Lóa vs. Hugleikur

Skopteiknararnir ræða Tölvutek, Ísfólkið og það sem ekki má tala um.

Hugleikur: Ég þoli ekki vínarbrauð og franskar vöfflur. Matur sem molnar uppi í þér. Ég var einu sinni að vinna á frístundaheimili. Þar var ein stelpa sem fékk reiðiköst þegar það var búið að sækja alla nema hana. Foreldrar hennar voru nefnilega svona uppar, of upptekin við að uppgötva sig sjálf, Uppar. Og mamma hennar var alltaf geðveikt sein að sækja hana því hún var í jóga.

Lóa: Sko, það er nefnilega alltaf verið að segja að fólk eigi að hugsa vel um sjálft sig svo það geti hugsað vel um börnin sín. Ég held að sumir segi þetta bara til að hafa afsökun fyrir því að sofa út. Því að maður verður geðveikur nálægt börnum.

Hugleikur: Já, ég skal alveg trúa því. Þessi stelpa fékk allavega spörkuköst. Og svo varð maður að halda henni niðri og róa hana. Einu sinni sátum við í eldhúsinu á frístundaheimilinu, ég yfirmaður minn og þessi stelpa, hún þagði bara því ég var búin að róa hana. Og yfirmaður minn er eitthvað „já, og svo er foreldradagur um helgina, eigum við ekki að vera með bakkelsi og eitthvað svoleiðis?“ Og þá sagði ég „já, endilega en við skulum ekki hafa svona vínarbrauð vegna þess að það fer svo í taugarnar á mér hvernig það molnar.“ Og þá sagði litla stelpan „þessir listamenn, það fer allt í taugarnar á þeim.“ Þá fattaði ég að hún var kannski bara svolítið klár. Sem er oft raunin með reið börn.

Lóa: Ég hef líka unnið á frístundaheimili í afleysingum. Einu sinni stóð ein krúttleg og þétt stelpa við brauðbakka, og ég vissi ekki að hún mætti ekki borða brauð. Hún var sko bara að bíða eftir því að allir litu undan svo hún gæti rænt brauði. Þegar hún var búin að ná að krækja sér í brauð hljóp hún í burt og öskraði hátt „ég má ekki borða hveiti, ég fæ niiiiiiiiðurgang.“ og svo hló hún bara. Ég gat ekki gert neitt því mér fannst þetta svo fyndið, hún hélt að ég myndi sitja í súpunni ef hún fengi niðurgang.

Hugleikur: Sarah Silverman kallar niðurgang funshit. Það er miklu betra að vera með niðurgang heldur en harðlífi. Hvort er hollara? Hvort er betra merki um góða líkamsstarfsemi?

Lóa: Bæði óhollt bara … Já, ég var einmitt að fagna því að ég hef ekki unnið launaða vinnu sem ég kann ekki í sex ár.

Hugleikur: Svona „alvöru“ vinnu …

Lóa: Sem er fínt því ég er ekkert góð í svoleiðis. Einu sinni var ég að vinna frá 8–17 á daginn og ég var orðin svo þunglynd að ég hringdi alltaf í mömmu mína í hádeginu og grét. Og um jólin fékk ég einhverja óskiljanlega heltu, ég held ég hafi bara orðið þunglynd í löppinni. Læknirinn lét mig bara fá íbúfen því það var ekkert að mér.

Hugleikur: Ég var í alvöru vinnu síðast fyrir svona sjö árum síðan.

Lóa: Já, við erum ekki góð í þessu.

Hugleikur: Núna tekur maður stundum svona verktakavinnur að sér, þær eru alltaf illa borgaðar því það er einhvern veginn sjálfkrafa gert ráð fyrir því að það sé ógeðslega gaman að teikna.

Lóa: Já akkúrat, svolítið eins og fólk sé „hey þú ert að vinna draumastarfið þitt, þú þarft ekki að lifa.“ Svo er maður alltaf að heyra „gaurinn sem gerði family guy hann var að vinna aðra vinnu og hann gerði þetta bara allt á kvöldin í eldhúsinu heima hjá sér“ bara já okei, maður á að vinna í 20 tíma því þú mátt ekki fá borgað fyrir það sem þér finnst skemmtilegt og kannski muntu meika það einn daginn.“

