Skammdegistónar
Fimm tónlistarmenn í Berlín.
Listamenn hafa löngum laðast að Berlín en þar spilar einkum inn í lágt leiguverð og öflugt menningarlíf. Blær heimsótti fimm Íslendinga í borginni sem eiga það sameiginlegt að lifa og hrærast í tónlist. Þau tilheyra mismunandi senum, sum starfa innan borgarinnar meðan önnur líta á hana sem miðpunkt sem auðvelt er að ferðast út frá. Þau eru sammála um gildi tónlistarmenntunar og mikilvægi þess að hún sé opin öllum.
Bjarni Frímann Bjarnason
Bjarni Frímann hóf ungur Suzukinám á fiðlu. Hann bætti síðar við sig víólu og lauk námi frá Listaháskóla Íslands samhliða menntaskólanámi. Eftir að hafa lagt hljóðfærin á hilluna í tvö ár slysaðist hann í inntökupróf í hljómsveitarstjórnun við Hanns Eisler háskólann í Berlín og mun ljúka prófi þaðan í vor þótt hann sé þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að kenna hljómsveitarstjórnun í háskóla.
„Ég er eiginlega engu nær eftir þetta nám. Nema þá kannski hvernig það ætti ekki að gera þetta. Við fáum rúman hálftíma hverja önn fyrir framan hljómsveit en það er náttúrulega ekki hægt að halda heilli hljómsveit á launum í fleiri klukkutíma á viku. Þetta er eins og að vera í fiðlunámi og halda kannski á fiðlunni í klukkutíma á önn en eyða restinni af tímanum í að tala um hana.
Helstu verkfærin mín eru annars vegar píanóið og það snýst þá aðallega um að fá verkið í puttana, ekki endilega að spila fallega. Hins vegar eru það nóturnar. Ég hef verið að kaupa mér eitthvað en svo á ég góðan vin sem er fornnótnasali og hann hefur látið ýmislegt af hendi rakna svo hér er ég með aðeins meira en gengur og gerist hjá venjulegum tónlistarnemum. Í grunninn snýst þetta númer eitt, tvö og þrjú um að kunna stykkið. Eins og leikstjóri í leikhúsi verður að þekkja verkið, vita hvað það á að segja. Þar að auki þarf að vita hvernig maður á að framkvæma það með hljómsveitinni, maður hefur ekki endalausan tíma. Það eru kannski fimmtán tímar af æfingum saman fyrir tónverk sem tekur einn og hálfan tíma í flutningi.
Svo er eitt, eins og með ónefndan aðalhljómsveitarstjóra í ónefndri Ríkisóperu hér í Berlín sem er hérna í mesta lagi tvo mánuði á ári. Ég veit ekki hvað það er langt síðan við höfum haft hljómsveitarstjóra heima sem hefur búið þar og tekið þátt í íslensku menningarlífi. Þið getið ímyndað ykkur fótboltaþjálfara sem er að þjálfa sjö, átta lið. Það verður aldrei neinn alvöru vinnumórall, því liðið er alltaf að spila með nýjum þjálfara með nýjar áherslur.“
„Ég hefði ekki viljað missa af því að kynnast öðrum þjóðum, en ég sé það alltaf betur og betur hvað við höfum það ótrúlega gott á Íslandi. Til dæmis er sá munur á Íslandi og Þýskalandi að krakkarnir í skólanum eiga langflest foreldra í faginu og það er ekki sjálfsagt að einhver venjulegur gutti geti fengið tækifæri til að helga æsku sína tónlist.
Hins vegar finnst mér óþolandi þessi hroki að það sé eitthvað betra blóðið sem rennur í okkur. Því er ekki að neita að miðað við höfðatölu gera Íslendingar freka stóra hluti í tónlist en ég held það sé frekar því að þakka að tónlistarmenntakerfið er á frekar háu plani og því er leiðinlegt hvernig ástandið er núna, að það sé ekki hægt að borga fólki almennileg laun. Það gleymist stundum hvað margir hafa unnið ótrúlega metnaðarfullt starf bara til að halda úti kirkjukór í litlum bæ. Það er ekkert merkilegt að einhver furstabörn sem fá kennslu frá tveggja ára aldri og hlýða á bestu tónlistarmenn samtímans í stofunni heima hjá sér semji einhverja þokkalega músík. En það er merkilegt að einhver trillukarl eða vinnukona heima fyrr á öldum hafi samið eitthvað, þótt það sé kannski ekki jafn merkileg músík og eftir þetta aðalsfólk.“
Hanna Mia
Fyrir fjórum árum kom Hanna Mia til Berlínar með það í huga að dvelja þar yfir sumar og vinna fyrir sér með því að spila og syngja á götunni. Hún þénaði miklu meiri pening en hún bjóst við, leið vel í borginni og var innan skamms komin með íbúð og kærasta. Núna spilar hún sjaldan á götunni en vinnur fyrir sér sem leiðsögumaður ásamt því að fylgja eftir öðrum disknum sínum sem kom út fyrir nokkrum mánuðum.
