Hálft ár í Palestínu

Bryndís Silja segir frá þeirri kúgun, ofbeldi og kerfisbundinni hreinsun sem Palestínumenn lifa við.

Bryndís Silja er 22 ára bókmennta- og stjórnmálafræðinemi búsett í Vesturbæ Reykjavíkur. Hún er nýkomin heim eftir sex mánaða dvöl í Palestínu þar sem hún bjó í borginni Hebron á Vesturbakkanum. Við ræddum við Bryndísi um þá kúgun og ofbeldi sem Palestínumenn þurfa að þola í daglegu lífi og störf hennar með samtökunum International Solidarity Movement.

Þegar ég fór út í vor ætlaði ég bara að vera í fimm vikur, hitta vini mína og æfa mig í arabísku. Ég var að koma heim núna fyrir nokkrum dögum, sex mánuðum síðar. Þetta er í annað sinn sem ég sleppi önn í háskólanum fyrir Palestínu en síðast fór ég út vorið 2013. Þá dvaldi ég í norðrinu en að þessu sinni bjó ég í borg sem heitir Hebron, eða al-Khalil á arabísku. Hebron er eina borgin á Vesturbakkanum þar sem ísraelska landtökubyggð er að finna inni í borginni en landtökubyggðum fjölgar hægt og rólega. Eftir Hebron-samningana 1997 var borginni skipt í tvo hluta, H1 og H2. Ég bjó í H2, sem er undir ísraelskum yfirráðum en þar búa þó enn 30.000 Palestínumenn og 700 Ísraelar í landtökubyggðunum. Flestar landtökubyggðirnar eru litlar og inni í palestínskum hverfum, ég bjó við hliðina á einni slíkri.

Hvað varstu að gera?

Í ár var ég sjálfboðaliði hjá samtökum sem heita International Solidarity Movement (ISM) en þau voru stofnuð af Palestínumönnum og einum Ísraela árið 2001. Hjá ISM starfa bæði Palestínumenn og alþjóðaliðar sem sjálfboðaliðar og voru þau stofnuð í þeim tilgangi að veita alþjóðlega nærveru gagnvart því stöðuga ofbeldi sem Palestínumenn verða fyrir. Það er staðreynd að erlent útlit og myndavél dragi úr ofbeldi frá hermönnum og landtökufólki. Það að koma upplýsingum beint frá svæðinu veitir einnig oft aukinn trúverðugleika og fólk verður áhugasamara um ástandið. Samtökin ISM eru samtök aktívista sem beita að sjálfsögðu ekki ofbeldi og samtökin eru leidd af Palestínumönnum. Það þýðir að við tökum engar ákvarðanir, eða skipuleggjum nokkuð sem er ekki samþykkt af þeim Palestínumönnum sem ákvörðunin myndi hafa áhrif á. 

Þegar þú starfar með ISM þarftu að taka tveggja daga þjálfun þar sem þú meðal annars lærir hver lagaleg staða þín er og hvernig á að bregðast við ofbeldi án þess að beita ofbeldi. Mér þykir mjög mikilvægt að allar ákvarðanir sem teknar eru hjá ISM eru leiddar af Palestínumönnum. Þar af leiðandi koma alþjóðaliðar frá ISM ekki inn til Palestínu og taka ákvarðanir sem eru ekki í hag íbúanna. Það hefur til dæmis sannast að aðferðir ísraelska hersins hafa breyst frá seinni Intifada, uppreisn almennings, í kringum árið 2000 með nærveru alþjóðaliða í mótmælum. Til dæmis með aukinni notkun gúmmíhúðaðra stálkúlna þó svo að herinn myrði enn reglulega Palestínumenn í mótmælum og brjóti allar alþjóðlegar reglulegugerðir.

„Manni finnst þetta vera svo flókið en í raun er þetta einfalt: mannréttindabrot sem eiga sér stað á hverjum degi og hafa fengið að viðgangast allt of lengi.“

Hvernig finnst þér umræðan um málefni Palestínu vera hérna heima?

Það er mjög sérstakt við Ísland hvað margir vita um Palestínu og mér finnst flestir mjög meðvitaðir. En hugmyndir fólks eru oft svolítið öfgafullar, það áttar sig ekki alveg á daglega lífinu. Það er til dæmis algjör vitleysa að þarna séu sprengingar á hverjum degi á Vesturbakkanum, ofbeldið felst aðallega í grimmilegri, daglegri kúgun á Palestínumönnum og er það mjög fjölþætt. Með því að viðurkenna tilvist ríkisins Palestínu eru íslensk stjórnvöld búin að taka stór skref. Þau eru hins vegar mjög föst í hugmyndinni um tveggja ríkja lausn, sem ég var að vísu líka áður en ég fór út. Nú, eftir að hafa verið þarna síðastliðna sex mánuði og þrjá mánuði á síðasta ári sé ég einfaldlega ekki fram á að það geti verið lausnin eins og mál eru vaxin núna. Rúmlega ein og hálf milljón Palestínumanna búa innan landamæra Ísraels og þá erum við ekki að tala um þá sem eru einungis með Jerúsalem skilríki. Hins vegar er ég ekki stjórnmálafræðingur, hef bara dvalist í landinu í samtals níu mánuði og fyrst og fremst er ég ekki Palestínumaður og þar af leiðandi ekki mitt að segja heldur einungis að hlusta á raddir Palestínumanna. Hugmyndin um zíonisma gengur hinsvegar ekki upp, hún elur af sér kynþáttahatur og stuðlar að aðskilnaðarstefnu á svæðinu.

