Little Sun

Ólafur Elíasson segir frá orkugjafanum sem við deilum öll.

Um 1,2 milljarðar manna víðsvegar um heiminn hafa ekki aðgang að rafmagni. Rafmagnsleysi getur haft víðtæk áhrif, ekki síst þegar myrkrið skellur á. Í slíkum samfélögum er vinnutíminn styttri, læknisaðgerðir hættulegri, tími barna til heimalærdóms takmarkaðri og skemmtanahald af skornum skammti.

Ólafur Elíasson og Frederik Ottesen hófu verkefni árið 2012 með einfalt markmið að leiðarljósi; að veita fólki aðgang að orku. Til varð Little Sun lampinn sem nær hleðslu út frá sólarljósinu, auðlind sem er okkur öllum aðgengileg. Þrátt fyrir að vera fyrst og fremst félagslegt átaksverkefni sem gengur út á að veita sem flestum aðgengi að ljósi, hefur lampinn víða vakið eftirtekt í listheiminum. Hann er aðgengilegur á helstu listasöfnum heims, allt frá MoMa í New York, Tate Modern í London, Pompidou í París til Reina Sofía í Madrid. Þann 1. ágúst mun lítil „pop-up“ búð á Lækjartorgi hefja sölu á lömpunum og mun hún standa út ágústmánuð.

Í dag

Árið 1940

Hvernig hófst verkefnið?

Frederik sem er sólarorku verkfræðingur var að vinna við að búa til flugvél sem notast við sólarorku. Mér fannst hugmyndin í senn ótrúleg og útópísk. Ég elska þegar fólk reynir að gera það ómögulega mögulegt. Okkur langaði að sameina krafta okkar og áhugamál til þess að hafa áhrif og veita fólki aðgang að sinni eigin orkulind. Við vorum báðir sammála um að við ættum að byrja smátt, þ.e. ekki að byrja á flugvélinni strax. Við vildum byrja á einhverju aðgengilegu og þaðan kom hugmyndin um að búa til handstýrðan orkugjafa.

Mér var boðið af Ólympíunefndinni árið 2012 að koma með tillögu að verki fyrir leikana í London. Í staðinn fyrir að einblína á London eina og sér, langaði mig til að skapa verk sem endurspeglar heiminn sem eina heild. Við Frederik vorum þá þegar byrjaðir á Little Sun og vildum innlima Ólympíuleikana inn í verkið til þess að fá meiri athygli. Okkur langaði að vekja fólk til umhugsunar um hvaða þýðingu það hefði að hafa ekki aðgengi að orku. Okkur fannst það áhugaverð nálgun, sérstaklega í kringum leikana, sem ganga út á sýningu á kröftugu og orkumiklu íþróttafólki. Fljótlega eftir Ólympíuleikana hafði fólk samband við okkur alls staðar að úr heiminum og vildi að við færum að selja lampana víðsvegar um Afríku þar sem fólk hefði ekki aðgengi að rafmagni.

Aðsend mynd

Hver er hugmyndin á bak við hönnunina?

Þegar ég byrjaði að teikna hönnunina fyrir Little Sun langaði mig að búa til lítinn skúlptúr. Ég heimsótti þýsk hjálparsamtök sem starfa í Afríku til að fá ráðleggingar og þau sögðu: „Þetta er Afríka, ekki hafa áhyggjur af því hvernig lampinn lítur út. Passaðu bara að hann virki og sé hagnýtur“. Eftir fundinn rölti ég um göturnar með Fredrik og stoppaði fólk á förnum vegi til að fá álit þess.

