París Norðursins

Þegar allir eru tilbúnir til að leggjast á eitt og fórna sér fyrir listrænt markmið.

París Norðursins er nýjasta verk þeirra Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, leikstjóra og Huldars Breiðfjörðs, handritshöfundar. Hún var frumsýnd fyrir mánuði á kvikmyndahátíðinni Karlovy Vary í Tékklandi og hefur síðan verið farið með hana til Króatíu og Noregs. Í byrjun september verður hún frumsýnd á Íslandi en í boði er jafnframt að sýna hana á fjölda kvikmyndahátíða um heim allan. París Norðursins var tekin upp á Flateyri á Vestfjörðum í fyrravor og sá Prins Póló um alla tónlist. Titillagið hefur þegar náð toppi vinsældarlistans á Rás2.

Blær settist niður með þeim Hafsteini, Hálfdáni Pedersen leikmyndahönnuði og Helga Björns sem fer með eitt aðalhlutverkanna í myndinni og ræddi gerð myndarinnar, samvinnuna og Flateyri.

Ef við byrjum á þér Helgi, geturðu sagt aðeins frá karakternum þínum?

Helgi: Ég leik ævintýramann sem fór bæði á sjóinn snemma og eignaðist son mjög ungur. Ævintýraþráin leiðir hann víða um heiminn svo hann reynist ekkert sérstaklega ábyrgur faðir og er ekki í miklum samskiptum við börnin sín. Þetta er skemmtileg týpa sem hefur gaman af því að vera til og reynir að finna sér eitthvað skemmtilegt að gera. Hann endar í Tælandi og fer að reka þar bar, er kannski svona léttur alki í sér.
Hafsteinn: Já, hefur gaman af lífinu og þykir gott að gera vel við sig.
Helgi: Hann áttar sig svo á því þegar hann er kominn á ákveðinn aldur að það sem skiptir mestu máli er auðvitað fjölskyldan. Svo hann fer að byggja brýr milli sín og sonarins áður en öllu yfir líkur.
Hafsteinn: Og það er það sem myndin fjallar um. Sonurinn er mjög ólík manngerð hins vegar. Svo þetta fjallar um þessa feðga og hvernig þeir ná saman.

Hvaðan komið þið allir inn í verkefnið?

Hafsteinn: Ég var upphaflega með þessa grunnhugmynd af ferðasögu. Henni gaukaði ég að Huldari Breiðfjörð sem er handritshöfundur og rithöfundur en við höfðum áður gert stuttmynd saman. Huldar kveikti strax á hugmyndinni og hóf vinnu við þetta handrit. Svo leiddi eitt af öðru, við Hálfdán höfðum unnið saman áður en hann gerði leikmyndina fyrir Á annan veg. Það kom eiginlegt ekkert annað til greina en að hafa hann. Og svo hringdi ég í Helga fyrir aðalhlutverkið.

Eruð þið þá saman í því að mynda heildarsýn?

Hálfdán: Það er nú Hafsteins, hann er með stærstu krumlurnar á leirnum en það eru margir sem koma að því líka og leggja sitt fram. Og svo er það hans sem leikstjóri að velja og hafna hugmyndum.
Hafsteinn: Já, maður hefur alltaf grunnsýn en enginn gerir kvikmynd einn, maður gerir það með fullt af fólki. Að vera leikstjóri gengur þar af leiðandi kannski svolítið út á að passa að allir séu að gera sömu myndina, séu á sömu bylgjulengd. Til þess að útkoman verði góð þarf ákveðið andrúmsloft og stemningu sem allir tjúna sig inná.

Hvað kom til að Flateyri varið fyrir valinu?

Hafsteinn: París Norðursins gæti í rauninni gerst í hvaða litla þorpi sem er og Flateyri er rosalega heillandi staður og mjög tímalaus. Þar er myndrænt, náttúran er ofboðslega falleg og bærinn bæði rómantískur en líka niðurníddur. Húsin eru þar að auki í skemmtilega furðulegum pastellitum sem er mikil andstæða við náttúruna í kring. Á Flateyri er andrúmsloftið líka alveg einstakt og þarna er yndislegt að vera. Hálfdán á nú reyndar hús þar og Huldar líka, handritshöfundurinn. Þannig að þetta er staður sem við þekkjum vel. Og Helgi er nú ættaður úr næsta bæ.

Helgi: Þarna myndaðist skemmtilegt vinasamfélag þar sem við áttum líka félaga sem voru að kokka og reka Vagninn sem er stórfrægur veitingastaður á Flateyri.

