Sævar Helgi Bragason
Opnar stjörnuheiminn fyrir sjálfum sér og öðrum.
Frá því Sævar Helgi man eftir sér hefur hann haft brennandi áhuga á alheiminum. Á meðan unglingarnir sinntu annars konar áhugamálum lá Sævar í grasinu með kíkinn, horfði í himininn og ímyndaði sér hvernig það væri að horfa á jörðina frá tunglinu. Í dag þekkir hann himininn eins og handarbakið á sér. Hann er duglegur að miðla fræðunum og gerir það af mikilli ástríðu.
Starfsvið Sævars er fjölbreytt; auk þess að vera ritstjóri Stjörnufræðivefsins og formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness vinnur hann við vísindamiðlun hjá verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands.
Við fengum Sævar til að opna heiminn fyrir okkur hinum, einn ískaldan desembermorgunn á Kaffihúsi Vesturbæjar.
Hvaðan kemur þessi brennandi áhugi á alheiminum?
Maður veit kannski ekki alveg hvaðan þetta kemur. Mér finnst stundum eins og þetta sé svolítið meðfætt. Ég hef alltaf haft gaman af náttúrunni og fór oft með ömmu og afa út á land þegar ég var smákrakki. Þá fannst mér alltaf svo heillandi að horfa á fjöllin, fossana, hraunin og jöklana. Og auðvitað himininn. Mér fannst svo áhugaverð tilhugsunin um hvernig þetta varð til. Föðurbróðir minn hafði líka áhuga á himninum og þegar ég var pínulítill fékk ég að kíkja í gegnum sjónauka hjá honum. Þá sá ég Satúrnus í fyrsta skipti, og eftir það var bara ekkert aftur snúið.
Þegar ég labbaði í skólann á morgnana, sex ára gamall, horfði ég mun meira upp en niður. Mér fundust svo flottar þessar stjörnur en vissi ekkert um þær. Ég þráði að vita hvað þetta var. Fyrsta bókin sem ég tók á bókasafninu í grunnskólanum var einmitt stjörnufræðibók. Kennarinn fékk mig reyndar til að skila henni stuttu síðar, hún var víst aðeins flóknari en þau höfðu ætlað fyrir minn aldurshóp.
„Mér fundust svo flottar þessar stjörnur en vissi ekkert um þær. Ég þráði að vita hvað þetta þarna fyrir ofan okkur var.“
Ég er frekar sorgmæddur yfir að hafa misst af tunglferðunum, ég hefði mjög gjarnan viljað uplifa þær og hefði svo sannarlega verið barn sem átti geimfarabúning og litið mikið upp til þessarra manna.
Ég keypti fyrsta sjónaukann minn fyrir fermingarpeninginn minn. Þetta var handstýrður sjónauki og ég hoppaði með honum um himininn í leit að hinu og þessu. Það getur tekið óralangan tíma að finna fyrirbærið sem maður vill finna, en maður lærir líka svo óskaplega margt.
Já, þú hlýtur að rata svolítið núna?
Jájá, þetta er svona eins og fólk sem er í fjallamennsku og þekkir nöfnin á öllum fjöllunum og firnindum. Nema mín náttúra er beint fyrir ofan okkur. Án þess að horfa í sjónaukann get ég beint honum nákvæmlega á ákveðna vetrarbraut, sprengistjörnuleif eða stjörnuþyrpingu. Svo hefur maður í ofanálag þessa óseðjandi þrá til að sega öðrum frá.
„Það skemmtilegasta sem ég geri, er að segja fólki frá alheiminum.“
Mér finnst hrikalega gaman að kenna börnum og tek þátt í ýmsum slíkum verkefnum, til dæmis í gegnum háskólann og Háskólalestina. Fjögurra ára sonur minn er auðvitað engin undantekning. Við skoðum saman geimför, horfum á lendingar á Tunglinu og orðið tungl var einmitt eitt fyrsta orðið sem hann lærði. Ég get líka ekki beðið eftir að sýna honum satúrnus eða tunglið í gegnum sjónauka. Mér finnst að öll börn ættu að eiga þann möguleika, þetta víkkar svo sjóndeildarhringinn.