Hugleikur: Þegar kemur að til dæmis auglýsingavinnu þá segir fólk alltaf fyrst: „Þú færð að gera það sem þú vilt, við viljum náttúrulega bara fá þinn húmor í þetta” Svo gerir maður eitthvað fyndið en þá er það alls ekki það sem þeir vildu. Stærsta kjaftæði sem þú heyrir í svoleiðis viðskiptum er að þú færð að gera það sem þú vilt. Svo stundum þegar maður fær tilboð um að gera eitthvað verktakadæmi þá þarf maður að vega og meta hvort maður vill fá nokkra hundraðþúsundkalla og sitja á vinnustofunni sinni öskrandi á teikniborðið. Eða hvort maður vilji kannski bara sleppa því og horfa á Buffy the vampire slayer. Þegar við vorum að gefa út hið árlega blað Ókeipiss vorum við með eina reglu: Ef að þú vilt ekki fá þá auglýsingu sem ég býð, þá færðu enga auglýsingu. Ég mun ekki gera betur en fyrsta hugmyndin.

Lóa: Já, í því voru líka ógeðslega skemmtilegar auglýsingar.

Hugleikur: Og það var, já. Til dæmis síðast þá … Æ ég get ekki sagt það, þá væri ég svolítið að kúka yfir eitt fyrirtæki. En allavega.

Lóa: Langar þig að vinna með þeim aftur?

Hugleikur: Nei. Ókei. Ég biðst fyrirfram afsökunar til fyrirtækisins. En þetta er semsagt fyrirtæki sem heitir Tölvutek sem ég veit að er gott fyrirtæki.

Lóa: Já einmitt, við verslum mikið við Tölvutek.

Hugleikur: Að því sögðu þá stakk ég upp á að þeirra auglýsing væri þannig að það væri einhver karl við tölvuna sína og að litlir vírusar væru að hoppa ofan á henni. Og gæjinn er eitthvað „ó nei, tölvan mín er öll út í vírusum.“ Og þá kemur einhver ofurhetja sem segir „get ég aðstoðað?“ og þá er gæjinn alveg „kapteinn Tölvutek!?“ Og ofurhetjan segir „já ég kem og tek þessa vírusa, tek þá í rassgatið“ og svo tekur hann vírusana í rassgatið. Og svo kemur: „Tölvutek, tölvutekur vírusana þína í rassgatið.“ Og mér fannst það ógeðslega fyndið. En þeim fannst það of brútal. Ég svaraði þeim frekar pirraður í tölvupóstinum, skrifaði eitthvað „ok ég skal þá reyna að finna eitthvað „venjulegra.“ Mjög svona passíft aggressíft. En svo fann ég ekkert venjulegra því ég var of giftur þessari hugmynd.

Lóa: Ég veit ekki hvort þeir séu með vírusvarnir.

Hugleikur: Jú, ég tékkaði á því á síðunni þeirra. Þeir eru í alvörunni að tölvutaka vírusa í rassgatið.

Lóa: Ég hélt að þeir væru að móðgast út af því að þú hafir farið vitlaust með þjónustuna sem þeir bjóða upp á.

Hugleikur: Já, en þetta er nú alveg frekar vafasamur brandari …

Lóa: Ég myndi ekki segja ríða og rass nema þú hefðir byrjað á því.

Hugleikur: Ég segi það mjög sjaldan upphátt samt, segi það bara á blaði. Flest þetta ógeðslega sem ég geri kemur bara á pappír sko.

Lóa: Já það er rétt, þú ert mjög bældur að öðru leiti. Eða svona, heldur þér fyrir þig.

Hugleikur: Já, hahaha

Lóa: Ég er líka mjög bæld manneskja. Mér var einu sinni sagt að ég væri eins og einhver manneskja fædd miklu fyrr. Þá var ég í svona teiknitímum með nektarmódeli og ég var að skammast yfir hvað fólk væri alltaf með klám á heilanum. Ég man ekki hvort ég hafi verið að ergja mig yfir Game of Thrones eða eitthvað, en ég alveg þoli ekki þá þætti. Þetta er svo mikið nörda eitthvað.

Hugleikur: Ég elska Game of Thrones, þetta eru bestu þættir síðustu tuttugu ára.

Lóa: En ohh, fyrsta serían er bara alveg eins og Ísfólkið.

Hugleikur: Þú ert búin að segja þetta mjög oft.

Lóa: Já ég veit. Það er bara enginn sammála mér.

Hugleikur: Ég er alveg sammála þér, ég bara hef ekki lesið Ísfólkið.

Lóa: Þetta er bara alveg nákvæmlega eins, fólk í skinnum í einhverjum nauðgunarsamböndum og eitthvað ógeðslegt.

Hugleikur:

Lóa og Hugleikur: Hahahha ...

Lóa: … Við varðeld hahah...

Hugleikur: Kannski er Ísfólkið þá bara svolítið awesome.