„Ég ólst upp í Svíþjóð og fór alltaf á sumrin í alþjóðlegar sumarbúðir, ég byrjaði að spila á gítar í kringum það. Æfði mig að spila og syngja Bítlalög heima til þess að geta verið með í kvöldvökunum. Þá vandist ég að spila fyrir framan fólk, það hefur aldrei verið neitt vandamál fyrir mig. Ég er eiginlega fegin að ég lærði aldrei að syngja, ég hef nefnilega alltaf sungið öðruvísi en ég lít út. Fólk sem hefur hlustað á diskinn minn furðar sig á því að það sé ég sem er á bakvið röddina. Þegar ég fór til söngkennara vildu þeir breyta mér, báðu mig um að syngja bjartara. Það varð til þess að þegar ég var þrettán ára óskaði ég mér á hverju kvöldi að ég myndi vakna sem Billie Holiday eða Aretha Franklin.
Ég kynntist rosalega mörgum við það að spila á götunni, fólki sem hefur verið vinir mínir síðan þá. Ég fékk mjög mikla hjálp frá vinum við að búa til diskinn þar sem það safnaðist ekki nægur peningur í Crowdfunding fyrir stúdíótímum svo við keyptum upptökugræjur sjálf. Síðan fórum við tíu manna hópur í sumarbústaðinn minn í Svíþjóð og tókum allt upp, bæði myndbönd og lögin.“
Það sem er næst á döfinni hjá Hönnu Míu er að fylgja eftir disknum, en hún mun halda nokkra tónleika meðal annars í Michelbergerhótelinu á Warchauerstrasse og aðra í Saint Pétursborg. En þar var henni boðið að spila á stað sem sérhæfir sig í kvenkyns tónlistarmönnum, m.a. út af stefnu Hönnu Míu að hafa að minnsta kosti helming hljóðfæraleikaranna sem hún spilar með kvenkyns.
Hildur Guðnadóttir
Hildur er sellóleikari og tónskáld með klassískan bakgrunn. Eftir skiptinám við Universität der Kunste árið 2003 fór hún að hafa annan fótinn í Berlín meðan hún túraði með ýmsum hljómsveitum í nokkur ár án þess að stoppa lengur en tvær vikur á hverjum stað. Þegar kemur að eigin sólótónlist semur hún, spilar, tekur upp og hljóðblandar nær eingöngu sjálf en hún semur líka fyrir aðra, hvort sem það eru leikhús, bíómyndir eða myndlistarmenn.
„Það er mjög lítið af peningum í Berlín og þá sérstaklega í listum. Allt listarstarf er gert af rosalegri hugsjónastarfsemi og ég held að flestir atvinnulistamenn fái peningana sína annars staðar frá en búi hér því það er ódýrt að lifa hérna svo maður kemst lengur af með peninga frá til dæmis Noregi eða Sviss.
Mín helsta ástríða og verkefni þessa árs hefur verið Ómar, hljóðfæri sem Hans Jóhannson smíðaði fyrir mig. Fyrir um það bil sjö árum bar hann undir mig hugmynd að hljóðfæri sem maður gæti spilað í gegnum hljómkassa sem hægt væri að taka í sundur. Þannig yrði það svona surround-hljóðfæri, en ég hef alltaf verið að reyna að færa hljóð einhvern veginn til. Það sem hefur háð mér er þó hversu ófæranleg ég er sjálf með sellóið, miðað við til dæmis klarinettuleikara. Ég hringdi svo í Hansa fyrir svona þremur árum, þegar ég var ólétt og sá ekki fram á að geta ferðast með barn og selló, og sagði að nú skyldum við kýla á þetta, sem við gerðum og nú get ég tekið hljóðfærið í sundur og sett ofan í ferðatösku. Við Ómar erum svo nokkurn veginn að breytast í hvort annað, ég er eiginlega orðin „cyborg“ því það eru allskonar snúrur sem þurfa að koma við skinnið á mér út af einhverju jarðarsuði þannig að ég get bara spilað í ákveðnum fötum, það er mjög fyndið. Hann er samt langt frá því að vera tilbúinn og stöðugt að breytast. Þetta er í raun algjört draumaverkefni fyrir mig og sennilegast lífstíðarverkefnið mitt.“
„Við lifum á þeim tímum að fólk er orðið þreytt á að heyra hljóð bara úr hátölurum. Það er svo spennandi að reyna að fara frá því að raftónlist þurfi alltaf að fara bara gegnum hátalara yfir í til dæmis viðinn, sem er svo magnaður hljóðberi. Við þurfum að skoða öll þessi form, rými og lífrænu efni sem við höfum í kringum okkur. “
Magnús Hallur Jónsson
Magnús Hallur flutti til Berlínar árið 2009 til að hefja nám í óperusöng við Hochschule für Musik Hanns Eisler. Þar áður stundaði hann nám við Söngskóla Reykjavíkur og var virkur í ýmsum kórum. Magnús lauk náminu árið 2013 og hefur starfað sjálfstætt síðan, tekið m.a. þátt í uppfærslum hjá Staatsoper, Ríkisóperuhúsi Berlínarborgar.
