Jökull og Stína

Skyldurækin ræðir um réttindi ungs fólks á vinnumarkaði.

Flest ungmenni á Íslandi byrja að vinna á grunnskólaaldri eða langt á undan sínum jafnöldum víðast hvar í nágrannalöndunum. Margir á þessum aldri líta á vinnuna sem tímabundna og einungis til þess fallna að þyngja budduna. Eftirspurnin eftir sumarvinnu eða hlutastarfi er stundum svo mikil að ungt fólk er tilbúið að taka að sé hvað sem er; jafnvel þótt brotið sé á því hvað varðar laun, vinnutíma, matarhlé og vinnukröfur. Ungt fólk áttar sig hins vegar ekki alltaf á þessum brotum vegna reynsluleysis og vanþekkingar á vinnumarkaðnum.

Stína og Jökull Smári hafa unnið í sumar hjá Hinu Húsinu við að fræða ungmenni á vinnustöðum borgarinnar. Það er í fyrsta sinn sem slík fræðsla fer fram á vegum hússins. Þau segja að ungmenni skorti oft þor og burði til þess að fá sínu framgengt. Við fengum að heyra reynslusögur þeirra og viðbrögð frá sumrinu en þau voru á einu máli um að meiri vitundarvakning verði að eiga sér stað.

Hvernig hefur gengið að fræða?

Stína: Á heildina litið hefur það gengið mjög vel. Fólk hefur mismikinn áhuga. Þetta er náttúrlega ekki mjög „sexí“ viðfangsefni.

Jökull: Við lögðum áherslu á að finna leið til að nálgast efnið á eins skemmtilegan hátt og mögulegt er. Flestir þekkja ekkert til réttar síns á vinnumarkaðnum og þar af leiðandi er hætta á því að brotið verði á þeim.

Stína: Það sem við lögðum upp með fyrst og fremst var að gera þau meðvituð, því það er fyrsta skrefið. Við fengum að heyra margar hryllingssögur, úr fyrri störfum, þar sem krakkarnir vissu ekki hvernig átti að bregðast við og hvert þau ættu að leita.

Eigið þið dæmi um hvernig brotið hefur verið á krökkunum?

Stína: Við heyrðum um fyrirtæki þar sem leitað er á öllum starfsmönnum búðarinnar þegar þeir fara heim úr vinnu. Krakkarnir verða að samþykkja þessa skilmála ef þeir ætla að vinna hjá þessu fyrirtæki. Einnig voru mörg dæmi um að brotið væri á vinnutíma krakkanna, þar sem þau voru sum hver að vinna 12 tíma vaktir með aðeins einni 20 mínútna pásu.

Jökull: Við heyrðum líka frásagnir af því að stelpur væru sendar heim af vinnustað því þær væru of mikið málaðar. Þær þyrftu að vera „rétt málaðar“, samkvæmt ákveðnum reglum.

Stína: Einnig eru dæmi um að eigendur verslana fylgist með starfsmönnum sínum í gegnum eftirlitsmyndavélar í búðum sem eru tengdar við síma eigenda eða tölvuskjái. Við heyrðum af eiganda sem hringdi í starfsmann til þess að áminna hann um að borða ekki í vinnunni en hann hafði séð það í gegnum myndavélarnar.

Af hverju haldi þið að krakkarnir láti svona yfir sig ganga?

Jökull: Flest ungt fólk og yfirmenn vita að ef þú mætir og ferð fram á að fá til dæmis ráðningarsamning og launaseðil eða gerir kröfu um að vera ekki á jafnaðarkaupi og fá rétt borgað, þá ertu ekki ráðinn! Því það er fullt af öðrum einstaklingum sem vita minna en þú um réttindi sín og sætta sig við það sem þú sættir þig ekki við. Yfirmenn vita að þessir einstaklingar eru til og leita þá uppi til þess að fá þá í vinnu hjá sér.

„Stína:Það sorglega er að flest þessara krakka halda áfram að vinna á þessum stöðum, sem brjóta á þeim og gera ekki neitt í því.“

Og það þrátt fyrir að vita að þetta er ekki í lagi, að minnsta kosti þau sem við töluðum við. Þar ræður fyrst og fremst óttinn við að missa vinnuna. Þau vilja vinna og vantar pening. Það er ógeðslega erfitt að vera sá sem er með vesenið, því þetta er svo rótgróið í okkar vinnumarkaðsmenningu. Við spjölluðum stundum við krakkana eftir formlega fræðslu og hvöttum þau til að hafa samband við okkur. En enginn hefur leitað til okkar. Ekki einn einasti.

Af hverju haldi þið að krakkar eigi erfitt með að sækja rétt sinn hvað varðar laun?

