Ásrún Magnúsdóttir

Býr til dansgötu með nágrönnunum og kannar hreyfingar tónlistarmanna.

Ásrún Magnúsdóttir, dansari og danshöfundur, hefur í mörgu að snúast þessa dagana. Hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands með B.A. gráðu í samtímadansi fyrir nokkrum árum og hefur síðan starfað bæði hér á Íslandi og erlendis með ýmsum danshópum. Nú vinnur hún hörðum höndum við að setja upp tvö verk sem sýnd verða á Reykjavík Dance Festival í lok ágúst. Fyrra verkið er jafnframt opnunarverk hátíðarinnar þar sem Ásrún fær nágranna sína á Njálsgötunni með sér í lið og áhorfendur fá tækifæri til að fylgjast með þeim dansa heima hjá sér. Vill hún með þvi vekja athygli á dansi í hinu daglega lífi og jafnframt fagna þessu örugga samfélagi sem við lifum í. Hvernig er betra að gera það en með dansi?

Hvernig væri hægt að bæta dansinum meira inn í okkar daglega líf?

Ef hann væri stærri hluti af okkar daglega lífi myndi eftirspurnin og áhuginn aukast verulega. En það er svolítið erfitt því við búum svo norðarlega og því erfiðara að fara út og dansa. Um leið og maður fer til dæmis á eitthvert torg á Spáni sér maður oft fólk dansa. Þetta er bara svo sjaldan hægt á Íslandi. Ég hef verið að halda Lunch-Beat hér þar sem fólk hittist í hádeginu og dansar saman. Allir eru til í að dansa, en stundum vantar bara vettvanginn. Mér finnst of einhæft að dansa bara eftir miðnætti og þá er það einungis fólk milli tvítugs og þrítugs.

Segðu mér frá verkinu á Njálsgötu, CHURCH OF DANCY.

Mig langaði að vekja athygli á dansi með því að láta fólk dansa og vera meðvitað um það. Ég vildi gera ósýnilega kóreógrafíu sýnilega og fannst tilvalið að fara til þeirra sem standa mér næst, þ.e.a.s. nágranna minna. Ég gaf þeim leiðbeiningar og hugmyndir um hvernig væri hægt að dansa en síðan finnum við út í sameiningu hvernig við ætlum að framkvæma verkið. Ég vil aðallega að þau finni það með sjálfum sér hvernig þau vilja hreyfa sig.

Verkið er í raun sjálfstætt framhald af verkefni sem ég vann fyrir ári. Mér fannst þörf á að búa til þjóðdans fyrir Reykjavík en til þess þurfti ég að vita hvaða hugmyndir fólk hafði almennt um dans. 

„Ég bauð fólki að leigja mig sem listamann til þess að spjalla um dans í Reykjavík líkt og fólk leigir út bækur á bókasafni.“

Viðbrögðin voru mjög góð og fullt af fólki tók þátt. Ég hitti t.d. einn mann sem var frá Íran en þar er dans almennt bannaður. Mér fannst einnig áhugavert að hitta eldra fólk því það gat borið saman hvernig dansað var þegar þau voru ung og hvernig dansað er í dag. Dansstíllinn hefur breyst mikið. Margir höfðu sterkar skoðanir, en ég held að dans sé samt ekki númer eitt, tvö og þrjú í samfélaginu. Af öllum listformum er dans mjög langt frá því að vera í okkar daglega lífi.

Af hverju heldurðu að það sé?

Mín kenning er að ef við horfum á söguna hefur dans lengi verið bannaður í mörgum samfélögum allt frá 12. og 13. öld og þá aðallega vegna trúarbragða. Ég tel að fólk hafi því lengi verið feimið við að dansa þar sem það þótti ekki siðsamlegt og við séum enn þá að reyna að hrista þær ómeðvituðu venjur af okkur í dag. Víða annars staðar er viðhorfið löngu horfið og þá sérstaklega í suðrænni löndum eins og t.d. í Baskalandi. Þar hafa Baskar notað dans til þess að berjast fyrir sjálfstæði sínu. Við gerðum það náttúrlega alls ekki. Þeir einu sem eru frægir fyrir að dansa á Íslandi eru álfarnir. Þeir sem dansa með álfunum eru taldir vera eitthvað geðveikir. 

Þú ert með annað verk á hátíðinni FRONTING (A LATE NIGHT PREVIEW) sem fjallar um þá birtingarmynd sem tónlistarmenn tjá og sýna á sviði. Geturðu sagt mér meira frá því?

Ég ásamt Alexander Roberts erum að skoða hvernig tónlistarfólk hreyfir sig á tónleikum. Við teljum þær hreyfingar vera til staðar af ástæðu og vera mjög stór hluti af flutningnum sjálfum. Tónlistarmennirnir setja oft óbeinar reglur um hvernig fólk eigi að hreyfa sig með tónlistinni með því að hreyfa sig á ákveðinn hátt. Mér finnst áhugavert að skoða þessar hreyfingar sem enginn pælir sérstaklega í.

Okkur langaði að prófa að taka allt í burtu, halda tónleika án tónlistar og hljómsveitar og skilja bara eftir tónlistarmanninn og hreyfingarnar. Gunnar úr Grísalappalísu og Kata úr Mammút ætla að flytja sitt hvorn einleikinn. Þau eru bæði ágætlega meðvituð um framkomu sína án þess þó að vera búin að ákveða nákvæmlega hvað þau ætla að gera á tónleikum.

Hvernig finnst þér danssenan hérna heima?

Gróskan er mikil og margir eru að gera eitthvað nýtt og ferskt. Ég held að það sé eitthvað mjög stórkostlegt í gangi sem fer bara stækkandi. Áhuginn er að aukast. Danssenan sem ég tilheyri er sterk og mér finnst hafa myndast gott samfélag sem skiptir máli. Maður finnur að maður stendur ekki einn. Við eru þónokkur að pæla í sama listforminu en á mismunandi hátt. Við hittumst og tölum saman og fylgjumst með hvert öðru og styðjum hvert annað. 

Hvað vonast þú til að sjá gerast í dansheiminum hér á Íslandi á næstu árum?

Ég vona að danshús verði opnað. Ég er að leita. Það myndi skapa stærri vettvang. Í kjölfarið getur dans verði hluti af afþreyingu í lífi fólks sem hugsar: „Á ég að fara í bíó í kvöld eða leikhús eða á ég að fara og sjá dans?“ Svo vonast ég til að það verði til meiri peningar til þess að hægt verði að auka danssenuna og fá fleira fólk. Ég trúi á að það gerist allt saman.