Ágúst Bent vs. María Lilja
Druslugöngumamman og Rottweilerhundurinn ræða um stick and poke, djammið og markvissa heimskun
María: Vandræðalegasta sem ég hef lent í á djamminu? Það er þá helst að maður hittir einhvern sem maður vildi ekki hitta eða eitthvað svoleiðis sko.
Bent: Já ég er bara blessunarlega laus við minningar, mér finnst alltaf svo skrítið þegar fólk spyr „hvað var svo gert á föstudaginn?“ Ég hugsa bara aldrei um hvað ég gerði í gær eða fyrradag, ekki nema eitthvað hrikalegt hafi gerst. Kannski er ég bara svona tómur að innan og er ekkert að velta svona hlutum of mikið fyrir mér eftir á.
María: Já ég hugsa nefnilega mjög mikið um það hvað ég geri á djamminu. Þar er eðlismunurinn á okkur.
Bent: Auðvitað er ég með svar við þessari spurningu en ég veit ekki hvort ég vil segja það hér. Ég veit líka ýmislegt um þig María, en það er nú óþarfi að uppljóstra því.
María: Já maður hefur nú alveg gert ýmislegt skrítið. Til dæmis vaknaði ég með húðflúr á mér seinustu helgi. Þetta er svona „stick and poke“ fangelsistattú og ég er ótrúlega marin í kringum það enn þá, þetta var ekki gott. En rosalega fyndið, að minnsta kosti á þeim tíma.
Bent: Málið með húðflúr sko, upprunalega voru þau til þess að þú gætir séð hverjir væru töff og hverjir bara einhverjir lúðar. En núna er þetta orðið svo ógeðslega „mainstream“ að venjulegar „soccer moms“ á Íslandi eru komnar með „full sleeves“ báðum megin. Þá þurftu hipsterarnir að finna sér eitthvað annað eins og hálfljót tattú í eftirpartýum en svo gat María Lilja ekki einu sinni leyft þeim að eiga það. Nú eru stelpur eins og hún farnar að hlaða á sig svona tattúum en ég fílaða sko!
María: Já ég er farin að lifa mig ótrúlega mikið inn í þennan fangelsisheim núna eftir að hafa fengið mér þetta fangelsistattú. Er nefnilega búin að vera að horfa á „Orange is the new Black“ og líður eins og ég sé búin að vera inni í kvennafangelsinu seinustu tvær vikurnar.
Bent: Fyndið með svona trend, svo höldum við að þetta sé eitthvað séríslenskt en auðvitað er svipað að gerast út um allan heim.
María: Annars er nú alveg hitt og þetta séríslenskt við djammið heima. Margrét Erla vinkona okkar vakti máls á sextúrisma í pistli sem kom í Kjarnanum um daginn. Hann var semsagt um túristana sem koma til landsins í þeim eiginlega tilgangi að fá að ríða. Þegar þeir hitta íslenskar konur koma þeir ótrúlega illa fram við þær ef þær hoppa ekki beint upp á hótelherbergi með þeim. Þetta er einhver ímynd sem við erum búin að vera að selja út á við.
Bent: Já, er ekki lausnin bara að önnur lönd fari líka að halda svona druslugöngur eins og við á Íslandi erum búin að vera að gera seinustu ár.
María: Bara svona til þess að leiðrétta þig þá er druslugangan nú ekki haldin sem eitthvert markaðstæki til að laða graða túrista til landsins heldur til þess að vekja máls á „anti slut shaming“.
Bent: Ég veit, ég er bara að djóka. Nú ætla ég ekki að „shame‑a“ einn eða neinn. Það eru bara allir búnir að vera með öllum hér á Íslandi.
„Það er ekki lengur hægt að tala um kviðmága og kviðsystur heldur bara þessa örfáu sem maður á ekki tengls við. Það eru þá bara þeir sem eru ljótir.“
María: Við erum eins og eitt lítið bæjarfélag. Mér finnst það dásámlegt ef fólk getur farið heim saman, riðið og kynnst svo og kannski orðið „mega“ ástfangið.
Bent: Þannig virkar íslenska deitmenningin. Þessu er öfugt farið hérna heima samanborið við það sem við sjáum í amerískum bíómyndum. Held samt að það séu alveg einhverjir nördar sem bjóði fólki á deit og fari svo bara heim til sín í sitthvoru lagi að sofa.
María: Mér var reyndar einu sinni boðið á deit í Bónus. Mjög skuggalegur náungi sem hugsaði greinilega ekki mikið um tennurnar á sér en ég meina hann var kannski góð sál, ég veit það ekki. Ég fór ekki á deit með honum.
Bent: Maður á aldrei að dæma fólk út frá tönnunum. Ég er með hræðilegar tennur.
„Til dæmis fann ég strumpanammi í nótt sem ég held að hafi verið orðið frekar gamalt því það var orðið hart og seigt og þegar ég tuggði það þá datt tannfylling úr mér.“
María: Og bíddu, hvar var þetta gamla nammi, fannstu það í buxnavasanum eða hvað?
Bent: Nei það var bara einhvers staðar heima.
María: Þetta var örugglega undir pullu í sófanum og þú þorir bara ekki að viðurkenna það.
Bent: Það er bara leyndarmál. Allavega finnst mér að strumpanammi innflytjandinn ætti að borga fyllinguna mína. Ertu annars eitthvað búin að fylgjast með HM María?
María: Ég myndi ekki segja að ég væri eitthvað „all in.“ Það er náttúrlega gaman að heimurinn allur sameinist í einhverju þessu líku en svo eiga svona keppnir sér líka skuggahliðar. Til dæmis barnaþrælkun og vændi og svo auðvitað þessar útigangsmanna hreinsanir sem hafa orðið til við það að ryðja svæði fyrir íþróttaleikvanginn.
Bent: Já einmitt og eftir því sem fátæktin er verri eru mannréttindabrotin væntanlega fleiri eins og til dæmis í Katar sem ég ætla ekki einu sinni að reyna að segja ykkur hvar er á korti. En höfum þetta á léttari nótunum svo ég geti verið með í samræðunum. Ég var nefnilega einu sinni mjög klár en svo fattaði ég bara að heimskt fólk er miklu hamingjusamara. Ég er því búinn að vera að vinna að því markvisst síðan að drepa heilasellurnar í mér en það hefur nú kannski tekist aðeins of vel.
María: Ertu búinn að prófa að lesa bók?
Bent: Nei, ég er alveg hættur að nenna því. En gaman samt að segja frá því að seinast þegar ég var á Loft Hostel, braut ég þessi ljós hérna fyrir ofan okkur.
María: Já akkúrat, var það ekki í fyrirpartý-inu fyrir Júróvísjón sem ég var að halda með Samfylkingunni í Reykjavík. Bíddu hvað gerðist?
Bent: Ég var svo glaður að Ísland hafði komist áfram í Júróvísjón að ég ætlaði að sveifla ljósunum svona eins og maður gerir á Prikinu en þá bara sveifluðust ljósin saman og brotnuðu. Það kom myndband af þessu á Vísi en ég var samt sem betur fer ekki nafngreindur.
María: Ég man einmitt eftir því að hafa klúðrað svona í sjónvarpsfréttum en þá var það allt á mínu nafni. Ég var ótrúlega veik og tók óvart parkotín forte í stað venjulegs paratabs og varð sjúklega þvoglumælt. En það er held ég það eina bilaða sem ég hef gert.
Bent: Það er ekki það bilaðasta sem þú hefur gert, en okei…
María: Nei það er reyndar alveg rétt en ég vil samt að fólk haldi það.