Stína: Peningar eru rosalega mikið feimnismál á Íslandi. Það er mjög skrítinn mórall í kringum laun almennt. Þetta er hálfgert tabú umræðuefni. Ég upplifi það að fólk er feimið við að spyrja náungann hvað hann sé með í laun. Það er vandamálið. Krökkum er ekki kennt að vera meðvituð um peninga nógu snemma og hvernig eigi að fara með þá.

Jökull: Margir þora til dæmis ekki að spyrja vinnuveitendur í upphafi hvað þeir eigi að fá í tímakaup. Ég hef til dæmis aldrei spurt í atvinnuviðtali um laun. Það á maður hins vegar auðvitað að gera og fá að vita áður en maður ræður sig í vinnu. Það tíðkast ekki lengur á Íslandi að skrifað sé undir ráðningarsamning á vinnustöðum fyrir ungt fólk þar sem launin koma fram á blaði.

Stína: Það var algengt viðhorf hjá krökkunum að ef þau myndu biðja um ráðningasamning þá fengju þau ekki vinnuna. Þau vissu heldur mörg ekki að þau ættu rétt á því að skrifa undir samning og hafa ekki þorað að spyrja um hann.

Hvernig haldiði að þetta hafi áhrif á krakka til lengri tíma litið?

Stína: Þetta lækkar óhjákvæmilega viðmiðin. Ef þú hefur bara kynnst því að vera á of lágum launum og sættir þig við hvað sem er, þá hefur það áhrif á viðhorfið til vinnu og launa þegar þú verður fullorðinn. Það hefur í för með sér að fólk sættir sig við minna. Ábyrgðin liggur nefnilega, eins glatað og það hljómar, hjá manni sjálfum. Yfirmenn eiga auðveldara með að halda áfram í sama farinu, ef maður er ekki vakandi fyrir réttindum sínum.

Mikið er um að krakkar vinni launalausar prufuvaktir, hvað finnst ykkur um það?

Jökull: Þetta tíðkast meira og meira á veitingastöðum og í búðum. Við heyrðum frá ASÍ að það tíðkaðist til dæmis í verslunum rétt fyrir jól þegar álagið er mikið. Þá hentaði þeim vel að fá frían starfskraft.

Stína: Það þarf að verða vitundarvakning. Það má ekki hafa launalausan prufutíma. Það á að borga fyrir alla vinnu, sama þótt það séu þrír tímar í einhverri ísbúð. En þetta er vissulega vandamál hjá ungu fólki á Íslandi í dag því prufutímar eru því miður sjaldan greiddir.

Fundu krakkarnir mun á viðhorfi til þeirra eftir kyni?

Stína: Já, ekki spurning. Krakkarnir töluðu stundum um vinnustaði sem ráða til dæmis bara stelpur. Dæmi er um slíkt í ísbúðum eða bakaríum. Sem er mjög skrítið, því kynjaðar ráðningar er furðulegt fyrirbæri. Þau segja að ef umsækjandi á slíkum stöðum sé strákur sé umsókninni strax hent, ekki einu sinni lesin.

Jökull: Ég var til dæmis sjálfboðaliði á Secret Solstice og hvatti vini mína til að sækja um líka. Við strákarnir fengum allir stöðu sem aðstoðamaður sviðstjóra, sem fólst í því að bera hluti. Ég þekkti einnig nokkrar stelpur sem voru að vinna en þær voru allar settar í upplýsingastarf eða í miðasölu. Það voru voða fáir strákar í því.

Stína: Já, stelpur í miðasölu, þar sem starfsmenn sjást. Þar virðast eiga að vera stelpur.

Hvernig finnst ykkur að bæta megi ástandið?

Jökull: Það er á ábyrgð foreldra og skólayfirvalda að kenna krökkunum réttindi sín og skyldur á vinnumarkaðnum. Rétt eins og þegar foreldrar setjast niður með börnum sínum og ræða um býflugurnar og blómið þarf líka að taka þetta fyrir til þess að þau séu upplýst. Þetta er alveg jafn mikilvægt.

„Jökull:Það sorglega er að vinnuveitendur á Íslandi nýta sér oft þessa óvissu ungs fólks og brjóta á þeim og borga þeim minni laun.“

Stína: Það er fáránlegt að fólk verði fyrst meðvitað um réttindi sín eftir að hafa starfað í mörg ár á vinnumarkaði þar sem stöðugt sé verið að brjóta á því. Þannig er staðan í dag. Að þú þurfir að reyna þetta á eigin skinni til þess að fá úr því bætt. Maður á auðvitað að vera mættur, tilbúinn og meðvitaður um réttindi sín þegar maður byrjar að vinna.