Ljósvarp

40% þess matar sem er keyptur endar í ruslinu. Það þýðir að ef þú kaupir þrjá Bónuspoka fulla af mat fer rúmlega heill í ruslið.

Fyrir rétt rúmu ári hóf hópurinn Ljósvarp vinnu við heimildarmynd um matvælasóun, -neyslu og -nýtingu á Íslandi. Hópurinn samanstendur af sex manns sem sameinast í áhuga sínum á málefninu en þau hlutu styrk frá Evrópu Unga Fólksins fyrir verkefninu. Guðrún Baldvinsdóttir og Halla Þórlaug Óskarsdóttir settust niður og svöruðu nokkrum spurningum um verkefnið.

Búið þið að baki einhverri sérhæfðri menntun hvað matvælaframleiðslu og -sóun varðar?

Guðrún: Nei, ekkert okkar er sérmenntað í þessu. Það var einfaldlega áhuginn sem dró okkur áfram enda komum við öll úr mjög ólíkum áttum. Sjálf er ég í bókmenntafræði í Háskóla Íslands, annar í stjórnmálafræði og svo hafa hinir bakgrunn í lögfræði og kvikmyndabransanum. Og svo er Halla rithöfundur. Undanfarið hefur verið frekar mikil vitundavakning í gangi hér heima um matvælasóun en þegar við byrjuðum fundum við ekki fyrir þessum áhuga.

Hafið þið einhverjar upplýsingar um matvælasóun á heimsvísu?

Halla: Einhverjir hafa fleygt því fram að um þriðjungur matvælaframleiðslu heimsins fari í ruslið. Hann endar í ruslinu á mismunandi skeiðum, ýmist í framleiðsluferlinu, til dæmis grænmeti sem stenst ekki fegurðarkröfur verslana. Og svo í verslununum sjálfum og auðvitað á heimilum.

Guðrún: Og um 40% þess matar sem er keyptur endar svo í ruslinu. Það þýðir að ef þú kaupir þrjá Bónuspoka fulla af mat fer rúmlega heill í ruslið. Það er ekki einungis sóun á mat heldur líka hreinlega peningasóun.

Hvað eru verslanir að gera til að sóa minna?

Halla: Málið er að allir eru að vilja gerðir að takmarka sóun, en alls staðar rekst fólk á veggi hvort sem það eru reglugerðir eða samfélagsleg viðhorf. Reyndar er gaman að segja frá því að í desember tekur ný reglugerð gildi sem lýtur að stimplum með dagsetningum. Þá verður gerður skýrari greinarmunur á viðkvæmum matvælum, sem getur verið hættulegt að neyta eftir ákveðinn tíma, og öðrum sem missa einfaldlega viss gæði eftir að þau eru „útrunnin“. Í kjölfarið gæti veist meira svigrúm til dæmis til að dreifa matvælum eftir að Best fyrir stimpillinn er útrunninn, sé vilji til þess.

Guðrún: Til að byrja með spurðum við búðareigendur hvers vegna þeir gæfu ekki matinn í stað þess að henda honum, það sem hugsanlega gæti nýst. Þá var okkur sagt að einu sinni hafi einhver verslunareigandi ákveðið að gefa mat sem var að detta í síðasta söludag í hjálparstarf. Í kjölfarið komst það í fjölmiðla að tiltekin verslun hafi verið að gefa eitthvað ógeð í hjálparstarf. Þegar viðhorfið er svona vill náttúrlega enginn taka þátt, eða leggja sig fram.

Hvað geta neytendur gert til að sóa minna?

Halla: Við getum til dæmis byrjað á því að skipuleggja matarinnkaupin betur. Um að gera að kaupa minna. Við ræddum við neyslusálfræðing sem talaði um hvernig matvöruverslanir eru byggðar upp með það í huga að hámarka innkaup viðskiptavina. Ýmiss konar tilboð stuðla í raun bara að því að þú hendir matnum í stað þess að búðin geri það. Þá er líka allt of algengt að við nýtum ekki matinn sem við eigum heima, svo sem afganga.

Guðrún: Já akkúrat, ég kannast sjálf við að opna fullan ísskápinn heima og hugsa með mér að ég eigi ekki neitt. Ég á náttúrlega fullt, ég bara veit ekki hvað ég get gert úr því og stranda þar. Það er ágætisáskorun að læra að elda úr því sem maður á, þannig nýtist maðurinn í stað þess að maður kaupi alltaf meira.

Halla: Svo er það grænmetið. Maður getur endalaust hneykslast á þessari útlitsdýrkun, en staðið sig svo að því að taka fullan þátt í henni. Mikið af grænmeti er hent áður en það fer í verslanir og eins í verslunum í daglegu „eftirliti“, því að það þykir ekki nógu fallegt. Þetta höfum við reynt að endurskoða svolítið í okkar verslunarferðum.

Felst matvælasóun í einhverju öðru en að henda mat?

Halla: Já, til dæmis er ofneysla líka matarsóun. Við þurfum ekki nema X margar kaloríur á dag og þar af leiðandi má vissulega líta á það sem sóun að borða mikið meira en það – borða í dag það sem við getum borðað á morgun.

Guðrún: Þannig getur maður til dæmis vanið sig á að skammta minna á diskinn sinn. Maður er líklegri til að geyma það til morguns sem verður afgangs í pottinum eftir eldamennskuna en það sem er á disknum.