Allir sögðu það sama: „Okkur langar bara í eitthvað fallegt. Ég vil að nágranninn sem býr við hliðina á mér verði afbrýðisamur“

Þessar ólíku hugmyndir um þarfir þeirra komu mér skemmtilega að óvart. Við náðum að lokum að búa til hágæða orkugjafa sem er ein besta sólar rafhlaðan á markaðnum. En mig langaði ekki aðeins að einblína á hagnýtinguna, heldur einnig á það að gera ótrúlega fallegt lítið listaverk sem lætur fólk brosa. Þannig að þegar barn sæi lampann liggja á borði væru fyrstu viðbrögð þess að ná í lampann. Þess vegna hannaði ég Little Sun rétt eins og alla aðra hluti sem ég bý til, þar sem ætlunin er að skapa listaverk. Hugmyndin á bak við Little Sun sólina var fyrst og fremst að líkja eftir einhverju sem við deilum öll saman, sem er sólin. Hún er aðgengileg fyrir alla. Enginn á sólina – alla vega ekki enn. Við fáum okkar eigin hluta úr henni með því að hlaða tækið, því vildi ég að lampinn yrði eins og sól í laginu.

Aðsend mynd

Hvernig hefur verkefnið þróast?

Við erum ekki í hjálparstarfi en við högnumst ekki persónulega á þessu heldur. Lamparnir eru seldir á framleiðsluverði til smásölumanna á þeim afmörkuðu svæðum sem hafa ekki aðgang að rafmagni. Það skapar atvinnutækifæri og gefur verkefninu möguleika á að vaxa og dafna. Sömuleiðis eru lamparnir til sölu á netinu og í búðum alls staðar í heiminum. Við komum einnig upp tímabundnum sölustöðum við sérstök tækifæri líkt og söluturninum á Lækjartorgi.

Okkur fannst mikilvægt að Little Sun hefði sömu þýðingu fyrir fólk, hvort sem það byggi á Íslandi, Eþíópíu eða Senegal. Við vonum að við stuðlum að jákvæðum boðskap og með því að veita fólki aðgang að orku, öðlist það orku. Að það séu tengsl milli þeirrar orku sem þú hefur í hendinni þinni og þeirrar orku sem býr í hjarta þínu eða í þinni hugsun.

„Orka er ekki aðeins fengin með batteríum. Orka eða kraftur hefur líka burði til þess að breyta lífi, samfélagi og hafa áhrif. Það er að mínu mati alvöru orka.“

Verkefnið fjallar ekki um mismunun í heiminum heldur það sem við eigum sameiginlegt; sömu þarfir og hugmyndir. Við viljum öll vera hamingjusöm, við viljum öll vera orkumikil og hafa áhrif á líf okkar.

Aðsend mynd

Aðsend mynd

Hefur þetta verkefni haft áhrif á vinnuna þína í dag?

Ferlið hefur veitt mér mikinn innblástur og dýrmæta þekkingu. Listheimurinn, þá sérstaklega sá sem ég starfa við, er alþjóðlegt kerfi þar sem miklir peningar ráða för og þar sem er einnig mikil elíta. Fólk á það til að vera í litlum tengslum við raunveruleikann og lifir í hálfgerðum fílabeinsturni. Fyrir mig var Little Sun verkefnið leið til þess að sýna að list getur teygt anga sína um víðan völl og að þann hæfileika sem listamaðurinn búi yfir sé hægt að innleiða á ýmsa hagstæða veru. Þetta er sá eiginleiki sem ég hef öðlast trú á í gegnum Little Sun verkefnið.

Ólafur Elíasson – Aðsend mynd

Hverjar eru væntingar þínar fyrir búðina hér á Íslandi?

Ég er mjög spenntur fyrir þessu verkefni því Íslendingar búa yfir ofgnótt af orku. Hvort sem það er jarðhitinn eða vatnsaflið, þá er Ísland í sjálfu sér orkustöð. Það er mikilvægt að minna sig á úr hverju orka er búin til, hvaðan hún kemur og hvernig hún sé endurvinnanleg. Ísland er eitt af þeim löndum í heiminum sem hefur hvað bestan aðgang að orku og við tökum því sem sjálfsögðum hlut.

Að koma með sólarorku til Ísland er auðvitað draumi líkast, því eins og flestir vita viljum við að sólin skíni stöðugt á Íslandi, en hún gerir það í raun ekki. Þess vegna fannst mér frábær hugmynd að opna litla pop-up búð hér á Íslandi. Reynum að gera það ómögulega, mögulegt. Ef við seljum mikið af lömpum á Íslandi, mun kannski sólin í raun og veru koma.

Hér má sjá fleiri verk Ólafs Elíassonar.