Morgunsund gefur gull í mund

Það er ekki laugin sem dregur að fólkið, heldur fólkið sem dregur þig í laugina.

Sundlaugarmenningin á Íslandi er eins fléttuð saman við þjóðarsálina og soðin ýsa með kartöflum. Í sundlaugum landsins sameinast fólk í ákveðinni vellíðan, bæði líkamlegri og andlegri og mætti vel láta sér detta í hug að laugarnar eigi ákveðinn þátt í langlífi þjóðarinnar. Sundlaug Vesturbæjar var tekin í notkun árið 1961 og til hennar má rekja uppruna heitra potta á Íslandi. 

Gísli Halldórsson arkitekt fékk innblástur úr Snorralaug við hönnun pottanna sem urðu að einskonar Snorralaug nutímans. Örn D. Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands, hefur skrifað heilmikið um laugarmenningu landsins og segir um sögu heita pottarins; „Hugmyndin um heita pottinn breiddist út um allt landið og potturinn varð vettvangur fyrir eina af mest stunduðu félagslegu samkomum landsins á innan við tveimur áratugum, sambærilegur kaffihúsum Parísar, ensku kránni, torgum á suðlægum slóðum, hinu forna tyrkneska baði, hinu japanska sento, eða, nær okkur, hinu finnska gufubaði.“*

Um vikulangt stundaði Blær tvær laugar á höfuðborgarsvæðinu, Vesturbæjarlaug og Sundlaug Garðabæjar, og sat sem fluga á vegg með morgunhópum lauganna tveggja.

Klukkan er rétt tæplega hálf sjö á mánudagsmorgni og Vesturbærinn steinsefur ef frá eru taldir einstakir blaðberar á rölti um göturnar. Sólin hefur ekki enn skriðið yfir sjóndeildarhringinn en þó er einn staður í bænum glæddur heilmiklu lífi, anddyrið að Vesturbæjarlauginni. Laugin opnar fyrir gesti og gangandi eftir nokkrar mínútur en fastagestirnir eru þegar mættir á svæðið. Það er þó varla hægt að tala um gesti, enda búin að mæta í laugina á hverjum degi, á sama tíma í allt að þrjátíu ár. Heimamenn skulum við kalla þau.

Á slaginu hálf sjö er dyrunum að Vesturbæjarlauginni lokið upp og morgunsamræðurnar í anddyrinu hætta snögglega, kapphlaupið í klefana er hafið. Ég heyri útundan mér orðin „dömur fyrst“ og þakka kærlega fyrir að fá að skokka í kvennaklefann. Í októberkuldanum er tilhugsunin um heitt vatnið eins og fljótandi Paradís.

Fastagestirnir þjóta í gegn og ég er ekki einu sinni komin úr sokkunum þegar ég heyri skrúfað frá fyrstu sturtunni í kvennaklefanum. Þegar ég loks stíg út á laugarsvæðið eru allar sundbrautir mannaðar svo ég tölti í átt að Örlygshöfn, litlum potti rétt við gufubaðið, sem mun fyllast innan nokkurra mínútna.

„Þegar fötin fjúka fyrir einföldum sundklæðnaði, fýkur stétt og staða einstaklingsins með. Hér er enginn merkilegri en annar, enginn ómerkilegri en hinn.“

Um leið og allir hafa týnst ofan í pottinn hefjast hlátrasköllin, þegar menn hafa þekkst í tugi ára er stutt í skondin skot þó klukkan sé ekki einu sinni orðin sjö. Í pottinum eru fæstir ávarpaðir með eigin nafni heldur heyri ég talað um mjóa prestinn og feita prestinn, organistann sem kemur á fimmtudögum og þar fyrir utan skilst mér að ég sitji í sæti kanselistans sem ekki hefur sést í pottinum síðastliðna daga. Vigfús, sem situr mér við hlið starfaði sem læknir á sínum tíma og Edda, sem situr á móti mér er ein vinalegasta kona sem ég hef nokkurn tímann hitt. Það er stiklað á viðburðum vikunnar og fljótlega kemur í ljós að hér eru landsmálin ekki bara rædd, þau eru ákveðin líka.

