Hlaðvarp

Lausnin fyrir „núna“ kynslóðina sem hefur ekki þolinmæði til að bíða eftir tímasettum útvarpsþáttum.

Hlaðvarp, eða „Podcast“ eins og það nefnist á ensku, hefur verið á stöðugri siglingu síðastliðinn áratug. Hlaðvarp er um margt líkt útvarpi en það sem helst skilur það að er að hlaðvarpinu er komið á internetið og því hvorki háð tíma, rúmi né útvarpsbylgjum. Þáttagerðarmenn geta nýtt heim hljóðsins á hvaða hátt sem er og því hægt að finna þætti um allt milli himins og jarðar á internetinu. Orðið Podcast er dregið af tónlistargræjunni iPod, en með tilkomu iPod 4.9 sem kom út í júní 2005 urðu hljóðskrár á borð við hlaðvörp mun aðgengilegri hlustendum. 

Aukin þróun í snjallsímatækni hefur gert það enn notendavænna að hlaða niður og hlusta á hlaðvörp og hefur því þáttagerðafólki sem nýtir sér það og hlustendum fjölgað til muna. Í Bandaríkjunum einum voru hlustendur 39 milljónir í janúar 2014 og var það nýtt met í hlustun. Forbes tímaritið hefur spáð hlaðvarpinu enn meiri vinsældum, með aukinni hlustun af hálfu kvenna og meiri sköpunargleði við notkun vettvangsins. Hægt og bítandi hafa angar hlaðvarpsins teygt sig til Íslands og með stofnun Alvarpsins hefur skapast ágætis vettvangur fyrir íslenskt áhugafólk að hlíða á og gera eigin hlaðvarpsþætti. Við settumst niður með þeim Diljá Ámundadóttur, verkefnastýru og Ragnari Hanssyni, kvikmyndagerðarmanni sem bæði standa á bakvið Alvarpið og ræddum um hlaðvörp, Alvarpið og nýjar neysluhefðir á afþreyingarefni.

Hvernig varð Alvarpið til?

Ragnar: Við vorum þónokkur búin að vera að hlusta á hin og þessi hlaðvörp og vorum komin með hugmyndir að okkar eigin þáttum. Diljá kom inn í þetta því að hún er frábær framkvæmdastýra og dugleg að ganga í verkin. Það var upp úr áramótum sem við fórum fyrst að púsla þessu saman og Alvarpið fór í loftið 1. mars.

Diljá: Strax á fyrsta fundi var gerð þétt aðgerðaráætlun. Við vildum raða niður einum þætti á hvern vikudag og allir þættir skildu vera búnir að taka upp 3-4 hlaðvarpsþætti fyrir 1. mars.

Ragnar: Þannig þurftu allir að sanna sig fyrir opnun. Það er líka mikilvægt að taka upp þætti til þess eins að æfa sig og heyra í sjálfum sér og hugmyndinni. Þá áttar maður sig á því hvað maður er að gefa frá sér áður en því er hlaðið á internetið.

Diljá: Stjórnin gerði auk þess ákveðið „manifesto“ til að geta gripið í ef eitthvað kæmi uppá. Annars er dansgólfið mjög stórt í Alvarpinu, þú hefur mjög frjálsar hendur sem þáttagerðarmaður og ritstýringin er í þínu valdi. Það er ákveðinn stigsmunur á hlaðvarpi og útvarpi, meiri óformleiki þó við pössum okkur á því að halda okkur innan ákveðins siðgæðisramma.

Hvenær byrjið þið sjálf að hlusta á hlaðvörp?

Ragnar: Það er ekkert svakalega langt síðan, svona 2010 kannski. Þá aðallega tengdum handritaskrifum og tölvuleik sem ég var að spila. Fullt af erlendum sjónvarpsþáttum byrjuðu líka sem hlaðvarp svo ég hef stundum farið öfuga átt og kynnst sjónvarpsþættinum fyrst, síðan hlaðvarpinu. Þetta á við um þætti eins og Comedy Bang! Bang! og This American Life auk þess sem Mighty Boosh og Tvíhöfði byrjuðu náttúrulega í útvarpi og fóru þaðan á sjónvarpsskjáinn.