Hafsteinn: Já, Flateyringar eru ofsalega gott fólk, bæði vinveitt og greiðvikið.

Hálfdán: Maður getur ekki verið annað en þakklátur Flateyringum, án þeirra hefði þetta ekki verið mögulegt.

Hafsteinn: Við gerð kvikmyndar þarf maður líka að hafa góða stjórn á aðstæðum svo það er gott að vinna í svona litlu þorpi. Þarna gátum við haft stjórn á öllu nema veðrinu sem var okkur þó mjög hliðhollt. Það var alltaf rétt, þó það hafi ekki alltaf verið gott.

Helgi: Það var ekki vont heldur.

Hafsteinn: Einmitt. Sagan gerist líka um vor, svo tökum stóð frá lok maí til lok júní. Þar af leiðandi vorum við akkúrat í þessum árstíðaskiptum, sáum snjóinn hörfa úr fjöllunum og náttúruna taka við sér.

Og öll samvinna gekk vel?

Hálfdán: Stemningin var einstaklega góð. Það gerist eiginlega sjálfkrafa þegar maður er í svona litlu samfélagi.

Hafsteinn: Það hjálpar líka mikið við gerð bíómyndar að allir fari úr sínu hversdagslífi í borginni og á einhvern annan stað. Þegar allir eru saman myndast einhver ákveðin orka og stemning sem fólk fer ekki útúr á meðan á tökuferlinu stendur.

Hvernig er vinnan á bakvið gerð leikmyndar?

Hálfdán: Hugmyndin var að reyna að fanga þá stemningu sem víða er til staðar á Flateyri. Rúmu ári áður en tökur hófust fórum við nokkrar ferðir til Flateyrar. Við fórum í göngutúra og tókum hús á fólki, drukkum helvíti mikið af kaffi. Við urðum fljótt skotnir í þeim léttu pasteltónum sem víða er að finna í þorpinu, bæði utandyra og innan. Þar með var rauði þráðurinn fundinn sem við studdumst við í að endurskapa það bragð sem ríkjandi er í þorpinu. Takmarkið var að áhorfandinn ætti ekki að finna fyrir því að myndin sé sérlega stíliseruð þannig.

Allir sem komu að bíómyndinni fengu einnota myndavél til notkunar á meðan á tökuferli stóð. Hver var hugmyndin á bakvið það?

Hálfdán: Vélarnar voru afgangur af verkefni sem ég vann fyrir mörgum árum og snérist um börn. Þá sendi ég öllum leikskólum í öllum bæjar- og sveitarfélögum landsins einnota filmuvélar og fengu öll börn eina vél. Verkefnið tók heilt ár og eru myndirnar fyrir vikið nokkurs konar þverskurður þjóðarinnar. Ég átti þónokkurn afgang af þeim myndavélum og þótti skemmtilegt að gefa öllum á tökustað sama miðilinn, einnota myndavél. Myndirnar eru flottar og við erum að finna út hvað við gerum við þær.

Hvað olli samstarfinu með Prins Póló?

Það kom eiginlega aldrei neitt annað til greina. Við Huldar vorum sammála um að tómlistin hans PP kæmist hvað næst því að fanga tóninn í myndinni sem er fyndinn en tragískur á sama tíma. Svo er líka eitthvað mjög hrátt og einlægt við Prins Póló sem ég tengi mjög mikið við sem listamaður. Svavar Pétur kom svo vestur með restina af bandinu meðan à tökum stóð og hluti af músíkinni varð til í þeirri ferð. Svo vann hann tónlistina áfram samhliða klippiferlinu og það var mjög gjöfult samstarf. Það kæmi mèr ekki á óvart ef við myndum gera fleiri myndir saman.

Hvernig hafa viðtökur kvikmyndarinnar verið hingað til?

Hafsteinn: Viðtökurnar hafa verið voða góðar. París Norðursins hefur ferðast til Tékklands, Króatíu og Noregs og á komandi mánuðum liggur leiðin til Bandaríkjanna, Kanada, Brasilíu, Tyrklands, Litháen, Þýskalands, Frakklands og víðar. Það verður líka mjög gaman að sýna hana hér á Íslandi enda mjög ólíkt því að sýna hana erlendis. Útlendingar sjá íslenskar myndir með mjög exótískum augum því þeir tengja ekki endilega við þau smáatriði og blæbrigði sem eru séríslensk. Ég býst við því að hér heima muni fólk horfa á myndina öðrum augum og því er gaman sjá hvaða viðtökur hún fær hér. Nú er bara að vona að fólk flykkist í bíó...

Helgi: ... og sjái íslenska kvikmyndagerð eins og hún gerist best.