirð í vor heimildarmynd sína Bækur með remúlaði. Myndin var lokaverkefni hennar í sjónrænni mannfræði í Freie Universität í Berlín. Við gerð myndarinnar dvaldi hún í þrjá mánuði í bænum Tasiilaq á austurströnd Grænlands.
Bækur með remúlaði fjallar um ótrúlega búð í Tasiilaq sem hin danska Gerda Vilholm hefur rekið síðan 1989. Til að byrja með opnaði Gerda bókabúð en með árunum hafa pylsur, ís og alls kyns varningur bæst í búðarhillurnar. „Upphaflega hafði mig langað til að vinna að heimildarmynd með Grænlendingum sem hafa búið þarna allt sitt líf en það hefði tekið mig mörg ár að öðlast almennilegan skilning á samfélagi þeirra. Þarna eru öðruvísi og minni samfélög en þau evrópsku sem við erum vön. Mér fannst þau eiga inni meiri virðingu en svo að ég fjallaði um þau út frá mínum vestrænu viðmiðum. Ég kynntist svo Gerdu sem er 71 árs og hefur búið á Grænlandi síðan 1968 og talar bæði austur og vestur grænlensku. Auk þess að reka búðina er hún með mörg járn í eldinum; hún er að safna fyrir sundlaug í bænum, er endurskoðandi, ökukennari, veðurathugunarkona, keyrir oft um á gröfu og er virk í stjórnmálum. Við Gerda náðum ótrúlega vel saman og ég var eins og húsgagn í búðinni hennar þann mánuð sem ég tók upp myndina.“
„Auk þess að reka búðina er hún með mörg járn í eldinum; hún er að safna fyrir sundlaug í bænum, er endurskoðandi, ökukennari, veðurathugunarkona, keyrir oft um á traktor og er virk í stjórnmálum. Við Gerda náðum ótrúlega vel saman og ég var eins og húsgagn í búðinni hennar þann mánuð sem ég tók upp myndina.“
Bækur með remúlaði er ekki fyrsta mynd Höllu Miu en fyrir hefur hún gert stuttmyndina A little bit. „Ég lærði ritlist í HÍ áður en ég fór í nám til Berlínar og hrærðist mikið í stúdentaleikhúsinu þar sem við vorum að vinna mikið með skáldskap. A little bit gerði ég árið 2010 og er myndin unnin úr blöndu af raunveruleika og handriti. Þetta var á þeim tíma sem fátt komst að í umræðunni nema kreppan og það var eins og það gleymdist hvað börn eru næm á ástandið í kringum sig. Þau vita alveg hvað er í gangi en samt tölum við aldrei við þau, bara um þau. Myndin fjallar því um tvo krakka, þriggja og fjögurra ára, sem vakna á sumarnóttu og leggja í leiðangur með strætó til að veiða fisk. Til að fanga barnslega einlægni lögðum við fyrir þau verkefni sem gerði þetta allt svolítið súrrealískt og skemmtilegt. Það er ekki auðvelt að láta börn leika auk þess sem ég hef ekki áhuga á að vinna eftir mjög nákvæmu handriti. Þetta var skemmtileg tilraun en það er gaman hvað kvikmyndagerðin á Íslandi er ung og opin. Hér er fullt af plássi fyrir tilraunir, nýjar aðferðir og stíla.“
Halla Mia hefur verið búsett í Berlín síðustu tvö og hálft ár en hefur þó búið víðar. „Þegar ég var krakki bjó ég um hríð í Bandaríkjunum og í Kanada með fjölskyldunni. Svo fór ég sem skiptinemi til Perú í eitt ár og dvaldi í Frakklandi í nokkra mánuði. Áður en ég flutti til Berlínar starfaði ég sem flugfreyja og bjó þá meðal annars í Sádí Arabíu um skeið. Það víkkar sjóndeildarhringinn að hafa búið í landi eins og Sádí Arabíu og maður gerir sér fullan grein fyrir þeim forréttindum sem maður býr við. Mér finnst því að þær myndir sem ég geri þurfi að miðla röddum sem ella myndu ekki heyrast. Það rak mig áfram til Grænlands.
Sú ímynd sem við höfum af Grænlendingum er mjög neikvæð enda rata bara slysa- og áfengissögur til okkar á Íslandi. Ég taldi hins vegar að á Grænlandi hlyti ég að finna jákvæða rödd sem ekki hefði fengið að hljóma áður. Það gekk eftir. Hvort sem myndirnar mínar verða „fiction“ eða ekki munu sögurnar alltaf eiga erindi. Því er eins farið með næsta verkefni en það nefnist Á sama báti. Það er verkefni sem ég er að vinna með Védísi systur minni og stelpu sem heitir Snædís. Védís og Snædís eru góðar vinkonur en lifa akkúrat andstæðu lífi. Snædís er hreyfihömluð og daufblind en Védís hefur starfað í Kína sem leiðsögumaður og klettaklifrari og er alltaf úti um allt. Sú síðarnefnda stakk því upp á því að við myndum hætta að láta Snædísi vera áhorfanda að sínum ferðalögum og taka hana þess í stað með í sitt eigið ferðalag. Þar sem Snædís getur voða lítið heyrt né séð þurfum við að örva önnur skynfæri og datt okkur þá í hug að fara í ferðalag á kanó í Kanada.
„Þannig getur hún fundið hreyfinguna í bátnum, hitastigið í vatninu, setið við varðeld og fundið lyktina og hitann af honum, borðað grillaðan fisk úr vatninu og sofið í tjaldi.“
Það verður gaman að fara með Snædísi því hún er klár og mikill húmoristi, hefur ótrúlega lífsgleði og er mikill karakter. Við fljúgum út 21. ágúst og verðum í viku. Ég ætla að gera mynd um ferðalagið og verður hún að öllum líkindum svolítið skynræn eða það sem kallað er „sensorial“ á ensku. Mig langar að vinna með það hvernig Snædís sér heiminn: Hvað sér maður til dæmis þegar maður sér ekki neitt?
Við höfum ýtt úr vör Karolina Fund fjöldasöfnun fyrir verkefnið sem við vonum að muni takast vel. En eins og Védís sagði þá hefur fólk fjárfest í heimskulegri hlutum en þessum og þó við þurfum að borga nokkur hundruð þúsund úr okkar eigin vasa þá verður það þess virði.“
Spurð um búsetu þessa stundina segist Halla Mia ekki vita það alveg. „Ég gæti hafa flutt heim fyrir fjórum dögum en er ekki viss. Ég sótti um mastersnám í „montage“ í haust sem er nám í klippingu. Námið er í Berlín og á þýsku en þar sem ég er ekki með bachelor nám í klippivinnu er spurning hvort ég komist inn. En ég er náttúrlega með ágætis safn í möppu svo ég krossa fingur um að fá undantekningu. Námið getur maður mótað svolítið eftir því sem maður hefur áhuga á. Í sumar mun ég starfa sem landvörður í Hvannalindum milli Kverkfjalla og Öskju og hlakka til að komast svolítið „back to the basics”, núllstilla mig og njóta fegurðarinnar í ósnortinni náttúrunni. Það er líka mikilvægt að það sé fólk á svona stöðum sem þykir vænt um umhverfi sitt. Maður eyðileggur ekki það sem maður þekkir, rétt eins og maður fer ekki í stríð við vini sína.“