Improv: Haraldurinn
Haraldurinn – gamansýning spunnin á staðnum út frá einu orði.
Sandra og Guðmundur ræða nýja stefnu í spunaleikhúsi sem er að ryðja sér til rúms á Íslandi. Út frá einu orði úr sal býr leikhópurinn til hálftíma gamansýningu á staðnum. Ekkert hefur verið ákveðið fyrirfram og sýningin verður aldrei endurtekin. Hver sem er getur tekið þátt í að móta framtíð Haraldsins og hver sem byrjar að nota hann á erfitt með að slíta sig frá honum.
Hvernig lýsir þessi spunatækni, Haraldurinn, sér?
Sandra: Það er mjög erfitt að úskýra það almennilega, þetta eru í raun geimvísindi, eða jafnast á við þau. Maður er að læra tækni til að byggja upp hálftíma gamansýningu án þess að vita hvað er að fara gerast. Samt verður maður að vita hvert maður getur farið.
Guðmundur: „Þetta er líka tækni til að allir á sviðinu séu meðvitaðir um ákveðið kerfi sem er í gangi. Áhorfandinn tekur ekki endilega eftir því, sem gerir okkur kleift að búa til svona langa sýningu út frá einu orði.“
Þannig að áhorfendur skora á ykkur með því að segja eitthvað orð, og þið verðið að spinna út frá því?
Guðmundur: Þetta er kannski ekki beint áskorun, en við fáum orð til að vinna út frá. Það verður að vera svoleiðis til að sanna að sýningin sé spunnin á staðnum.
Sandra: Á æfingum förum við í gegnum þetta kerfi og æfum okkur í grunnreglum í spuna. Hvernig maður fer inn í senu, tekur við tilboðum og hvernig maður föndrar með spunann og tekur hann lengra.
Guðmundur: Maður þarf alltaf að hafa hluti eins og hlustun og gott samspil í huga.
Kerfið sem um ræðir á rætur að rekja til Chicago.
Guðmundur: Það er leikhús Upright Citizens Brigade, UCB, sem er heimsfrægt spunaleikhús og sýnir spunasýningar á hverju kvöldi þar sem er uppselt og röð út úr dyrum. Þau eru líka með svona skóla þar. Dóra lærði og er að læra í þessum skóla og er komin ansi langt í þeim fræðum.
Hópurinn verður með sína fyrstu sýningu í Kassanum í Þjóðleikhúsinu á menningarnótt.
Guðmundur: Það verður ekki bara ein sýning, heldur margar hálftíma sýningar, frá klukkan sex til tíu. Áhorfandinn ræður hvað hann er lengi og getur hoppað inn eða út eins og hann vill milli sýninga.
Sandra: Það er samt mjög mikilvægt að sjá hverja sýningu í heild. Þetta er þannig tegund af leikhúsi að það er ekki hægt að hoppa inn í miðja sýningu. Það sem gerir þetta form öðruvísi en venjulegt spunaform sem fólk kannast við er að hér ertu ekki bara með litla sketsa heldur heilar samhangandi sýningar. Maður hittir karaktera aftur, sér þá í mismunandi aðstæðum og svo framvegis. Maður getur ekki hoppað inn, horft á eitt atriði, hlegið og farið svo.
Hvernig gengur að láta sýningarnar hanga saman?
Guðmundur: Það gengur vanalega vel. Þetta er svo strúktúrerað form að það gengur alltaf upp. Eins og Sandra segir er kannski sá spuni sem fólk þekkir á Íslandi meira svona spunasport eins og Leiktu betur eða Who’s line is it anyway.
Hver er munurinn á spunasporti og Haraldinum?
Guðmundur: Leikhússport gengur út á að tvö lið keppast um hvort þeirra gerir betri spuna. Þeir spunar eru oftast bara þrjár mínútur að lengd. Svokallaðir „shortform“ spunar.
Sandra: Það sem við erum að vinna með er „longform.“ Við erum búin að þýða það á íslensku sem langspuni. Þegar fólk kemur og sér okkur er það að horfa á langspuna. Við erum ekki stutt í spuna …
Guðmundur: Og það er engin keppni í gangi heldur eru leikarar að hjálpast að.
Hvert sjáiði fyrir ykkur að fara með Haraldinn eftir fyrstu sýningu á menningarnótt?
Sandra: Við verðum með tvær sýningar á Lókal leiklistarhátíðinni.
Guðmundur: Svo er þetta svo ungt fyrirbæri að „the only way is up ...“
Sandra: Við ætlum að halda ótrauð áfram. Við erum með æfingarhóp sem hittist tvisvar í viku og mun æfa áfram í vetur. Draumurinn er að koma upp þéttum hópi sem gæti verið með svona sýningar einu sinni í viku eða eitthvað svoleiðis.
Guðmundur: Það er alltaf fólk að bætast í byrjendanámskeiðið og það er kominn rosa stór hópur sem er kominn mislangt í þessu. Það verða áfram byrjendanámskeið og það mega allir taka þátt.
