Marta Heiðarsdóttir

Endaði á að velja skólann með flottustu vefsíðuna.

Margir Íslendingar fara út fyrir landsteinana í leit að námi og nýjum tækifærum. Marta Heiðarsdóttir er 21 árs fatahönnunarnemi í Designskolen Kolding, Danmörku. Ég hitti hana í Kolding og við spjölluðum saman um námið og veruna í Danmörku. 

Hvernig byrjaði þessi stefna í átt að fatahönnun?

Fatahönnun? Vá. Ókei. Ég byrjaði þegar ég var á þriðja ári í MH. Þá ákváðum við vinkonurnar að taka pásu frá náminu. Ég ákvað, því ég hafði alltaf verið að sauma og gera eitthvað í höndunum, að sjá hvað þetta væri. Draumurinn var að fara til Þýskalands, svo ég byrjaði að leita að skólum þar. Bara svona lýðháskóla. Ég vissi af þessari pælingu í Danmörku en mig langaði ekkert þangað, það var of týpískt. Maður var náttúrulega í MH. En mér tókst ekki að finna neitt í Þýskalandi og skoðaði því skóla í Noregi. En þar var bara eins árs nám. Þá byrjaði ég að leita í Danmörku! Googlaði bara einhverja skóla og fann tvo og endaði á að velja skólann með flottari vefsíðuna. Den Skandinaviske Designhøjskole heitir hann.

Hvaðan kemur hrifning þín af reipum?

Þetta byrjaði á því að ég gerði hálsmen handa systur minni í afmælisgjöf. Hún er ótrúlega mikið í klifri svo ég keypti alls konar reipi og bönd fyrir hálsmenið. Hún fílaði það mjög vel og eitt leiddi af öðru. Sumarið 2012 fór ég á Hróarskeldu og byrjaði á því að klippa tjaldreipi af tjöldum sem fólk hafði skilið eftir. Ég gerði hálsmen úr þessum böndum og seldi í MH. Það var gaman að segja frá því að þetta voru bönd sem ég stal á Hróarskeldu. Svo ákvað ég að taka þetta lengra og gera þetta að verkefni í skólanum. Ég skoðaði klifur og hvernig maður hnýtir mismunandi hnúta, í mismunandi stærðum, og hvernig það fellur að líkamsforminu. Það benti til þess að ég er meira fyrir fatahönnun en textíl, því mér finnst svo skemmtilegt að leika með form.

Það eru svo ótrúlega margir Íslendingar sem gera þetta. Koma til Danmerkur til að gera eitt eða annað. Af hverju heldurðu að það sé?

Ég sótti einnig um í Listaháskólanum heima og komst inn, en var jafnframt alltaf að bíða eftir að komast inn hér. Ef ég hefði ekki komist inn hér, þá byggi ég heima hjá foreldrum mínum því það er ekki hægt að leigja í Reykjavík. Maður hefur alltaf verið í Reykjavík og þekkir borgina inn og út og því er hætta á ákveðinni stöðnun þar. Ég tek það fram að það er samt alltaf gott að koma heim; maður saknar náttúrunnar og þess að fara í sund.

Ég hef oft velt fyrir mér, hvort það að koma til Danmerkur, hafi verið of auðvelt. Kannski aðeins of stutt skref frá Íslandi?

Já, þetta er ekki auðvelt en maður er miklu betur staddur en margir aðrir sem hingað flytja. Bara það að geta bjargað sér á dönsku gerir manni kleift að vera partur af einhverju. En maður þarf samt að leggja á sig að læra hana! Þegar ég var í lýðháskólanum gat ég ekki talað neina dönsku og var lélegur dönskunemandi. Allir töluðu því við mig á ensku. Ég veit um Íslendinga sem eru búnir að vera hérna í fimm ár og tala enn þá bara ensku. Ég skil það ekki.

En núna er mikið í umræðunni pælingar um stöðu konunnar, stereótýpur kynjanna og önnur vitundavakning um kynin. Ég velti því fyrir mér hvernig þú finnur fyrir því lærandi fatahönnun og búandi í Danmörku?

Í fyrsta lagi þá finnst mér ég finna meira fyrir því heima. Ég finn eiginlega ekkert fyrir því hjá vinum mínum hérna. Mér finnst það pínu hræðilegt. Ég veit ekki af hverju það er meira heima. Það er mjög mikið í gangi þar sem betur fer en það vantar ótrúlega mikið hérna.

Kannski er ágætt dæmi um þetta þegar við vorum að sauma á módel í skólanum. Mér fannst margt skrítið í kringum það en maður fékk að vita að svona væri þetta bara. Við áttum að gera buxur eftir sniði 38. Svo við áttum að finna módel sem var næst því að passa í lítið 38, sem er eiginlega 36. Þá var kennarinn okkar að segja að við þyrftum að byrja að finna sem minnstu módelin sem passa í 36, því það eru yngstu stelpurnar sem eru ódýrari og jafnframt smærri. Svo seinna gæti maður leyft sér að fara yfir í 38. Ég veit ekki alveg hvernig hún var að meina þetta en ég staldraði við þetta. Maður þarf bara að vera meðvitaður um þetta og spá í hvort maður vilji vera partur af ákveðnum þáttum starfsumhverfisins. En ég er alltaf að læra að þetta snýst ekki alltaf um að hanna flík. Þetta snýst um svo margt. Eins og verkefnið mitt í Afríku.

