Klifur

Klettaklifur er sívaxandi sport á Íslandi enda hvergi betra útsýni en á toppi tindsins.

Klettaklifur á Íslandi er sport sem hefur farið sívaxandi síðustu árin enda feikinóg af klifursvæðum hér heima. Í sportklifri eru aðallega tvær tegundir, grjótglíma og sportlínuklifur. Grjótglíma er klifur án línu og fer því klifurhæðin sjaldnast yfir sex metra. Í grjótglímunni, sem er íslenska yfir „Bouldering“ er aðallega verið að klifra á stórum stökum steinum. Hreyfingarnar eru því færri en jafnframt erfiðari. Í sportlínuklifri er klifrað hærra og þá alltaf í línu. Fljótlega á að opna nýtt og stærra klifurhús í Ármúlanum og mun því innanhússklifuraðstaðan batna til muna með lækkandi sól. Blær skellti sér í klifurleiðangur með þeim Ásrúnu Mjöll og Kristjáni sem hafa klifrað mikið bæði hér heima og erlendis.

Hvenær byrjuðuð þið að klifra og hvað var það sem vakti áhugann?

Ásrún: Ég byrjaði að klifra fyrir fimm árum eða eftir að ég sá einhvern strák klifra utan á húsi í útilegu sem ég var í. Ég hugsaði með mér að ég ætlaði að vera jafn góð og hann og fór í kjölfarið upp í Klifurhúsið að klifra.

Kristján: Það eru orðin tíu ár síðan ég byrjaði að klifra. Áhuginn kviknaði þegar við vorum með skiptinema heima frá Argentínu sem var klifrari og hann dró mig í Klifurhúsið með sér. Mér fannst alveg geðveikt gaman og keypti mér fljótlega kort og fór að mæta sjálfur. Svo kynnist maður náttúrulega fullt af fólki í Klifurhúsinu sem er með manni í þessu.

Hvað er það besta við klifur?

Ásrún: Klifur er náttúrulega svo mikill lífstíll. Líf mitt breyttist alveg þegar ég byrjaði að klifra. Félagsskapurinn er líka ótrúlega góður. Ég fer til dæmis ekki í sólarlandaferðir, ég fer í klifurferðir. Þar af leiðandi kynnist maður stöðum sem maður hefði aldrei annars farið á.

Kristján: Ég gæti talið upp milljón hluti. Ég fíla að þetta sé einstaklingssport. Því fylgir svo mikið frelsi. Svo er maður mikið úti. Stundum er klifrið svolítið „scary“ og alltaf áskorun. Þetta er líka svo breytilegt sport. Það finnast alltaf nýjar klifurleiðir og klifursvæði, nýtt berg, ný lönd og nýtt fólk. Svo er klifur góð hreyfing og manni líður alltaf geðveikt vel þegar maður er búinn að vera að klifra.

Hverjir standa á bakvið Klifurhúsið?

Ásrún: Í rauninni er það þannig að allir sem eiga kort í Klifurhúsinu eiga Klifurhúsið og eru orðnir hluti af Klifurfélagi Reykjavíkur. Það er því ekki rekið í hagnaðarskyni. Klifurhúsið er bara fyrir klifrara, svo einfalt er það. Hópur klifrara er ekkert rosalega stór en hann fer sístækkandi og það er auðvelt að komast inn í hann. Við erum að opna núna fljótlega á nýjum og stærri stað í Ármúla 23. Þangað geta allir komið þegar þeir vilja. Það er engin skylda að fara á námskeið þó þau geti reynst hjálpleg til að læra tækni og öryggisatriði.

Klifurveggirnir í Klifurhúsinu eru þeir þá aðallega grjótglímu veggir?

Kristján: Í Klifurhúsinu er aðstaðan aðallega fyrir grjótglímu en í nýja húsinu verður einhver línuklifuraðstaða til að æfa tæknileg atriði. Annars er rosa gott að æfa sig í grjótglímu til að þjálfa styrk og tækni því sportlínuklifur er í rauninni bara margar grjótglímuþrautir í röð.

Af grjótglímu og sportlínuklifri, hvor klifurtýpan er í uppáhaldi?

Kristján: Mér finnst gott að skipta og taka bara tímabil. Grjótglíman er miklu þægilegri. Maður er ekki háður því að taka einhvern með sér til að tryggja og getur því þess vegna farið einn ef maður vill. Og svo þegar maður fær leið á því getur maður farið í línuklifur sem er fínt, þá getur maður alltaf verið að breyta til.

Eruð þið búin að vera að klifra eitthvað víðar en hérna á Íslandi?

Ásrún: Já, ég hef verið eitthvað á Spáni, Norðurlöndunum, Bandaríkjunum og í Tælandi, ýmist til að taka þátt í klifurkeppnum eða bara til að klifra sjálf. Það er líka alltaf gaman að fara utan í eins til tveggja mánaða klifurferðir.

Kristján: Já, það er alltaf sjúklega næs að fara út að klifra. Ég er til dæmis búinn að vera eitthvað á Spáni, Ítalíu, Sviss, Frakklandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum en maður reynir líka að nýta aðstöðuna hér heima eftir bestu getu.

Hver eru uppáhalds klettaklifursvæðin ykkar hér heima?

Ásrún: Það er töluvert mikið af svæðum hérna á Íslandi og af þeim eru Hnappavellir ótrúlega flott klifursvæði. Vestrahorn, rétt fyrir utan Höfn í Hornafirði, er líka í miklu uppáhaldi en það er það svæði sem er í einna mestri þróun núna. Vefsíðan klifur.is reynist mjög vel en á henni er hægt að finna kort yfir flest öll klifursvæðin á landinu.

Hvað þurfa þeir sem ætla að byrja að klifra aðallega að hafa í huga?

Ásrún: Það geta allir byrjað, hver sem er. Styrkurinn kemur bara með æfingunni og það er misjafnt hvort fólk velji að gera styrktaræfingar með eða ekki. Það er aðallega gott að teygja vel eftir á. Í Klifurhúsinu borgar maður sig bara inn og leigir skó svo það er helst að mæta í þægilegum fötum. Með tíð og tíma er svo fínt að kaupa skó og ef maður ætlar að klifra úti er ágætt að fara með einhverjum öðrum svo þið getið sparað og keypt búnaðinn saman.

Kristján: Besta leiðin til að kynnast fólkinu sem er í þessu, kaupa búnað og æfa sig er að fara í Klifurhúsið. Ef þér finnst skemmtilegt að klifra inni þá eru ágætis líkur á að þér finnist gaman að klifra úti. Að vísu þykir sumum geðveikt að klifra úti en hundleiðinlegt að klifra innanhúss, en það er misjafnt. Svo er bara að passa upp á að vera sokkalaus í klifurskónum.