Hjörtur Ingvi

Fjallar um djassinn, tónlistina í Hjaltalín og námið í Amsterdam

Hjörtur Ingvi Jóhannsson lifir tvöföldu lífi. Hann er með annan fótinn í Amsterdam þar sem hann lærir djasspíanóleik við tónlistarskólann Conservatorium van Amsterdam og hinn á Íslandi þar sem hann spilar með hljómsveitinni Hjaltalín. Hann telur þó að álagið sem þessu fylgir sé góður undirbúningur fyrir veruleikann sem bíður hans eftir námið.

Hvað finnst þér einkenna djass?

Djass virkar allt öðruvísi en klassísk tónlist og popp. Í klassíkinni spilar maður verk og túlkar en í poppi er maður að búa til eitthvað sjálfur. Djassinn er ákveðið millistig af þessu tvennu, þar sem maður t.d. tekur þekkt lag en gefur því sinn eigin blæ og reynir að fanga augnablikið. Maður spilar aldrei það sama í dag og á morgun, það er sjarminn.

Okkar kynslóð hefur oft minni áhuga á djassi og klassík, afhverju heldurðu að það sé?

Djass og klassísk tónlist kemur ekki til þín á einu augabragði. Þetta er ekki eins og að fá sér McDonalds, þvert á móti, þú þarf að leggja smá vinnu og ástríðu í að kunna að meta tónlistina. Ég held að fólk af okkar kynslóð hlusti oft á tónlist sem grípur það strax. Það getur verið mjög flott tónlist og í rauninni ekkert að því en ef maður er tilbúinn til að gefa sér tíma og grafa aðeins dýpra þá er svo ótrúlega margt sem bíður manns. Djassinn er kannski eitthvað sem maður kveikir ekki á strax, það skiptir máli að kynna sér söguna og hvernig hann varð til. Það þarf heldur ekki að horfa á djassinn eins og einhver fræðimaður. Oft getur maður upplifað tónlist ansi djúpt bara með því að hlusta.

Hvað finnst þér gott við námið hér úti sem mætti bæta heima?

Hér í Amsterdam eru mjög sniðugir fyrirlestrar um hagnýta hluti sem vantar oft í tónlistarnám heima á Íslandi, til dæmis um það hvernig þú átt að hefja ferilinn þinn, hvernig þú ætlar að auglýsa þig og gera vefsíðu. Ég held að það sé algengt að fólk brautskráist úr tónlistarskóla sem frábærir hljóðfæraleikarar en viti ekki hvernig það eigi halda utan um ferilinn.

Skólinn býður auk þess upp á ólíkar leiðir og frjálst val og samstarfið á milli deilda er mikið. Þrátt fyrir að vera í djasspíanónámi er ég mjög klassískt sinnaður og langar til að semja tónlist. Á öðru ári tók ég fornám í tónsmíðum og hef verið að taka tíma í frjálsu vali í „klassískri theóríu.“ Ég nýti mér það í því sem ég er að fást við og langar að einbeita mér meira að tónsmíðum eftir námið.

„Maður þarf samt að passa sig, því mismunandi stílar þurfa ekki endilega að fara vel saman. Alveg eins og ítalskur matur og kínverskur matur eru góðir einir og sér en ekki ef maður blandar báðum réttunum saman.“

Hefur þú einhvern áhuga á bæta við djassinum í Hjaltalín?

Tónlistarnámið hefur auðvitað ómeðvituð áhrif og ég mótast af því sem ég læri hér, rétt eins og af klassíkinni sem ég er einnig að fást við. Maður þarf samt að passa sig, því mismunandi stílar þurfa ekki endilega að fara vel saman. Alveg eins og ítalskur matur og kínverskur matur eru góðir einir og sér en ekki ef maður blandar báðum réttunum saman. Versta tónlistin að mínu viti er þegar reynt er að blanda einhverju saman, bara til að taka eitthvað og henda því saman.

Plöturnar ykkar í Hjaltalín eru mjög ólíkar, hvernig myndir þú lýsa tónlistinni ykkar?

Já, þær eru allar mjög ólíkar, annars vegar ólíkt uppbyggðar innbyrðis og hins vegar milli platna. Til dæmis er nýja platan Enter 4 lang heilsteyptasta platan á meðan Terminal fer í allar áttir. En er það ekki svolítið gaman líka að geta ekki skilgreint hvernig tónlist við semjum? Það þarf ekki alltaf að setja tónlist í ákveðið box. Mér finnst einmitt svo skemmtilegt við tónlistina í dag hvað ólíkir hlutir eru í gangi sem erfitt er að skilgreina. Það eru bara fræðimenn sem skilgreina, en tónlistarmenn eru að reyna að koma með eitthvað áhugavert.