„Öllum er velkomið að vera með. Svo virkar þetta eins og leikhúsið í Chicago. Það er bara svona stigi þar sem þú byrjar á námskeiði, ferð á framhaldsnámskeið, tekur þátt í æfingahópi og ef fólk æfir nógu mikið með okkur getur það tekið þátt í sýningu ...“
Hvernig er hópurinn sem sækir í þetta? Er það almennt leiklistasinnað fólk?
Sandra: Það var kannski þannig fyrst, en það er allur gangur á því í dag. Sumir sem hafa áhuga á leiklist, aðrir sem vilja prófa nýjar áskoranir og taka sig út fyrir þægindamörkin.
Guðmundur: Það er ekkert samasem merki á milli þess að vera góður leikari og góður í spuna. Oft finnst mér þeir sem hafa hvað minnsta reynslu í leikhúsi vera hvað bestir í þessu. Þetta snýst oft mikið um að hugsa á tánum og kunna strúktúrinn frekar en að vera góður leikari.
Sandra: Margir gamanleikarar í Bandaríkjunum koma frá þessari þjálfun frekar en einhverju hefðbundnu umhverfi. Fattarðu kerfið eða fattarðu það ekki? Fólk sem fattar kerfið elskar það, og heldur áfram að nota það, sama hvort það er leikaramenntað, búið að læra heimspeki eða hvað sem er.
Hvers vegna ætti fólk sem er almennt ekki mikið í leiklist að taka upp á því að fara í spuna?
Sandra: Af því að þetta er það fyndnasta sem maður getur gert. Þetta er svo ótrúlega skemmtilegt. Ég byrjaði á þessu fyrir ári síðan á LungA, listahátíð á Seyðisfirði, og ég var „hooked“ frá fyrstu mínútu. Þetta er svona fyndnikerfi, ef það er hægt að segja það. Það er fáránlega skemmtilegt að nota það og sjá það og vera með í því. Það er varla hægt að slíta sig frá þessu ef maður á annað borð byrjar og fattar þetta.
Guðmundur: Þetta er líka bara gott kerfi til að hafa í huga ef maður er að skrifa eða búa eitthvað til. Þetta kerfi er mikið notað í allskonar hugmyndavinnu.
Sandra: Margir handritshöfundar notfæra sér þetta kerfi.
Þannig að upprennandi pennar ættu kannski að kíkja á námskeið?
Sandra: Já, og bara fólk sem finnst gaman að hlæja.
Eru þetta aðallega vinahópar sem mæta saman á námskeið eða tínist fólk til úr öllum áttum?
Guðmundur: Þetta eru vinahópar sem verða til í kringum æfingar. Þetta er mjög random hópur. Ef fólk vill sækja æfingar hvet ég alla til að hafa samband við okkur á Facebook. Eftir því sem fleiri klára grunnnámskeið eru fleiri sem eru góðir í þessu og þannig helst hópurinn góður.
Sandra: Stefnan okkar er að langspuni taki yfir allt Ísland og Íslendingar hlæi í gegnum skammdegið. Þetta form er ekki þekkt á Íslandi en allir sem ég hef talað við og hafa séð þetta eru bara „ókei þetta er geðveikt fyndið.“
Guðmundur: Og allir sem fara á námskeiðið eru geðveikt ánægðir með það. Svo getur þetta farið í allskonar áttir. Við erum farin að taka útvarpsþætti og fleira. Fólk sem lærir þetta í skóla úti gerir allan fjandann við þessa tækni. Því fleiri sem taka þátt þeim mun fjölbreyttari hluti getur fólk gert.
Ég gleymdi að spyrja af hverju þetta heitir Haraldurinn …
Sandra: Já - gæinn sem stofnaði þetta var einhvern tímann spurður í viðtali hvað tæknin héti. Hann ákvað bara að segja „The Harold“ út í bláinn. Hann sá svo geðveikt mikið eftir því. Nafnið festist við tæknina og honum fannst það geðveikt ljótt. Það sama gerðist eiginlega hérna. Við byrjuðum bara að tala um „Haraldinn“ og fólk byrjaði að kalla okkur það, þannig að nafnið er eiginlega fast við okkur. Við köllum okkur Haraldara eða langspuna.
Guðmundur: Formið er langspuni en tæknin er Haraldurinn …
Sandra: Kannski byrja einhvern tímann litlir hópar sem velja sér önnur nöfn en notast við sömu „Haraldstæknina.“
Guðmundur: Það eru alls konar hópar til erlendis sem heita alls konar rugl. „Ass Cats“ er til dæmis einn.
Sandra: Dóra er í hóp sem heitir Sister Nancy … Nei Saint Nancy … Sumir hópar sérhæfa sig í ákveðinni tegund af langspuna og aðrir eru að vinna með annað formatt.
Guðmundur: Það munu allir vita hvað Haraldurinn er eftir nokkur ár. Það er klárt mál.
Sandra: Ekki spurning. Alveg eins og uppistand var ekki málið fyrir nokkrum árum. Það kom bara allt í einu og allir elskuðu uppistand.
Erum við þá að sjá dögun Haraldsins?
Sandra: Algjörlega. Guð, ég gæti skrifað bók: Dögun Haraldsins …
Guðmundur: Gerðu það!
Sandra: Já, kannski að ég geri það bara.