Tvíburarnir sem eyddu MR
Verzlingarnir Jakob Gabríel og Jónas Bragi kenndu sér sjálfir kvikmyndaupptöku og stofnuðu fyrirtæki 18 ára gamlir.
Bræðurnir og Verzlingarnir Jakob Gabríel og Jónas Bragi stofnuðu kvikmyndafyrirtækið IRIS Films aðeins 18 ára gamlir ásamt vini sínum Andra Pál. Saman hafa þeir verið að gera myndbönd fyrir nemendafélagið sem hafa vakið mikla athygli fyrir faglega kvikmyndaupptöku og tæknibrellur. Þar ber helst að nefna myndband þeirra „Eyðum MR“ þar sem kjarnorkusprengju er varpað yfir Mennataskólann í Reykjavík með miklum tilþrifum. Í kjölfarið hafa ýmis konar verkefni komið upp á borðið hjá þeim bræðrum og er stefnan sett á London næsta haust í kvikmyndaskóla. Blær hitti á strákana í musteri Verzlunarskólans, marmaranum, og ræddi við þá um nemendafélagið, internetið og framtíðina.
Þið vinnið mikið saman?
Jónas: Já.
Jakob: Alveg helling.
Og þið eruð tvíburar?
Jakob: Já við erum eineggja, nei tvíeggja hvað er ég að segja. Við erum tvíeggja.
Hvernig byrjuðuð þið að taka upp, hafið þið kennt ykkur sjálfir?
Jónas: Já, í rauninni. Við fengum fyrst áhuga á upptökum í grunnskóla þegar við áttum að gera myndband í dönsku. Við enduðum á að gera 40 mínútna stuttmynd með einhverja eldgamla myndavél og prófuðum okkur áfram í tæknibrellum.
Jakob: Það er svo gaman að geta kennt sjálfum sér eitthvað fag. Við lærðum hvernig átti að klippa út frá netinu með hjálp Google og YouTube. Út frá því bjuggum við til okkar eigin YouTube síðu. Við gerðum 38 myndbönd og fengum alveg 300.000 heimsóknir.
„Það er svo gaman að geta kennt sjálfum sér eitthvað fag. Við lærðum hvernig átti að klippa út frá netinu með hjálp Google og YouTube.“
Fóruð þið síðan í Verzló útaf nemendafélaginu?
Jakob: Ég reyndi að skoða skóla út frá kvikmyndafræðslu. Það var helst MH því þeir bjóða upp á kvikmyndaáfanga. En Verzló er með sterkt nemendafélag og á þeim tíma var myndbandaútgáfa að blómstra þar.
Jónas: Þetta nemendasamfélag er svo ótrúlega gefandi og góður stökkpallur. Þú getur gefið út efni fyrir fullt af fólk og síðan prófað þig áfram. Það þarf ekki allt að vera fullkomið.
Jakob: Maður lærir að vinna undir pressu og að vinna með fólki. Það eru margir sem hafa aldrei gert neitt útgáfutengt en eru að blómstra í nemendafélaginu og finna sig í því. Þessi reynsla er að nýtast svo mörgum eftir Verzló, sérstaklega ef þú nærð að koma þér aðeins á framfæri þá opnast svo mikið af tækifærum.
„Eyðum MR“ myndbandið hvernig varð það til?
Jakob: Það ferli byrjaði síðasta sumar. Við í Rjómanum (myndbandanefnd skólans) þurftum að finna viðfangsefni fyrir myndbandið sem yrði birt á ræðukeppi Verzló - MR. Ég var nú þegar búinn að kveikja í báðum skólunum í fyrri myndböndum. Það stendur síðan í lögum nemendafélagsins að það megi sprengja MR upp ef þeir byrja að framleiða kjarnorkuvopn, sem er mjög fyndið. Þannig að við ákváðum að fara inn á það.
Jónas: Við þurftum að fá leyfi hjá Ásbrú til þess að komast inn á hersvæðið. Við vorum með raunverulegar byssur og þurftum að fá leyfi fyrir að bera þær um allt höfuðborgarsvæðið í tvær vikur. Það var eiginlega bara heppni að við fengum leyfið.
„Það stendur síðan í lögum nemendafélagsins að það megi sprengja MR upp ef þeir byrja að framleiða kjarnorkuvopn.“
Jakob: Ég fór síðan að rannsaka hvernig ég gæti gert kjarnorkusprengjuna en hún sjálf sem form í tölvunni er hálft terabæt að stærð. Ég gerði einu sinni villu í vinnslunni og tölvan mín hrundi. Öll gögnin eyðilögðust og allt.