Diljá: Ég fór á „road trip“ með vini mínum um árið og þá hlustuðum við svolítið á This American Life, þá fyrst varð ég meðvitaður hlaðvarpshlustandi. Fyrir það fékk ég stundum sendan einn og einn þátt en gerði mér ekki grein fyrir hlaðvarpinu sem sérstökum vettvangi til tjáningar, skemmtunar og fræðslu. Í sarpinum á RÚV áttaði ég mig á fyrirkomulaginu í kringum þetta og svo hefur Alvarpið alið mig svolítið upp í að vera virkur hlaðvarpshlustandi.

Hvað er það sem heillar ykkur mest við hlaðvarpsvettvanginn?

Diljá: Það sem heillar mig einna mest er þróunin sem hefur verið meira og meira ríkjandi; að við séum að búa til okkar eigin dagskrá. Vinsældir fyrirfram ákveðinnar dagskrárgerðar í sjónvarpi og útvarpi fer hratt mjög dvínandi. RÚV hefur að sjálfsögðu ákveðinn sjarma, eins og þegar klukkurnar hringja inn jólin og af því viljum við ekki missa. En við erum „núna“ kynslóð, óþolinmóð og með athyglisbrest upp til hópa svo því hentar okkur vel að stýra eigin afþreyingarefni og upplýsingaöflun. Í hlaðvarpi getum við náð okkur í þekkingu, skemmtun og innblástur á eigin forsendum og á eigin tíma.

Ragnar: Já, viljinn til að bíða eftir ákveðnum þætti sem er bara sýndur eða útvarpaður klukkan tíu á miðvikudagskvöldum fer dvínandi. Hlaðvörp eru líka öðruvísi að því leyti að þau eru afslappaðra. Það skilar sér í meiri nánd milli þáttagerðarmanneskju og hlustanda.

Eru miklir peningar í hlaðvarpsgerð?

Ragnar: Eins og er er það ástríðan sem keyrir okkur áfram og þannig er það held ég með flest hlaðvörp úti í heimi. En það er vettvangur fyrir auglýsingar í þessu, þar sem hlaðvarpshlustun er mun verðmætari en önnur hlustun. Hlustandinn er ekki að hlusta á efnið af hreinni tilviljun því það er í útvarpinu á meðan keyrt er í vinnuna. Þess í stað leggur hann á sig að sækja hlaðvarpsþáttinn á netinu og að hlusta á hann. Þar af leiðandi eru tvö hundruð hlaðvarpshlustendur mun verðmætari en tvö hundruð útvarpshlustendur.

Diljá: Dyggir hlustendur hlaðvarpa skynja þetta „authentic drive“ sem þáttagerðarmenn hafa. Yfirleitt er enginn yfir þeim og engir peningar í þessu, bara ástríðan og áhuginn. Það er alltaf ákveðin stemning sem skilar sér í hluti sem eru gerðir án peninga. Sköpunargleðin er af allt öðrum toga.

Hvert er uppáhalds hlaðvarpið ykkar?

Ragnar: Ég hef mjög gaman af Nerdist, This American Life og Comedy Bang! Bang!. Comedy Bang! Bang! er skemmtileg blanda af alvöru og rugli þar sem fólk er tekið í viðtöl og í miðju viðtalinu mætir grínkarakter inní. Af íslensku hlaðvarpi á Alvarpinu hef ég síðan mjög gaman af HefnendunumÁstinni og Leigumarkaðnum og Fílalag. Svo er líka ágætt að hlusta á mjög sérhæfða kvikmyndaþætti.

Diljá: Ég hef mikinn áhuga á fólki og því er Áhugavarpið hans Ragnars í miklu uppáhaldi. Svo hef ég líka gaman af því þegar fólk vinnur með frásagnarheiminn og gerir sögur úr hversdagslífinu sem venjulega eru ómerkilegar, merkilegar.

Getur allt verið merkilegt á vettvangi hlaðvarpsins?

Ragnar: Já, oft skiptir meira máli hvernig hlutunum er komið á framfæri frekar en um hvað er verið að fjalla. Ég get tekið Eusebio, fótboltahlaðvarpið á Alvarpinu, sem dæmi. Ég hef voða takmarkaðan áhuga á fótbolta en þeir tala svo skemmtilega að mér finnst þetta frábært og er orðinn mjög forvitinn um sportið.