Lóa: Nei, ég las bara síðustu bókina. Ég var svo praktískur unglingur. Ég hugsaði bara með mér „sjáum hvort að síðasta bókin sé góð og þá skal ég lesa þetta.“ Hún var algjört rugl, samt lásu þetta allir. 

Hugleikur: Ég get ekki ímyndað mér hvernig er að verða alltaf móðgaður. Sjá eitthvað sem einhver annar gerði eða sagði og taka það ótrúlega til sín. Vera bara eitthvað „af hverju sagði hann þetta, einhver gaur úti í bæ sem ég þekki ekki?“ Og skrifa bréf um það að einhver sagði eitthvað sem þú ert ósammála. Væri ekki lífið miklu auðveldara ef þú myndir sjá til dæmis myndasögu eftir mig eða þig sem þér þætti ógeðsleg og hugsa bara „þetta er nú meiri hálfvitinn“ og haldið svo áfram með daginn þinn?

Lóa: Kannski er fólk hrætt um að heimurinn eigi eftir að verða eins og hliðardótið á Piratebay. Þar sem eru alltaf einhverjar konur að hrista á sér brjóstin. Kannski halda þau bara að heimurinn verði þannig ... eða eins og Ísfólkið. Allir að æla út um allt og það er engin röð og regla.

Hugleikur: En fólk sem móðgast, er það að sjá núna hvað heimurinn er slæmur eftir að internetið fór að sýna þeim það? Sáu þau það ekki áður fyrr?

Lóa: Ég held ekki. Sko því ég held að ef að það mætti tala um allt og sýna allt þá væri fólk ekkert mikið að móðgast. Eins og þegar maður fer í kirkju þegar maður er barn og þarf að prumpa en það má hvorki prumpa né hlægja af því. Þá verður þetta bara það fyndnasta sem hefur komið fyrir þig á ævinni, að prumpa í kirkju. Ef það mætti bara prumpa og hlægja þá væri það ekkert mál, þá sætu allir bara rólegir að prumpa og hlægja.

Hugleikur: En ef það mætti prumpa og hlægja þá mundu allir prumpa án þess að hlægja …

Lóa: Ég á vin sem var alltaf að reyna að prumpa eins hátt og hann gat nálægt ókunnugum, eða í fjölmenni. Það var ógeðslega fyndið og maður varð fyrir geðveikum vonbrigðum ef það heyrðist ekki neitt. Það er mjög frelsandi að prufa að gera þetta.

Hugleikur: Hvísl-prump geta líka verið mjög fyndin. Sérstaklega ef maður böstar einhvern við það, sem var að reyna að fela prumpið.

Lóa: Hahah, eins og í flugvél þegar einhver lyftir upp annarri rasskinninni til að smeygja því út.

Hugleikur: Hluti af því að fullorðnast er að hætta að líta á leiðinlegu gaurana úr grunnskóla sem leiðinlega gaura, það er erfitt.

Lóa: Einmitt, átta sig á því að allir eru fullorðnir og búnir að þroskast og kannski var maður bara að misskilja á sínum tíma.

Hugleikur: Reunion verður aldrei að þessari Romy and Michelle’s Highschool reunion fantasíu sem maður vill að það sé. Alltaf bara einhver vandræðaleg spurningakeppni og svo eru allir, „hvað ert þú að gera núna?“

Lóa: Sko, fólk sem maður á samleið með hefur engan áhuga á hvað maður er að gera. Það er ekkert eitthvað: „Og hvert fórstu eftir LHÍ? Áttu börn? ætlarðu að eiga annað barn?“ Lestu bara minningargreinina mína, okei?

Hugleikur: Ég get svarað spurningunni „hvað þú ert að gera“ í viðtölum því það er svona vinnutengt en ef einhver spyr mig að því í veruleikanum þá fer ég í einhvern keng og fer að stama. Þetta er eins og atriðið í I Heart Huckabees þegar Jude Law ælir í lófann á sér, manstu eftir því?

Lóa: Ööö, aldrei séð þá mynd

Hugleikur: Það er dásamleg mynd, Jude Law leikur einhvern svona PR fulltrúa hjá stórfyrirtæki og hann segir alltaf sömu söguna af því þegar hann hittir einhverja Shania Twain. Svo kemur einhver og minnir hann á það að hann er alltaf að segja sömu söguna aftur og aftur og að hann sé í rauninni ekkert nema þessi saga. Svo að næst þegar hann er beðinn um að segja þessa sögu þá getur hann ekki hætt að hugsa um það og ælir í lófann á sér. Þannig líður mér alltaf þegar ég er spurður hvað ég sé að gera.