Secret Solstice

Blær kíkti við á Secret Solstice og fékk að heyra viðbrögð gesta hátíðarinnar

Milo með vinum frá London, Brighton, Mexíkó og Reykjavík

„Þetta er ótrúlegt. Íslendingar eru mjög opnir og vinalegir, hvort sem er fyrir, á meðan eða eftir að þeir eru búnir að fá sér í glas. Síðast þegar ég kom hingað hélt ég að allir væru mjög dónalegir, en það er kannski vegna þess að ég var að djamma á B5.“

Forgotten Lores

„Við erum himinlifandi. Hátíðin er vel skipulögð og gríðarlega skemmtileg. Allt fer fallega fram, fólk er glatt og vinsamlegt. Þetta er bara eins og þetta á að vera. Mikið um danstónlist og flestar íslensku kanónurnar eru að spila.“

Lauria og Sophia

„Vinir okkar í Woodkid eru að spila og við komum til að sjá þá. Við búum á Seyðisfirði núna með mörgum ungum listamönnum. Þegar við komum fyrst til Íslands þekktum við bara Björk, Sigurrós og Ásgeir Trausta. Það er frábært að fá tækifæri til að grafa aðeins dýpra. Íslensk raftónlist er mjög áhugaverð og framúrstefnuleg. Hún er ólík allri annarri raftónlist frá öðrum löndum og það er erfitt útskýra afhverju. Það er bara allt annar tónn.“

Marinó, Úlfar, Kjartan

„Þetta er „hellað“ og við erum sáttir. Disclosure og Massive Attack á toppnum. Þetta er fyrsta hátíðin sem við höfum farið á hér á landi. Hlökkum til að sjá Schoolboy Q, Emmsjé Gauta, XXX og Gísla Pálma auðvitað.“

Jóhann Richardsson

„Þetta er flottasta útihátíð sem hefur verið haldin á Íslandi. Hér er ekki þessi fyllirís-, subbu-, nauðgunar „fílingur“ sem fylgir oftast íslenskum útihátíðum. Ég get verið hérna með dóttur mína, edrú og við getum sleppt okkur og dansað og notið þess til fulls.“

DJ Yamaho

„Það er náttúrlega bara æðislegt að spila á þessari hátíð. Það er líka góð tilbreyting að spila um hábjartan dag. Eins og maður sé að gera eitthvað ólöglegt með því að dansa á daginn. Maður er ekki vanur því og þess vegna er aukabónus að upplifa það.“

Þorsteinn og Assa Borg

„Við erum hér í sjálfboðastarfi og höfum lítið sofið. Við drekkum því mikið kaffi. Það er vel til fundið að hafa hátíðina í Laugardalnum. Hér er fólk úti um allt sem við þekkjum og getum spjallað við. Ef við værum á risastórri hátíð í útlöndum væri það algjör tilviljun að rekast á einhvern sem maður þekkir.“