Bergur Þórisson
Talar um Huga, BAFTA og ákvörðunina um að fara ekki í Juilliard.
Bergur Þórisson er 21 árs tónlistarmaður með meiru. Árið 2012 útskrifaðist hann úr MH og komst í kjölfarið inn í Juilliard í New York. Bergur ákvað þó að vera heima á Íslandi og hefur síðan túrað um Evrópu með Óla Arnalds, hannað og smíðað hágæða míkrófóna og unnið hin virtu BAFTA verðlaun. Blær settist niður með Bergi og ræddi það sem á daga hans hefur drifið síðastliðin ár.
„Áhuginn kviknaði þegar ég var lítill og sá Billy Elliot í sjónvarpinu. Eftir það var ég bara „shit, ég ætla að verða listamaður“ og af því að mig langaði til að vera bestur var markið strax sett á Juilliard, án þess að vita hvað raunverulega fólst í því. Ég æfði á básúnu og sumarið eftir tíunda bekk fór ég í tónlistarskóla í Bandaríkjunum. Það var mjög hollt að fara þangað, kortleggja hvernig maður stæði gagnvart öðrum sem voru líklegir til að sækja um í Juilliard og kynnast fáranlega flottu kennurunum sem þar störfuðu. Eftir þetta var það eiginlega bara slegið að ég væri að fara að sækja um og þegar ég útskrifaðist úr MH árið 2012 fór ég í inntökupróf í þremur skólum í New York, Juilliard þar á meðal. Prófin voru ótrúlega þung og það komast yfirleitt bara einn til tveir inn á hvert hljóðfæri svo að þegar ég kom heim var ég ekkert allt og bjartsýnn að komast inn. Það var því algjör bylting þegar ég fékk tölvupóstinn um að ég hefði verið samþykktur í Juilliard. Ég held að sjálfsöryggi sé galdurinn í inntökuprófum. Ef það sést á þér að þú sért ekki stressaður skiptir engu máli hvað þú spilar, segir eða gerir.“
„Ég borgaði staðfestingargjaldið í skólann og sagði í kjölfarið upp vinnunni minni sem tónlistarkennari. Juilliard er fáranlega dýr skóli og þrátt fyrir að hafa fengið tilboð um flotta styrki var hann að fara að kosta mig ótrúlegar fjárhæðir. Ég fór eitthvað að púsla þessu saman og sá fram á að þó ég gæti kannski fjármagnað námið myndi hryllingurinn taka við eftir útskrift. Því þá ætti ég enga peninga til að fylgja eftir þeim samböndum sem ég væri búinn að byggja upp á meðan á náminu stóð. Ég myndi því þurfa að koma heim, búa hjá mömmu og pabba og borga upp skuldir með því að vinna sem tónlistarkennari. Og ég var nú þegar að gera það, búa hjá mömmu og pabba og vinna sem tónlistarkennari.“
„Ég ákvað að fara ekki til New York en hafði ekki hugmynd um hvað ég ætti að gera í staðinn. Helgi Hrafn Jónsson, vinur minn og básúnuleikari bauð mér að vera aðstoðarmaður sinn við að byggja upp stúdíó. Ég hafði verið að vinna allskonar stúdíóvinnu en það sem Helgi vissi ekki var að í laumi hafði ég verið að smíða míkrófóna og upptökutæki í svolítinn tíma. Í básúnutíma hjá honum fór ég að segja honum frá því og í kjölfarið tóku hann og kærastan hans, Tina Dickow, upp dúett með míkrófón sem ég hafði smíðað. Það kom okkur öllum á óvart hvað útkoman var góð, mér ekki síður en þeim þar sem ég hafði ekki hugmynd um að ég væri að smíða einhverja gæðavöru. Ég skráði mig því í verkfræði í HR útaf þessum smíðaáhuga, ég hafði líka alltaf verið sterkur í stærðfræði svo verkfræðin átti vel við.“
„Mér gekk síðan alveg ágætlega í prófunum og í ár unnum við BAFTA verðlaunin fyrir tónlistina í Broadchurch, svo það var ágætt.“
„Skólinn gekk vel, ég var búinn að segja upp tónlistakennarastöðunni og var með fullan fókus. Undir lok fyrstu annarinnar kynntist ég Óla Arnalds sem var algjör hryllingur fyrir námið. Óli bauð mér vinnu við gerð tónlistar fyrir sjónvarpsþætti sem heita Broadchurch. Næstu mánuði vorum við á hvolfi við gerð tónlistarinnar, allan daginn alla daga og ég lét lítið sem ekkert sjá mig í skólanum. Arnór Dan söng titillagið sem heitir So Close, og Viktor Orri, fiðluleikari Hjaltalín hjálpaði okkur við að fínisera strengjaútsendingarnar, hann á ótrúlega stóran þátt í sándinu. Mér gekk síðan alveg ágætlega í prófunum, en beilaði á náminu eftir þessa önn. Í ár unnum við BAFTA verðlaunin fyrir tónlistina í Broadchurch, svo það var ágætt.“