Ég held líka utan um stjörnuskoðunarkvöld fyrir túristahópa þar sem ég blanda saman vísindum og goðsögnum og segi sögur frá stjörnumerkjum. Maður sér alveg hvernig heimurinn lifnar við fyrir þeim og það er ekkert lítið gefandi að sjá fólk hrópa yfir sig af hrifningu.
Þú ert bara bókstaflega að opna heiminn fyrir fólki?
Já vonandi! Þá er markmiðinu náð. Það er ekki markmiðið að breyta fólkinu í einhverja vísindamenn, alls ekki. En ef einhver einn fær áhuga, þá er ég sáttur.
Hvað er það sem heillar mest í þessum risastóra heimi?
Það getur náttúrulega ekkert toppað fæðingu sonar míns. En á eftir því er það bara svo margt. Það er ótrúlega heillandi að fylgjast með tungl- og sólmyrkvum. Það er líka gaman að horfa á vetrarbrautir afskaplega langt aftur í tímann, það var til dæmis frábær tilfinning þegar ég horfði þrjúhundruð milljón ár aftur í tímann í gegn um stjörnukíkinn. Svo man ég líka þegar ég sat lengi frameftir á Þingvöllum í fimmtán stiga frosti og rakst á pínulítinn blett á Mars sem ég fletti upp í kortinu. Þegar ég sá að þetta var Ólympusfjall, stærsta fjallið í sólkerfinu, þá risu hárin á hnakkanum. Að geta horft á eldfjall á öðrum hnetti úr frostinu á Þingvöllum er bara fáránlegt!
„Maður sér alveg hvernig heimurinn lifnar við fyrir þeim og það er ekkert lítið gefandi að sjá fólk hrópa yfir sig af hrifningu.“
Mér finnast tunglferðirnar sömuleiðis alltaf ótrulega heillandi og ég finn enn fyrir hálfgerðri öfund út í mennina sem raunverulega hafa yfirgefið jörðina, heimsótt annan hnött og snúið aftur heilir á húfi. Það er svo bilað að hugsa til þess. Satúrnus eldflaugin, sem kom Apollo vélunum á loft, er fyrir mér algerlega eitt af undrum veraldar. Eitt það merkilegasta sem maðurinn hefur búið til. Ég hitti tunglfara í fyrra í tengslum við heimildarmynd sem ég og nokkrir félagar mínir erum að vinna að, og þetta var mjög líklega fyrsta og eina skiptið sem ég hef orðið „starstruck“.
„Að geta horft á eldfjall á öðrum hnetti úr frostinu á Þingvöllum er bara fáránlegt!“
Tunglferðirnar breyttu líka sjónarhorni okkar á heiminn. Það er engin tilviljun að umhverfissamtök og jarðardagurinn verður allt til í kring um 1970, eftir að mannkynið sér jörðina sem plánetu. Engin landamæri eða neitt, bara sameiginleg pláneta okkar. Þetta hafði allt miklu meiri áhrif á okkur en maður gerir sér grein fyrir. Alheimurinn kennir okkur líka það, að ef við förum ekki vel með auðlindirnar okkar þá erum við bara í vondum málum. Við komumst hvergi.
Ég er að öllum líkindum búinn að upplifa mestu vonbrigðin í lífinu. Ég mun, mjög sennilega, aldrei fá að fara sjálfur til Tungslins. En, mér finnst óskaplega gaman að sjá heiminn frá öllum sjónarhornum, með því að ferðast um Jörðina.