„Ég hef ekki reynt að fá mér umboðsmann því ég er enn í einkatímum hjá kennara að vinna í tækninni og finnst það ekki alveg tímabært. Þessi listgrein er kannski ólík flestum öðrum að því leyti að það er betra að bíða en að gera eitthvað of snemma, þá geta tækifæri glatast. Það er sjaldan sem einhver gerir eitthvað of seint, þó þetta sé auðvitað líka keppni við tímann.
Eftir áramót mun ég taka þátt í einu frekar óhefðbundnu verki. Þá leik ég í einni senu þar sem ég er Joseph Göbbels. Þá hafa hann og Hitler lifað af stríðið, búa í loftvarnabyrgi og eiga von á barni saman. Göbbels eignast barnið, með aðstoð ljósmóðurinnar sem er gyðjan Germania, en barnið fæðist vanskapað vegna morgunógleðilyfsins Contergan. Að lokum koma vitringarnir þrír frá vesturlöndum; Bandaríkjunum, Englandi og Frakklandi og færa barninu bensín, kók og byssu.“
Magnús æfir sig heima hjá sér í Wedding en til þess þarf hann spegil, nótnastatíf og píanó. Að auki notar hann iPadinn mikið, bæði fyrir nótur og til að taka sjálfan sig upp og geta hlustað strax.
„Það sem er kannski leiðinlegt við þessa starfsgrein er að það er voðalega erfitt að ætla að stefna heim til Íslands, því það er ekki svo mikið í boði. Það er auðvitað hellingur að gerast í tónlist og mig langar mjög mikið til að syngja á Íslandi en ég sé ekki fyrir mér að vera búsettur þar ef ég ætla að starfa við þetta. Mig langar allavega ekki núna að fara bara að kenna og syngja í jarðarförum.“
M-Band
Raftónlistarmaðurinn Hörður Már hóf verkefnið sitt M-band á Íslandi árið 2012 en flutti til Berlínar í júní síðastliðnum. Hann býr í Kreuzberg ásamt systur sinni og þýskum landslagsarkitekt sem vinnur mikið úti svo Hörður getur unnið í tónlistinni heima. Hann dreymir um að eignast eigið stúdíó, helst í fyrrum austur-þýska útvarpshúsinu Funkhaus, en það er staðsett við ána Spree og þá gæti hann kannski stundum farið á kajak í vinnuna.
„Ég er frá Flúðum og byrjaði að læra 7 ára á píanó, út frá því fór ég að fikta í m.a. í segulbandstæki sem pabbi átti. Þegar hann gaf mér fyrsta hljóðgervilinn minn voru þar inni allskonar hljóð sem ég hafði aldrei heyrt. Þá fór ég að taka upp allskonar trommu takta á segulbandstækið og spila laglínu yfir. Þannig var svona fyrsta live-settið mitt, ekki beint með mikið af græjum.“
„Þegar ég flutti út byrjaði ég á því að spila á Extreme Chill tónlistarhátíðinni, síðan hefur Nordic by Nature komið mér á allskonar gigg, eins og á Berlin Music Week og til London. Á næstunni ætla ég að skoða samstarf við fleiri aðila sem hafa verið að poppa upp og ég fer til Íslands um jólin til að byrja á nýju plötunni. Ég spila svo á Eurosonic hátíðinni í janúar. Fyrir það þarf ég að fínpússa live-settið mitt, sérstaklega vídeóin. Ég hef reynt að vinna þau alveg sjálfur. Mig langar að gera fleiri tilraunir með myndefni, en núna er ég að framkalla það á sama tíma og ég spila, vídeó-brotin eru þá tengd við tónlistina og spilast sjálfkrafa þegar eitthvað gerist í tónlistinni. Fólk er líka farið að skrifa sín eigin forrit fyrir svona dót, og oft eru þau aðgengileg fyrir aðra sem er frábært. Maður þarf að skoða hvers konar sýningu er hægt að setja upp. Það er nefnilega þannig með raftónlist að það þarf að spá mikið í hvað maður vill fá út úr performansinum, því það eru svo miklu fleiri skapandi möguleikar í boði en bara playback og söngur. Ég er ekki alveg búinn að finna út úr þessu. Draumurinn er að prógramma mitt eigið hljóðfæri, þar sem ég get stýrt tónlistinni, myndrænu efni og ljósum öllu í einu. Markmiðið er að gera samband vélarinnar og mannsins einhvern veginn náttúrulegt, svona eins og að spila á píanó eða gítar. Þannig það sé ekki bara að ýta á takka heldur er einhver straumur þarna á milli.“