Beauty tips

Kvennasamfélag þar sem stelpur geta fengið ráð hver frá annarri.

Áslaug María Agnarsdóttir er 19 ára, starfar á leikskóla og hefur búið í Borgarnesi í rúm tíu ár. Fyrr á árinu ákvað hún að stofna Facebook hóp sem heitir Beautytips og mega aðeins stelpur vera inni í hópnum. Upphaflega var hann aðeins ætlaður til þess að deila ráðum varðandi förðun og fleiru útlitstengdu en í dag er þar rætt allt milli himins og jarðar og virðist vera hægt að fá svör við ótrúlegustu spurningum. Rúmlega 17.000 meðlimir eru í hópnum og daglega bíða um tvö þúsund manns eftir því að vera hleypt inn. Við settumst niður með Áslaugu, stofnanda Beautytips, og ræddum nánar um hópinn.

„Ég er úr Reykjavík en er búin að búa á Borgarnesi í 10 ár. Ég útskrifaðist úr Menntaskóla Borgarfjarðar og er að vinna á Hjallastefnuleikskóla á Bifröst. Þótt ég þurfi að keyra hálftíma á morgnana til þess að fara í vinnuna er það alveg þess virði, þau eru með svo flotta hugmyndafræði í Hjallastefnunni sem ég hef lært af.“

Hvað kom til að þú stofnaðir Beautytips?

Ég man ekki einu sinni almennilega nákvæmlega hvenær ég gerði það, það var einhvern tímann í febrúar á þessu ári. Stelpur voru alltaf að pósta ráðum og spurningum um förðun inn á svona fatasíður sem mér fannst ekki passa þar. Ég var búin að hugsa þetta geðveikt lengi þannig að ég bjó til grúppu og addaði öllum vinkonum mínum og sagði þeim að adda öllum sem þeim datt í hug. Í fyrstu var þetta alveg opin síða en svo þurfti ég að loka henni. Í byrjun voru mestmegnis stelpur en svo fóru að týnast inn strákar. Mér var alveg sama og hugsaði bara: Já, ef einhverjir strákar vilja vera þarna inni þá er það allt í lagi. Svo varð þetta bara stærra og stærra og allt fór að verða vitlaust þarna inni. Margir strákanna voru mikið að gera grín og skjóta á fólk. Þá ákvað ég að það þyrfi að setja einhverjar reglur. 

Hvernig reglur?

Ein af fyrstu reglunum var sú að það má ekki selja inni á síðunni; þar mega bara vera umræður. Svo bannaði ég allt tal um lýtaaðgerðir, það eru svo margar ungar stelpur þarna þannig að mér fannst það ekki við hæfi. Stundum hefur mér verið bent á að fólk hafi verið að taka „screenshot“ af grúppunni og pósta á aðra samfélagsmiðla en það brýtur líka gegn reglunum. Ég veit að það er erfitt að halda utan um það sem gerist inni á þessari stóru grúppu en ég reyni samt mitt besta til þess að þetta fari ekki allt úr böndunum. 

Af hverju mega bara stelpur vera í hópnum?

Þegar hópurinn var orðinn svona stór fóru margar stelpurnar að tala um að þeim fyndist óþægilegt að hafa stráka svo ég ákvað bara að hafa kosningu þar sem langflestir kusu að það ættu bara að vera stelpur þarna inni. Fyrst fannst mér það fáránlegt að þeir mættu ekki fylgjast með en svo var það bara ákveðið og ég fór að henda öllum strákunum út. En svo eru auðvitað strákar sem hafa áhuga á því sem er að gerast þarna inni og taka þátt í umræðunni. Þeir geta þá bara sent mér póst til að fá undanþágu. Núna eru þrír eða fjórir strákar inni á grúppunni. 

Hvað er aðallega verið að ræða í hópnum?

Bókstaflega allt. Sama hversu fáránleg spurningin er þá færðu svör. Stelpurnar þarna inni eru svakalega virkar. Ef maður póstar einhverju þarna inn þá fær maður svar innan mínútu. Alveg frá því í hvaða kjól maður á að vera yfir í sálræn vandamál eins og kvíða og þunglyndi. Stelpurnar deila reynslusögum, það er alveg frábært.

Núna eru rúmlega 17.000 stelpur í hópnum, hvenær varð hópurinn svona vinsæll?

Þetta hefur verið frekar stöðug fjölgun frá stofnun hópsins en í sumar sprakk þetta alveg. Ég bjóst adrei við því að það yrðu fleiri en 5.000 meðlimir. Ég vakna yfirleitt á morgnana með svona tíu skilaboð þar sem stelpur er að reka á eftir mér að samþykkja þær í hópinn. Ég er stöðugt að gera það en það eru bara svo margar beiðnir að það er ógerlegt að gera það ein. Núna eru tvær vinkonur mínar líka orðnar stjórnendur í hópnum til þess að hjálpa mér að samþykkja. Við náum að bæta við í kringum 3.000 stelpum á viku. Langflestar þeirra eru um 18 - 20 ára en svo eru líka 12 ára stelpur og allt upp í fertugar konur

En finnst þeim ekkert mál að koma bara undir nafni og opna sig svona mikið fyrir framan alla?

Nei greinilega ekki. Sumum finnst það geðveikt skrítið að þær séu að tala svona opinskátt um t.d. kynlíf og fleira en mér finnst það allt í lagi. Fólk er misopið. Allir eru alltaf eitthvað: OMG af hverju eru þið að ræða þetta hérna? En ef ykkur finnst það of mikið getur fólk bara skráð sig úr hópnum. Flóknara er það ekki.

Fyndnasta sem hefur komið inn á hópinn?

Einu sinni var þráður um deitsögur. Þá var ein að lýsa því þegar hún fór á fáránlegt deit þar sem strákurinn tók allt í einu upp gítarinn og fór að syngja á fullu. Þá fóru stelpur að segja að þetta hljómaði alveg eins og deit sem þær höfðu farið á. Þær enduðu á því að vera svona fimmtán stelpur sem könnuðust við þetta og komust að því að þær hefðu allar farið á deit með sama gæjanum. Það var svo fyndið. 

Heyrirðu mikið af gagnrýnisröddum um hópinn?

Já, mjög mikið. Sumar af stelpunum tala um mjög skrítna hluti þarna inni fyrir minn smekk. En svo er líka margt þarna inni bara mjög eðlilegar kvennaspurningar. Þarna hefur myndast samfélag þar sem stelpur geta fengið ráð frá hver annarri og það er frábært.

En ertu eitthvað búin að pæla hver framtíð Beautytips verður?

Nei. Það eru allir að segja að ég eigi að gera eitthvað meira með þetta en ég veit ekkert hvað verður hægt að gera. Það verður bara að koma í ljós. En það vita nánast allir hvað Beautytips er núna, kæmi ekki á óvart ef það væri gert grín af þessu í Skaupinu. En hjá mér persónulega þá er ég að pæla í að byrja í sálfræði og flytja til Reykjavíkur næsta haust.