Gunnar Helgi

Sigurvegari MasterChef kennir okkur að gera Blinis með grásleppuhrognum og rabbarbarasalti.

Gunnar Helgi, 33 ára, vann raunveruleikaþáttinn MasterChef Ísland í fyrra. Gunnar útskrifaðist úr myndlistadeild Listaháskóla Íslands en áhugann á eldamennskunni hefur hann haft frá unga aldri. Í sumar vinnur Gunnar Helgi sem kokkur á Hótel Flatey. Í sumarsólinni í Breiðafirðinum matreiddi hann fyrir okkur Blinis með Grásleppuhrognum og rabbarbarasalti.

Hvað ætlarðu að útbúa fyrir okkur?

Ég ætla að búa til Blinis með kavíar. Við verkum hrognin alveg sjálf. Fáum það sem við köllum buxur, risastórar hrognabuxur og hreinsum þær alveg. Sem er rosa langur prósess. Að lokum eigum við bleikar hrognaperlur sem er ótrúlega flott, frekar líkt því sem maður sér í Finding Nemo.

Hvað ertu að gera á hótelinu?

Ég er að vinna sem kokkur. Í eldhúsinu erum við mikið að keyra á þorski, lambi, kavíar sem er héðan og kræklingi. Þetta er allt lókal, við fáum til dæmis silung frá Brjánslæk og honum er bara slátrað og svo kemur hann klukkutíma seinna til okkar.

Hvað varð til þess að þú fékkst vinnu á Hótel Flatey?

Í fyrra var ég að sigla með Baldri yfir Breiðafjörðinn og þegar við fórum hér framhjá fann ég bara að hér vildi ég vera og vinna. Röð atvika varð svo til þess að ég fékk vinnu hér á hótelinu. Ég veit að starfið er eftirsótt svo ég er mjög þakklátur. Ég bý í litlu herbergi á hótelinu sem heitir Ritan og útsýnið út um gluggann er alveg dásamlegt.

Hefurðu alltaf haft áhuga á mat?

Já, alveg frá því að ég man eftir mér. Ég uni mér vel í eldhúsinu. Ég sat alltaf á eldhúsborðinu þegar mamma var að búa til mat og þegar ég var tveggja ára datt ég ofan á pottinn og skar i sundur á mér nefið, sárið þurfti að sauma uppi á spítala. Svo að áhuginn hefur verið til staðar frekar lengi. Ég var líka alltaf að baka þegar ég var unglingur en fannst það svo asnalegt svo að ég dró alltaf fyrir gluggana svo enginn sæi inn.

Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?

Mér finnst alltaf skemmtilegast að baka og búa til brauð. Svo hef ég í seinni tíð hefur áhuginn á því að elda fisk kviknað, mér finnst það ótrúlega gaman. Sérstaklega þegar hann er svona fullkomlega steiktur, baðaður í smjöri og alveg að detta í sundur. Í eldhúsinu hér á hótelinu erum við með forsíðu Time samviskusamlega hengda uppi á vegg þar sem stendur einfaldlega „eat butter.“ Við trúum því fastlega að íslenska smjörið sé alls ekkert óhollt fyrir mann og förum eftir því. Það er líka gott að brúna smjör til að setja í hjónabandssælu og súkkulaðiköku. Brúnað smjör í öllu, það er geðveikt gott. 

Fyrst set ég sýrða rjómann á pönnukökurnar, því næs laukinn og svo kavíarinn. Þetta er mjög gott í kokteilpartýum þar sem allir eru í laxableikum kjólum í stíl við hrognin. Að lokum toppa ég þetta með Morgunfrú. Hana ræktum við í garðinum og notum til þess að skreyta rétti. Við erum með ótrúlega fínan matjurtagarð. Morgunfrúin er víst rosalega góð fyrir magann, hingað kom spákona um daginn og spáði fyrir okkur. Hún sagði mér að Morgunfrúin væri ekki bara falleg á litinn heldur líka með lækningarmátt.

Og þá er það tilbúið, þjóðhátíðarsnittur í eyju.