Hvernig var að fylgjast með umræðunni þegar þú varst sjálf úti í sumar?

Þegar árásirnar á Gaza voru í gangi í sumar þótti mér verst allt þetta tal um frið. Hvernig eigum við að ná friði þegar þjóð hernemur aðra þjóð, kúgar og beitir þegna hennar ofbeldi? Daglega kúgunin gleymist svo oft í umræðunni um Palestínu en þarna ríkir aðskilnaðarstefna, kerfisbundin hreinsun á þjóðflokki og hefur það átt sér stað í áratugi. Það er engin Palestína á kortum frá mörgum löndum í Evrópu, Palestínumenn á Gaza búa í stærsta fangelsi í heimi og annar aðili ber allt vald. Manni finnst þetta vera svo flókið en í raun er þetta einfalt: Mannréttindabrot sem eiga sér stað á hverjum degi og hafa fengið að viðgangast allt of lengi.

Ég hef voðalega lítið dvalist í Ísrael þó ég hafi auðvitað verið á nokkrum svæðum og á ísraelska vini sem eru algjörlega andsnúnir hernáminu og það sem mikilvægast er; átta sig á rót vandans. Mér finnst það hljóma sterkt í umræðunni þegar Ísraelar og gyðingar mótmæla. Sjálfri fannst mér aldrei stoða að tala við landtökufólk í Hebron, því það er það öfgafyllsta af öfgafólki. Í hvert sinn sem maður talaði við það var maður kallaður nasisti því þau eru alltaf í vörn. Auðvitað reyndi maður nokkrum sinnum en sjálfsmynd þeirra snýst mikið um helförina og uppruna þeirra sem gyðingar. Þess vegna skilur landtökufólk oft ekki þegar gyðingar koma og vinna með ISM sem gerist ansi oft þar sem það er erfitt að kalla manneskju sem er sjálf gyðingur, gyðingahatara. Það er ótrúleg firring að vera kallaður nasisti af manneskju á meðan hún er að ráðast á Palestínumann.

Fyrir um það bil mánuði keyrði ísraelskur landtökumaður á fimm ára stelpu, Einas Khalil, á Vesturbakkanum. Það gerist að vísu aftur og aftur að keyrt sé á Palestínumenn á Vesturbakkanum en það er önnur saga. Stelpan lést og landtökumaðurinn keyrði bara heim til sín. Viku síðar keyrði Palestínumaður yfir ungabarn í Jerúsalem. Ekki nóg með að hann væri skotinn á staðnum heldur var hús fjölskyldu hans sprengt í loft upp. Auðvitað voru báðir hlutir jafn skelfilegir, það dóu tvö börn, en Ísraelar grípa þarna til refsiaðgerðar sem heitir á ensku „collective punishment“ Þar sem mörgum er refsað fyrir glæp eins manns. Þetta er tækni sem Ísraelsher nota aftur og aftur og ég sá það með eigin augum. „collective punishment“ er stríðsglæpur.

Þegar ofbeldi frá hernum verður meira fjölgar mótmælum Palestínumanna og það kallar á fleiri átök þar sem palestínskir strákar kasta steinum að eftirlitsstöðvum og hermennirnir í rauninni bara skjóta alla. Ég myndi ekki kalla þetta vítahring af ofbeldi því það gefur til kynna að þarna sé eitthvert valdajafnvægi, sem er ekki rétt. Hvað eru steinar í áttina að hermönnum, sem staðsettir eru inni á landi bæjar þíns, á móti byssukúlum, táragasi, gúmmíhúðum stálkúlum og öðrum vopnum sem vel geta drepið?

„Daglega kúgunin gleymist svo oft í umræðunni um Palestínu en þarna ríkir aðskilnaðarstefna, kerfisbundin hreinsun á þjóðflokki og hefur það átt sér stað í áratugi.“

Hvaða skilaboð tekur maður heim með sér eftir svona dvöl?

Mér finnst ágætt að geta sagt fólki hvað ég var að gera úti því mér þykir mikilvægt að senda fólk út á vegum félagsins Ísland-Palestína svo það sjái hvað er að gerast. Og ef þú vilt ekki vera sjálfboðaliði eða vinna með ISM þá hjálpar líka að ferðast um og koma gjaldeyri inn í landið, kaupa djús af kaupmanninum á horninu og versla í Betlehem. Betlehem ætti að vera mjög mikil auðlind fyrir Palestínumenn en eins og er stjórna Ísraelsmenn túristaflæðinu með miklum áróðri um svæðið.

En það er líka mikilvægt að fólk fókuseri ekki á mig, því þetta er ekki mín saga. Ég fór þangað í sex mánuði - frábært - en svo fer ég bara heim til mín og lifi hér í öryggi og tiltölulega frjáls, eða eins frjáls og maður getur verið í nútíma samfélagi. En Palestínumenn hafa búið þarna alla ævi og þau geta ekkert farið. Það er mjög mikilvægt að sjálfboðaliðar muni að þetta er ekki þín saga. Þetta snýst ekki um þig, þú ert ekki aðalatriðið. Þetta er saga Palestínumanna og það er þitt hlutverk að koma röddum þeirra áleiðis.

Myndir og myndbönd frá Palestínu í greininni eru teknar af Bryndísi Silju sjálfri