„Í kjölfarið túraði ég með Óla og við fórum þvers og kruss um alla Evrópu, spiluðum með sinfóníuhljómsveit í Berlín og Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu. Óli komst fljótlega að þessu smíðadæmi mínu því ég eyddi nánast öllum laununum mínum í að kaupa parta. Í dag er ég búinn að selja ein 15 eintök af míkrófónum hérna heima á Íslandi. Sem er alveg frábært en þeir kosta alveg hálfan handlegg. Mér áskotnaðist bíllinn minn einmitt í tengslum við míkrófón en President Bongo í Gus Gus átti bílinn áður. Þetta er fornbíll í upprunalegu ástandi, frá árinu 1979 og af því að ég er að varðveita hann fær hann að vera sætisbeltislaus. Hann er að vísu bilaður í augnablikinu en hann hefur alltaf verið voða góður við mig.“
„Ég hugsa að við höfum verið búnir að skrifa niður svona 700 tillögur en ekkert virkaði, sem er skrítið því það sem við gerum í tónlist virkar yfirleitt ótrúlega vel fyrir okkur báða.“
Í vor gaf Bergur ásamt Pétri Jónssyni út plötuna Hugar en platan ber sama nafn og tvíeykið. „Við Pétur erum búnir að þekkjast lengi og gera mikið af músík saman. Allt frá AC/DC rokk út í argasta djass. Það var hins vegar ekki fyrr en ég fór að vinna í stúdíóinu hans Helga Hrafns sem við Pétur fórum að gera tónlist saman bara tveir. Í hvert sinn sem Helgi fór að túra fékk ég lyklavöld að stúdíóinu og við Pétur tókum upp heilan helling. Með tíð og tíma vorum við farnir að eiga ágætis safn af lögum sem við áttum bara eftir að gefa okkur tíma til að leggja lokahönd á. Stór ástæða fyrir því að lögin söfnuðust lengi vel bara upp var sú að við gátum ekki fundið nafn á dúóið. Ég hugsa að við höfum verið búnir að skrifa niður svona 700 tillögur en ekkert virkaði, sem er skrítið því það sem við gerum í tónlist virkar yfirleitt ótrúlega vel fyrir okkur báða. Að lokum völdum við nafnið Hugar, því við erum tveir hugar og okkur fannst það eitthvað skemmtilegt. Þegar við loks kláruðum plötuna í vor fannst okkur ekkert sjálfsagðara en að gefa hana bara út frítt á netinu. Við höfðum aldrei borgað stúdíótíma og fannst sjálfsagt að sem flestir gætu hlustað á hana. Við erum svo ótrúlega heppnir með strengjaspilarana á plötunni enda eru það bara vinir okkar sem spiluðu fyrir kassa af bjór. Það er samt alltaf á döfinni að halda útgáfutónleika og þá getum við vonandi borgað þeim eitthvað af viti.“
„Annars erum við Pétur næstum tilbúnir með aðra plötu, sem gerðist eiginlega bara óvart. Við erum svo ótrúlega góðir saman að ákveðum við að hittast, náum við oft að gera alveg andskoti mikið. Ég hef líka verið að vinna með og Damien Rice að nýju plötunni hans og stússast eitthvað með Rökkurró og Agent Fresco í allskonar upptökudæmi upp á síðkastið. Í febrúar fer ég svo aftur að túra með Óla Arnalds.“
„Það er síðan skemmtilegt að segja frá því að ég fékk úthlutaðan Frumherjastyrk frá Tækniþróunarsjóði sem heyrir undir Rannís á dögunum. Verkefnið mitt, sem hlaut styrkinn, gengur í grófum dráttum út á það að smíða gamaldags upptökubúnað sem er stýrt af tölvum. Almennt er álit manna það að gömlu græjurnar hljómi betur, en vinnuferlið hjá upptökustjórum og hljóðvinnslumönnum hefur tekið gífurlegum breytingum á síðustu árum. Með þeim afleiðingum að það verður erfiðara og erfiðara að koma þessum gömlu græjum í notkun í ferlinu. Með því að smíða svona græjur sem stýrt er af tölvu þá má vista allar stillingar og kalla þær fram aftur á auknabliki. Þá má einnig teikna breytingar á stillingum inn á tímalínu hljóðsins sem verið er að vinna. Í gamla daga var þetta einfaldlega gert með því móti að það var maður á takkanum og hljóðið var tekið upp á meðan hann breytti stillingunum. Slík vinnubrögð samræmast ekki þróuninni sem hefur átt sér stað, slík vinna er allt of dýr og erfitt fyrir listamenn að borga brúsann án útgáfufyrirtækja með risa fjárlög á bakvið sig. Styrkurinn er hugsaður þannig að ég geti haft atvinnu af smíðunum til tveggja ára auk þess að standa undir partakostnaði og fá auka starfskrafta og fleira. Þetta er ótrúlega spennandi.“