Í Atacama eyðimörkinni í Chile var stjörnuhimininn svo ríkur af stjörnum að upplifunin mín var eins og ég get ímyndað mér að trúarleg upplifun sé fyrir annað fólk. Það hellast yfir mann stórkostlegheitin og maður verður bara orðlaus. Á suðurhvelinu fær maður líka allt annað sjónarhorn á heiminn og þar sá ég stjörnuna Eta Carinae, sem er við það að fara að springa og varpar þess vegna frá sér efni út í geiminn í báðar áttir, og er eins og karamella í laginu. Það var ótrúlega fallegt.
„Alheimurinn kennir okkur líka það, að ef við förum ekki vel með auðlindirnar okkar þá erum við bara í vondum málum.“
Á þessum ferðalögum hef ég bæði uppgötvað hversu ótrúlega fjölbreytt Jörðin er, en líka hvað Ísland er í raun magnað land. Hlutir sem maður sér á víð og dreif um heiminn getur maður allt fundið, hér á þessu pínulitla landi. Sumt hérlendis finnst hvergi annars staðar í sólkerfinu, ég veit til dæmis bara um gervigíga á tveimur stöðum í heiminum, á Íslandi og á Mars. Það finnst mér alveg magnað!
En hvað með sannleikann; er hann þarna úti?
Ég hef fulla trú á því að það sé líf úti. Sumt er komið framar en við, sumt lengra aftur og hver veit nema þeir séu að beita nákvæmlega sömu aðferðum og við. Að horfa út í heiminn og reyna að uppgötva það sama. Ef ég fengi svar við einni spurningu áður en ég dey þá er þetta spurningin. Og það er í rauninni raunhæft að fá svör við þessari spurningu á okkar æviskeiði. Við þurfum ekki annað en að leita í okkar sólkerfi, eins og á tunglinu Evrópu við Júpíter. Við þurfum bara að senda geimfar á staðinn til að bora sig í gegn um ísinn og sigla um hafið undir ísnum á tunglinu og hver veit hvað verður á vegi þess? Svo er allt út í ummerkjum um rennandi vatn á Mars fyrir milljónum ára svo það var greinilega lífvænlegt, þó það þýði auðvitað ekki endilega líf. En þetta er flottasta markmið mannkynsins finnst mér, að reyna að komast að þessu.
„Sumt hérlendis finnst hvergi annarsstaðar í sólkerfinu, ég veit til dæmis bara um gervigíga á tveimur stöðum í heiminum, á Íslandi og á Mars. Það finnst mér alveg magnað!“
Við erum pínulítil. Heimurinn er risastór.
Heimurinn á það til að hverfast svolítið um mann sjálfan, en það er gott og mikilvægt að skilja að við erum bara pínulítill hluti af risastórum alheimi.
Ég vil trúa því að mannkynið geti breytt hugsunarhætti sínum smám saman. Hættum þessarri græðgi. Drögum úr brennslu jarðefnaeldsneytis eins og við mögulega getum. Ef við bara breytum því hvernig við framleiðum orkuna, notum bíla og svo framvegis á vistvænni hátt en við gerum, þá er sú breyting aðeins til góðs. Ef það þýðir að við þurfum að borga fyrir það, þá er ég persónulega alveg til í það. Það þýðir líka bara að framtíð afkomenda okkar verður betri. Og ég vil mun frekar búa í heimi þar sem ég get farið sáttur frá borði en ósáttur.
Við eigum eitt líf, reynum að lifa því vel og sleppa því að stíga á möguleika framtíðarinnar. Jörðin þarfnast okkar ekki neitt. Við þörfnumst hennar og því er eins gott fyrir okkur að hugsa vel um hana. Og hafa gaman af því á meðan.
Horfðu til himins!
Svo er bara alltaf gaman að horfa upp í himininn. Fyrsta sem ég geri þegar ég fer út úr húsi, þá horfi ég til himins. Sama hvaða tími dagsins það er. Hann er alltaf fallegur og mér finnst að fólk ætti að gera þetta miklu meira. Velta því fyrir okkur hvað er þarna úti og minna okkur á hvað lífið á jörðinni er dýrmætt. Hvað það er magnað að við erum hérna yfir höfuð.