Viltu vinsamlegast taka niður húfuna?

Viðbrögð kennara yfir húfum í tíma.

Húfur hafa lengi verið þyrnir í augum kennara, hvort sem er í grunnskólum eða menntaskólum. Sumir lesa í þær óvirðingu fyrir kennurum eða bara óvirðingu fyrir kerfinu. En er það kannski bara gamaldags venja sem er að breytast? Blær fór á stúfana og talaði við nokkra kennara um þetta mál. Nemandi kemur inn í tíma hjá þér með húfu á höfðinu. Þú biður hann að taka af sér húfuna sem hann gerir. Tíu mínútum seinna hefur hann sett húfuna upp aftur. Hvað gerir þú?

Edda Hauksdóttir, kennari í unglingadeild í Hagaskóla

Ég banna nemendum mínum ekki að hafa húfur. Það er einhver almesta orkueyðing sem ég þekki, frekar vil ég nota röflið í eitthvað annað! Yfirleitt er einhver ástæða fyrir því að nemendur séu með húfur í tímum; kannski eru þau nýkomin úr klippingu og eru feimin við að sýna nýja klippingu eða fóru vitlausu megin fram úr og hárið er ekki alveg upp á sitt besta. Ég vil frekar nota orkuna mína í eitthvað sem skiptir meira máli í skólastofunni, eins og kennsluna.

Steinunn Inga Óttarsdóttir, íslenskukennari við Menntaskólann í Kópavogi

Ég kippi mér ekkert upp við það ef nemendur eru með húfur í tímum. Oft eru krakkar að fela sig fyrir umheiminum. Síðan er líka mjög algengt að húfan sé bara hluti af dressinu, hluti af því að skapa sína persónu. Maður velur sér orrustur. Það eru nú mikið þannig að það er fólk sem er hæft í mannlegum samskiptum og hefur gaman af ungu fólki sem velst í kennarastéttina. Það minnkar líkurnar á árekstrum hefði ég haldið.

Jason Ívarsson, kennari í unglingadeild Austurbæjarskóla

Ég legg upp með að þurfa ekki segja sama hlutinn oft. Ég fer ekki og tek húfuna af viðkomandi, ég reyni frekar að höfða til nemenda. Stundum býðst ég til þess að geyma húfuna þangað til í lok tímans og býð jafnvel nemendum húfuna mína í staðinn en það vill það enginn. Þetta er samt ekkert sem truflar kennsluna hjá mér. Ég vil miklu frekar bara byrja að kenna en að standa í því að taka húfurnar af þeim. Maður reynir bara að höfða til skynseminnar í þeim.

Hulda Egilssdóttir, íslenskukennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Ég myndi gera lítið í því. Ég myndi spjalla við nemandann, því hann væri jú að óhlýðnast beinum fyrirmælum, og athuga hvort það væri ekki allt í lagi. Ég myndi ekki fara að gera eitthvað mál úr því yfir allan hópinn. Það væri bara lítillækkandi fyrir hann. Oftast leysist þetta bara í góðu. Annars er þetta ekkert stórmál fyrir mér. Frekar vil ég eyða kröftunum mínum í að fá nemendur til þess að vinna verkefnin sín. Húfan skiptir þá engu máli.

Anna Snædís Sigmarsdóttir, kennari við hönnunarbraut í Tækniskólanum

Mér er alveg sama þótt nemendur séu með húfu í tíma. Ef að þau ættu að taka hana niður þá færi maður bara sálfræðileiðina að því að hvísla í eyrað á þeim, ég myndi aldrei nota skipanir. Oft eru nemendur með húfu vegna þess að þeir eiga við einhver vandamál að stríða eða eru óöruggir. Ég sjálf nota oft húfu vegna þess að ég hef ekki haft tíma til þess að greiða mér. Kennslan snýst ekki um svona hluti. Það þarf náttúrulega að vera agi en það er á öðrum sviðum. Það er kannski aðallega þegar nemendur eru í úlpum í tíma sem ég bið þau að fara úr en það er bara af því að það heftir teiknihæfileika þeirra.

Oddgeir Eysteinsson, íslenskukennari í Menntaskólanum við Sund

Ég hef aldrei gert mér rellu út af höfuðfötum, hvorki í grunnskóla eða framhaldsskóla. Sumir virðast öruggari með húfuna eða í úlpu. Ef þeir eru ekki til vandræða að öðru leyti þá sé ég enga ástæðu til þess að kippa mér upp við það. Nú til dags eru margir nemendur sem taka nánast aldrei ofan höfuðfatið og það er náttúrulega rannsóknarefni út af fyrir sig en í 25 manna hóp er í mörg horn að líta. Húfurnar eru bara aukaálag.