Seinna fæ ég að heyra að hópurinn sem mannar Örlygshöfn er oftar en ekki kallaður Húnapotturinn. Tengingin er hvorki við Húnavatnssýsluna né einstaka seli heldur hlaut hann nafnið vegna þess að það eru þau sem hanga á hurðarhúni laugarinnar fyrir opnun alla morgna.

Einn gestanna er búsettur í Bandaríkjunum en kemur alltaf í Húnapottinn þegar hann er á landinu. Hann segir mér að hér sé að finna fólk úr öllum áttum með alla flóru pólitískra skoðana. Það kemur mér ekki á óvart enda hefur sundlaugin þann kost að fólk mætist af öllum stéttum samfélagsins á ákveðnum jafningagrundvelli. Þegar fötin fjúka fyrir einföldum sundklæðnaði, fýkur stétt og staða einstaklingsins með. Hér er enginn merkilegri en annar, enginn ómerkilegri en hinn.

Í útiklefa kvenna síðasta daginn minn með Húnapottinum segir Edda mér að í fyrra hafi heilsa og aldur í fyrsta sinn komið aftan að henni. Í kjölfarið liðu nokkrar vikur þar sem hún mætti ekkert í pottinn á morgnana. Að lokum fær hún símtal frá Vigfúsi sem spyr hvort hún ætli ekki að heiðra Húnapottinn með nærveru sinni á næstunni. Þegar Edda segist ekki treysta sér í laugina býðst Vigfús til að sækja hana morguninn eftir og þiggur hún það. Síðan þá hefur hann sótt hana á hverjum morgni og þau keyra saman í laugina.

Í Vesturbæjarlauginni er stundvísi greinilega í hávegum höfð því á slaginu hálf átta má heyra nokkur hróp úr einum pottanna sem merkir að brátt hefjast Mullersæfingar á sundlaugarbakkanum. Þrátt fyrir kuldann er ekki annað hægt en að taka þátt í æfingunum sem Jens Petur Muller fullyrti að myndi auka þrótt, fjör og líkamsfegurð. Hér vantar hvorki fjörið nér þróttinn, allir taka þátt í beygjum og teygjum en það sem einkennir Mullersæfingar í Vesturbænum er þó einna helst kímnigáfan sem æfingunum fylgir. Eftir sjö mínútna hopp og púl (J.P. Muller vildi helst ekki að æfingarnar væru lengri en 15 mínútur) er öllum boðið upp á annað hvort vatn eða kaffi sem sötrað er á í heitasta potti laugarinnar. 

Hinum megin á höfuðborgarsvæðinu, í sundlaug Garðabæjar, hittist hópur kvenna rétt upp úr klukkan níu. Þær kalla sig Vatnaliljurnar og hafa komið í laugina daglega í allt að 25 ár. Þær elstu eru rétt að skríða í nírætt. Það er þó ekki hægt að merkja á þeim aldurinn og greinilegt að sundlaugin hefur virkað sem ákveðinn æskubrunnur, bæði andlega og líkamlega. Það er létt yfir Vatnaliljunum og Ragna Lára, fyrrum íþróttakennari, fullyrðir að hér sé hlegið svo mikið að þær eigi eftir að lifa langt fram yfir hundrað árin. Fullyrðingin er þó botnuð með orðunum „vonandi ekki“ og þær skella uppúr. Ragna Lára heldur áfram: „Til að fá að vera með verða sundhetturnar að passa við sundbolinn, annars er maður rekinn uppúr,“ og aftur dynja hlátrasköllin. Það er þó greinilegt að öllu gamni fylgir einhver alvara enda Vatnaliljurnar einstaklega vel til fara í lauginni.

Eftir daglegar heimsóknir í pottana tvo finnur maður að það er ekki bara hláturinn sem dregur fólk í þá. Þarna myndast lítið samfélag, byggt á einlægni, umburðarlyndi og væntumþykju. Til verða tengsl sem gjarnan ná út fyrir veggi sundlaugarinnar, og velllíðan sem lifir langt fram á næsta morgun, fram að næstu sundferð.

*Katrín Snorradóttir þýddi textabrot Ö.D.J. í eftirfarandi ritgerð