Jónas: Þetta var lika heilmikið tökuferli en alveg þess virði.
Voruð þið ekki ánægðir með útkomuna? Það logaði allt á Twitter.
Jónas: Jú, ekkert smá.
Jakob: Ég bjóst ekki við svona miklu. En árangurinn fylgir kannski því að við vorum búnir að leggja gríðarlega mikla vinnu og skipulagningu í þetta.
Eru engar stelpur að sýna þessu áhuga?
Jónas: Ég held að það sé að aukast, Ruth Tómasdóttir var fyrsta stelpan í langan tíma í 12:00 nefndinni. Á næsta ári er ég að vona að fleiri stelpur taki þátt því ég veit að áhuginn er fyrir hendi.
Jakob: Það þarf að setja fleiri fordæmi. Það er smá búið að því núna. Í Menntaskólanum á Akureyri er þáttur bara með stelpum. Það er dæmi um að þetta sé alveg hægt, það þarf bara taka af skarið.
Jónas: Ég held að á endanum mun þetta vera jafnt.
„Það er klárlega áhugi hjá stelpum þetta er bara spurning um að virkja eitthvað af stað.“
Jakob: Eitt sem er líka mikilvægt í þessu er að stelpunefndin fá jafn mikinn styrk frá nemendafélaginu og hinar nefndirnar. Þau dæla auðvitað pening í það sem þau telja vera best og þetta gæti verið eitt af því. Ég skil alveg stelpur sem telja að það sé ógnandi að fara í viðtal hjá strákalegustu nefndinni í skólanum.
Jónas: Það er klárlega áhugi hjá stelpum þetta er bara spurning um að virkja eitthvað af stað.
Eruð þið báðir að taka upp, eða hvaða hlutverkum sinnið þið?
Jónas: Við erum báðir að sjá um alla tæknilegu vinklana á upptöku. Andri Páll sem er með okkur í IRIS sér helst um framleiðsluna, lýsingu og leikstjórn.
Jakob: Til þess að útskýra betur þá er IRIS films fyrirtæki stofnað af mér, Jónasi og Andra. Við höfum verið að taka upp saman í skólanum. Við vildum halda áfram að gera eitthvað saman og fara út í stærri verkefni og koma okkur á framfæri.
Jónas: Við höfum verið að gera myndbönd fyrir Steinar, gerðum síðan Shell auglýsingu og fleiri minni verkefni. Það hefur síðan verið nóg að gera í nemendafélaginu, erum núna að taka upp „trailerinn“ fyrir nemendamóts leikritið.
Jakob: Í sambandi við hver gerir hvað á settinu þá er mín ábyrgð að sjá um að myndavélin sé tæknilega rétt stillt og allt líti vel út innan rammans upp á tæknibrellur og eftirvinnslu að gera. Jónas sér um að staðsetja skotin því hann sér mestmegnis um klippinguna og hvernig myndbandið á að flæða.
Er mikið verið að biðja ykkur um greiða?
Jakob: Maður er svona eiginlega hættur að gera greiða, eða svona þannig. Höfum ekki sama tíma í það og áður.
Hvað eruð þið að fara að læra nákvæmlega?
Jónas: Þetta heitir Film and Digital Cinematography í Met Film School of London.
Jakob: Þetta er svona kvikmyndaupptökufræði, það er erfitt að þýða þetta á íslensku en er í raun bara fræðin á bakvið lýsingu, liti, stærðir á ramma, hvar fólkið hreyfist og hvenær. Öll þessi grunnatriði og fræði í kvikmyndagerð.
Jónas: Þeir sögðu að niðurstöðurnar yrðu ekki komnar fyrr en eftir viku en við fengum að vita eftir 2 klukkutíma að við værum komnir inn.
Jakob: Já, við vorum fáranlega ánægðir alveg hoppandi af gleði, fengum sitthvort símtalið með 10 mínútna millibili.
Hvernig á maður svo að stíga sín fyrstu skref í kvikmyndagerð?
Jónas: Það mikilvægasta þegar maður er að byrja er að hafa einhvern sem nennir að stússast í þessu. Reyna að finna sér einhvern sem hefur svipað áhugamál. Þetta er bara eins og allt annað: Æfingin skapar meistarann. Fyrstu myndböndin okkar voru alveg skelfileg en við vorum duglegir að prófa okkur áfram. Nota interntetið og horfa á YouTube.
Jakob: Við vorum heppnir að hafa hvorn annan og að eiga vini sem voru tilbúnir til þess að fórna tímanum sínum í að taka upp einhverja vitleysu með okkur.