Já, þið fóruð til Afríku. Hvernig atvikaðist það?

Við fórum til Zanzibar, 16 krakkar úr skólanum. Vanalega er farið til Ghana á öðru ári en það var ekki hægt útaf ebólu faraldrinum, því varð Zanzibar fyrir valinu.

Þið unnuð að verkefni þarna úti?

Já, við vorum fjögur saman í hópi og veltum fyrir okkur hvernig við gætum fundið út sjálfsmynd fólks í Zanzibar, hvernig þau hugsa um sig og upplifa sig sem menn, en án þess að spyrja beint, heldur með öðrum aðferðum. Upplýsingasöfnunin snerist um hvað þau af eigin frumkvæði vildu segja okkur.

Þetta var ótrúlega gaman því maður var bara að reyna að komast að öllu án þess að lita það með sinni eigin sýn. Íslamstrú mótar til dæmis allt samfélagið. Konurnar eru bara heima, alveg þaktar í fötum þrátt fyrir hitann og stelpur mega ekki vinna. En þau töluðu ekki um það. Þau töluðu mikið um skólann og að allt þurfi að gerast á sinn hátt. Ég pældi mikið í kynjamisrétti en það var ekki eitthvað sem þau voru að tala um. Verkefnið snerist um að finna út þeirra sjálfsmynd út frá því sem þau upplifa. Þannig að þótt við sæjum fullt af vandamálum þá unnum við bara út frá því sem þau vildu tala um. Þau sáu ekki endilega það sem ég sá. Maður lærði sjúklega mikið af þessu.Við fengum að vita af ótrúlegum vandamálum í skólakerfinu á Zanzibar, þessari eyju út frá Tanzaníu. Öll hærri atvinna á eyjunni er unnin af fólki frá meginlandinu og þar með fólki sem hefur fengið menntun þaðan. Fólk sem kemur frá eyjunni vinnur aðallega við fisk og landbúnað. Það hefur ekki aðra möguleika. Þú vinnur við það sem pabbi þinn gerir og stelpurnar vinna ekki því þær bíða eftir að vera giftar. Þau þrá hins vegar sjálfstæði og hærri status sem er nátengt betri menntunarmöguleikum. Fólk frá meginlandinu sagði okkur á hinn bóginn að það myndi aldrei gerast. 

Loka rannsóknarspurningin okka þróaðist smám saman, eða frá því að einblína bara á menntakerfið, yfir í að skoða tengsl skóla og heimilis og á endanum yfir í það hvernig börn upplifa sig ekki sem einstaklinga. Þau hafa enga einstaklingsmeðvitund ef svo á segja. Þau vita ekki að þau eru góð í einhverju, því þau vita hreinlega ekki að það er hægt að vera góður í einhverju. Spurningin okkar varð því á endanum: Hvað getum við skapað til að hjálpa skólabarni að átta sig á eigin hæfileikum og sjálfi? Við notuðum kókoshnetuskeljar. Á þær skrifuðum við á Swahili alls konar hluti sem maður getur verið góður í. Undir hverri kókoshnetuskel voru kuðungar í mismunandi litum. Börnin gátu valið 5 hluti sem þau voru góð í og sótt kuðung undir þeim kókoshnetuskeljum. Svo voru kuðungarnir festir saman á þráð. Þá fékk hvert og eitt barn sinn þráð af kuðungum sem var ólíkur þráðum hinna.

Hvernig myndirðu skilja fatahönnun frá annarri hönnun?

Munurinn á minni deild og öðrum er kannski sá að í hönnun erum við að reyna að finna „vandamál“ og síðan lausnina. Í grafík eða vöruhönnun finnst lausnin. En ekki í fatahönnun, þar er verið að greina og safna upplýsingum til að fá innblástur. Hér er innblásturinn minn og hér er niðurstaðan sem er ekki endilega að hjálpa vandamálinu. Svo er auðvitað það mikilvægasta að maður vinni alltaf út frá sjálfum sér og við vinnum mismunandi. Við hugsum öll á ólíkan hátt.

Það er svo mismunandi hvar í hönnunarferlinu maður finnur sig. Og við höfum þurft að skoða það mjög mikið í skólanum. Ég komst að því að mér finnst skemmtilegast að vera á þeim stað í ferlinu þar sem maður er að safna upplýsingum og rannsaka. Það var áfangi í skólanum sem snerist eiginlega bara um það; að hugleiða hvernig maður sjálfur vinnur. Heil vika fór til dæmis bara í að tala um sjálfan sig og vera í hópi. Sem var svolítið mikið, en að lokum fann maður hvernig maður græddi á þessu. Maður var að finna út hvar maður vinnur best, líta á verkefni hjá sér og sjá hvar manni gekk vel og hvar manni gekk verr. Það var líka gott að átta sig á því að allir eiga sína styrkleika og veikleika. Þó það sé erfitt að tala um hlutina þá er það líka gott. Við Íslendingar kunnum að loka svo mikið á. Við erum svo köld.