Egg í áskrift
Heimsókn til Júlíusar bónda á Þykkvabæ sem býður fólki að fóstra hænur og fá egg í áskrift
Júlíus Már bóndi á Þykkvabæ hefur tileinkað lífi sínu því að varðveita stofn íslensku landnámshænunnar. Júlíus er bóndi til margra ára en hefur unnið að uppbyggingu búsins á Þykkvabæ eftir skæðan bruna á gamla bænum sínum á Tjörn í Vatnsnesi. Þar fórust á þriðja hundrað landnámshænur og þurfti Júlíus að yfirgefa bæinn í kjölfarið eftir að landbúnaðarráðuneytið úthlutaði lóðinni annað. Áður tókst honum þó að bjarga um hundrað eggjum frá bruna og koma þeim fyrir í útungunarvél nágrannans. Tíu hanar lifðu af sem voru staðsettir í öðru húsi en hænurnar. Þannig varðveittist stofninn og varð að þeim 230 hænum og sem hann er í dag. Júlíus var ákveðinn í að halda ótrauður áfram; rækta stofninn og dreifa honum í borgir og bæi. Til þess er Júlíus með opið bú þar sem öllum gefst færi á að sjá fuglinn í sínu rétta umhverfi, fræðast um hann og vonandi heillast. Öllum stendur auk þess til boða að kaupa sér hænu eða egg, leigja hænu eða taka í fóstur. Starfsemin á Þykkvabæ er rekin af ástríðu og einskærri væntumþykju til stofns íslensku landnámshænunnar.
Júlíus tók á móti okkur umkringdur skrautlegum hænum á túnfæti bæjarins eftir að við höfðum tekið nokkrar rangar beygjur og átt við hann misheppnuð símtöl þar sem hann reyndi að vísa okkur til vegar. Lítið var um spjall fyrst um sinn þar sem hænurnar sáu alfarið um masið. Gríðarlegt líf og fjör einkennir þessa litprúðu fugla sem ganga frjálsir um túnið.
Aðspurður hvort hann eigi sér einhverja uppáhalds hænu segir Júlíus þær allar vera frábærar á sinn hátt. Hver hafi sinn karakter. Flestar eiga þær sér nafn en sjálfur heldur hann á Dröfn, afar rólegri kelirófu. Júlíus segir landnámshænurnar gjörólíkar þeim hefðbundnu verksmiðjuhænum sem kallist „ítalinn“. Landnámshænan er hörð af sér, segir hann og með mikla sjálfsbjargarviðleitni. Hún sé auk þess litrík, skapmikil og verpi mun gómsætari eggjum.
„Hérna fær landnámshænan að vaxa og dafna en hún getur orðið allt að sjö ára gömul. Verksmiðjufuglinn fær hins vegar aðeins að lifa í tvö ár innilokaður í búri. Þar eru þær margar saman án þess að sjá nokkurn tímann dagsljós. Þær eru keyrðar út og síðan lógað. Húsin eru sótthreinsuð og nýjar hænur keyptar í staðinn.“
„Þetta er víst það sem markaðurinn vildi. Fleiri egg, meira kjöt og það ódýrt.“
Starfsemin á Þykkvabæ hefur blómstrað síðustu ár en Júlíus er kominn með um sextíu áskrifendur eða fósturforeldra. Með því að gerast fósturforeldri landnámshænu ertu að styðja við ræktun stofnsins. „Frá hænunni færðu um 20 egg á mánuði yfir tveggja ára tímabil sem þú getur sótt í frú Laugu eða samkvæmt öðru samkomulagi við mig. Alltaf má heimsækja hænuna, sjá hvernig hún býr, halda á henni og verja tíma með henni. Að taka hænu í fóstur kostar 25 þúsund krónur en laun tek ég engin og sé um hænuna sem mína eigin. Ég sendi út fréttatilkynningar og hver veit nema hænan sendi þér jólakort.“
Júlíus segir að það sé stöðugt að aukast að fólk hafi hænur við heimili sitt í borginni. Það eina sem þær þurfi sé kofi, ílát og ást. „Það er svipað að halda hænu og að halda kött. Þú kemst auðveldlega í burtu í nokkra dag ef skilið er eftir nóg af fóðri.“ Hjá Júlíusi fást daggamlir ungar á aðeins þúsund krónur stykkið. Verðið er lágt, segir hann vegna þess hversu neðarlega hænur séu í virðingarstiganum. „Áður fyrr áttu húsfreyjurnar hænurnar og sáu um þær. Drengjum í sveitum þótti hins vegar niðrandi að vera beðnir um að fara út í hænsnakofa til að tína egg. Það var skýr kynjaskipting á bæjum og viðhorf sem ríkja að vissu leyti enn þann dag í dag. Því er hænan ekki metin meira en þetta.“
Fyrir þá sem eru ekki tilbúnir til að fjárfesta í hænunni stendur til boða að leigja hænur yfir lengri eða skemmri tíma. „Þetta gerði ég í raun til þess að kynna fuglinn og ná betri dreifingu á honum. Ef þú síðan kemst að því að þetta er ekki fyrir þig eða þú sérð ekki fram á að framfleyta fuglinum lengur þá rennur leigusamningurinn út og hænan kemur aftur til mín.“
Júlíus segir eggin frá landnámshænunni vera lífræn með rauðu sem líkist mandarínu á litinn. Bragðið sé auk þess mun sterkara og fyllra en af hefðbundnu eggi. „Þegar landnámshænan er í fullu varpi skilar hún frá sér eggi á dag, ellefu mánuði ársins. Einn mánuð notar hún til þess að skipta um fiður. Þær byrja yfirleitt að verpa um 5-6 mánaða gamlar og verpa ljómandi vel þar til þær eru orðnar þriggja ára en þá fer aðeins að hægja á. Engin hér er eldri en fjögurra ára svo þær klifra flestar upp í hólfin daglega og verpa.“
„Skemmtilegt er að fylgjast með því hvaða hólf eru vinsælust hjá þeim. Stundum safnast fyrir 15 egg í einu hólfi á meðan hólfið við hliðina á stendur autt, alveg merkilegt.“
Á Þykkvabæ fá fuglarnir lífrænt fóður en Júlíus segir þær vera alætur. „Þær ganga svo langt að borða hver aðra. Ef ein ferst um nóttina þá eru inneflin toguð úr henni og étin. Það er ekki falleg sjón svona á morgnana. Það má segja að hænsnin séu lifandi endurvinnslur en hægt er að gefa þeim alla afganga frá heimilinu; kartöflur, grænmeti og ávexti. Dritið þeirra er síðan hinn besti áburður sem selst dýrum dómum.“ Á veturna segist Júlíus gæta þess að gefa þeim lýsi og vítamín. „Þessar eru hörkutól og fara út í hvaða veðri sem er. Landnámshænan lætur ekki veður- og fóðurbreytingar hafa áhrif á sig ólíkt verksmiðjufuglinum.“
Yfir kaffi og súkkulaði sammælumst við gestirnir um að okkur vanti fleiri hænur í líf okkar. Eftir að hafa komið í heimsókn og fræðst um þessa ágætu fugla er alls ekki svo fráleitt að stofna til bús í bakgarðinum. Þá er hægt að leigja nokkrar hjá Júlíusi og sjá síðan til. Það er ekki hægt annað en að dást að ástríðu bóndans og smitast af hrifningu hans á landnámshænunni. „Móttóið okkar hérna er: Fallegir og heilbrigðir fuglar, góður og stoltur ræktandi og ekki síst hamingjusamur kaupandi,“ segir bóndinn að lokum.