Björk er gott dæmi um slíkan tónlistarmann. Allt sem hún gerir hljómar eins og hún, samt getur það verið mjög mismunandi. Þetta er kannski ekki spurning um hennar stíl heldur frekar vinnuaðferð, hvernig hún gerir tónlist og hvaða hugarfar hún hefur.

Hvernig finnst ykkur þá best að vinna efnið?

Við í Hjaltalín reynum að hugsa út fyrir nóturnar. Það skiptir máli að horfa á lagið sem eina heild. Tónlist getur kallað fram lykt, myndir eða einhvern „fíling“ sem getur gert svo mikið. Tónlist er nefnilega svo miklu meira en bara tónlist. Ef þú heyrir eitthvað lag getur það kallað fram ákveðnar tilfinningar.

„Umboðsmaðurinn okkar Steinþór Helgi tekur virkan þátt í að hlusta á efnið okkar þegar við erum að semja. Það er alltaf svo gaman að fá hans álit, því hann er ekki læs á tónlist að því leyti að hann veit ekkert hvað er C-dúr og A-moll. Hann heyrir bara „fílinginn“ í laginu sem er náttúrlega mikilvægast.“

Stundum saknar maður þess að geta hlustað á tónlist án þess að heyra nokkuð nema tónlistina. Líkt og þegar maður heyrir tungumál sem maður kann ekki en heyrir bara hljóminn. Ef þú skilur tungumálið þá ferðu alltaf að hugsa hvað það þýðir sem viðkomandi er að segja.

Hefurðu verið að skoða tónlist frá öðrum heimshornum?

Já, það er einmitt það nýjasta hjá mér. Ég var svo heppinn að ég fór með Ingrid kærustunni minni sem var að spila með Sigur Rós á víólu, í frí til Balí í viku. Þar kynntist ég Gamelan tónlist sem er hrífandi, ólík öllu öðru og fullkomin á sinn hátt. Það opnaði svolítið inn á annan heim.

„Fólk byrjar oft á því að afmarka smekk sinn með því að leita kannski aðeins eftir einni, fallegri rödd, grípandi melódíu eða flottum takti, en tónlist hefur upp á svo margt að bjóða og maður er að neita sér um svo mikla ánægju ef maður afmarkar smekk sinn.“

Mér finnst mikilvægt að kynna mér svona tónlist og dreymir um að ferðast til Afríku og Mið-Austurlanda og skoða þær hefðir sem eru í gangi þar. Möguleikarnir eru óteljandi, til dæmis endalaust af hljóðfærum sem hægt er að nýta sér. Við höldum alltaf að allt sem við gerum sé hið eina rétta en það er ekkert endilega þannig. Tónlistin getur haft mismunandi tilgang fyrir fólk, til dæmis fyrir einhvers konar athafnir eða til að reka burt illa anda. Það er mjög mikið til af áhugaverðri tónlist, en maður þarf að hafa fyrir því að leita.

Hvert er þitt álit á því að tónlistamenn gefi út efnið sitt frítt á netinu?

Plötur í dag eru að verða svolítið eins og nafnspjöld. Þú gefur eitthvað út frítt og kemur þér þannig á framfæri en tekjurnar koma inn öðruvísi. Frægt dæmi er þegar Radiohead gáfu út plötu frítt á netinu fyrir nokkrum árum. Þeir voru reyndar heimsfrægir en með því að fara þessa leið varð dreifingin margfalt meiri. Einhver smá hluti keypti plötuna en jafnvel þó að sá hluti hefði aðeins verið 1% af öllum þeim sem niðurhöluðu plötunni, þá var þetta eina prósent jafnvel meira en 100% af þeim sem hefðu keypt hana ef hún hefði ekki verið aðgengileg ókeypis.

En ég er samt svolítið af gamla skólanum að því leyti að mér finnst að hugverkaréttur eigi að vera mjög skýrt skilgreindur. Að mínu viti verða að vera einhver réttindi. Ef einhver eyðir peningum í að skapa eitthvað á hann að hafa réttinn til þess að stjórna því hvernig viðskiptin með vöruna fara fram.

Hvað er framundan?

Við erum að fara að taka upp nýtt efni í Hjaltalín og ég er að fara að vinna í eigin sólóefni. Ingrid kærasta mín heldur fiðlutónleika í Sigurjónssafni 8. júlí þar sem ég er að gera útsetningu fyrir píanó og fiðlu á lagi eftir djasspíanóleikarann Bill Evans. Svo er ég bara að fara að njóta sumarsins heima. Þetta hefur verið krefjandi og mikið að gera á öllum vígstöðvum. Mig langar að taka 10 daga heima þar sem ég geri ekki neitt og hugsa ekki neitt um tónlist. Kannski ég loki mig bara af uppi á hálendi.