Halla Einarsdóttir
Segir frá skólalífinu í Amsterdam og leikur sér að tungumálinu.
Halla Einarsdóttir er á fyrsta ári í grafískri hönnun í Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam. Að hennar sögn er námið mjög myndlistartengt en sjálf hefur hún mikinn áhuga á að vinna með alls kyns listform, svo sem ljósmyndun, teikningu og skrif. „Ég byrjaði fyrir tveimur árum á undirbúnings árinu og tók svo eitt ár í ljósmyndun. Ljósmyndadeildin hér er í raun og veru bara myndlist þar sem þú notar ljósmyndun sem miðil. Ég tók einn áfanga í grafík og var svo spennt fyrir áfanganum og verkefnunum þar að ég skipti yfir í grafíska hönnun.“
Hvaða áhrif hefur grafísk hönnun?
Ég held að grafískir hönnuðir geti haft mjög mikil áhrif á samfélagið. Þeirra starf felst að mörgu leyti í því að miðla upplýsingum til fólks. En auðvitað snýst þetta líka oft um að fegra umhverfið eða fegra heiminn og fá einhvern til að brosa. Hérna er mikil áhersla lögð á það hvað grafísk hönnun geti gert fyrir samfélagið og hvernig sé hægt að endurskilgreina hana; að hún sé ekki bara plakat eða lógó. Hollendingar hafa alltaf verið virkir í því, eins og til dæmis hönnunarstofan Metahaven sem hefur meðal annars unnið mikið fyrir Wikileaks.
Hvernig hefur námið haft áhrif á þinn hugsunarhátt?
Það er engan veginn hægt að festa fingur á það. Á einhvern hátt fer maður að sjá umhverfið allt öðruvísi og taka eftir ýmsu sem fær mann til að hlæja eða brosa. Eins og núna á leiðinni hingað sá ég mann bruna á vespu í gulum síðerma magabol sem á stóð: „BODY-GARD 69“ og það gladdi mig svo mikið. Leturgerðin og allt á bolnum var bara gull. Ég elska að ég hafi verið að hjóla í skólann og að ég hafi séð þennan mann.
Að hverju ertu búin að vera að vinna?
Ég bý til mitt eigið efni sem ég set upp og hanna. Undanfarið hef ég verið að vinna verk sem tengjast tungumálinu og alls kyns kvillum sem þar er að finna. Ég hef mjög gaman af „oxymorons“, þ.e. orðum sem eru sett saman en hafa sjálf gagnstæða merkingu. Við gerum þetta öll og frekar mikið. Eins og „old news“eða „act natural“. Þetta er mótsögn við hvort annað, en samt segjum við það saman og það vita allir hvað við eigum við.
Ég gerði video-verk líka um daginn þar sem ég var að pæla í orðum sem hafa svipaða merkingu eins og „cold“ og „refreshing“ en okkar upplifun af orðunum er samt allt öðruvísi. Eins og „plain“ getur verið svona frekar „dull“ en „natural“ er svona eitthvað „organic“. Eða „skinny“ og „slender.“
Hérna er verk úr þessum orðaflokkum sem ég hef verið að safna saman. Þetta er komið úr risasafni af orðagríni á netinu. Ég fann tímarit sem var gefið út vikulega á níunda áratugnum í miðríkum Bandaríkanna sem hét Punded.
Art: The display of still-life art was not at all moving.
Person: Need an ark? I Noah a guy.
Time: Past, Present and Future walked into a bar – It was tense.
Við áttum að vinna verkefni út frá götu sem heillaði okkur á einhvern hátt. Á leið heim úr skólanum á kvöldin hjólaði ég alltaf undir brú sem ég var frekar hrædd við að fara undir því ég get stundum verið myrkfælin og lítil í mér. Ég ákvað að vinna verkefnið út frá þessari brú til þess að þvinga mig til að skoða hana og sjá fegurðina í henni. Orðin ABUSE, ILL og IBLIS í verkinu eru tögg sem var búið að krota á stólpa sem héldu brúnni uppi. Ég leiraði míni-skúlptúr af þessum stólpum, en hann er í leirofninum núna. Mér finnst gaman að ýkja þessa hræðslu upp, nánast eins og að ég hafi þurft að gera verkið til þess að komast yfir hana.
Ég sé að þú ert líka með eitt verk á hendinni.
Já. Þetta er gulrót. Ég fékk þetta fyrir tveimur árum. Ein besta vinkona mín í skólanum var nokkrum sinnum búin að teikna á mig gulrót svona í einhverju djóki. Mér fannst alltaf svo gaman að vakna með þetta á mér, þannig að ég bað hana um að teikna fyrir mig gulrótina sem ég lét síðan tattúera á mig. Hún teiknar ótrúlega fallegar myndir og það er gaman að vera með listaverk eftir hana á mér.
Vinnið þið í bekknum náið saman?
Já, inn á milli þurfum við að gera það. Stundum eru kennararnir líka að para okkur saman, enda hollt fyrir framhaldið að kunna að vinna með fólki. Það getur stundum verið alveg ótrúlega fyndið. Í síðasta verkefni þá unnum við í pörum og settum reglur fyrir hinn aðilann fyrir plakatgerð. Ég gat engan veginn skilið þau fyrirmæli sem drengurinn sem ég var pöruð við vildi fá frá mér. Leiðbeiningarnar voru fáránlegar: 6 punkta leturgerð, ljósir pastellitir á A1 plakat. Hann meinti ekkert illt – en fyrirmælin voru erfið að vinna með og það var næstum ósanngjarnt. Svo á endanum lærði maður samt á því. Ég hefði aldrei gert hlutina sem ég endaði á að gera nema af því einhver rugludallur var að leiðbeina mér.
En það er einmitt það sem er svo skemmtilegt. Fólkið í skólanum kemur víða að og er með ólík lífsviðhorf. Það stækkar sjóndeildarhringinn. Sérstaklega þegar maður er að vinna náið í litlum hópi. Til dæmis hef ég unnið með strák frá Suður-Ameríku, stelpu frá Moldavíu og annarri frá Kína. Þeirra vinna og hugmyndir blönduðust við mínar eigin sem er oftast allt öðruvísi. En þetta þroskar mig tvímælalaust í leiðinni.
Hvað langar þig að gera eftir námið?
Ég veit alls ekki hvort mig langi að starfa sem grafískur hönnuður, allavega ekki í þeim skilningi sem margir sjá grafíska hönnun. Mér finnst ótrúlega gaman að vera í skóla og vil alveg örugglega læra enn þá meira eftir tvö ár. Hvort sem ég fer beint í mastersnám eða tek einhvern smá krók og læri heimspeki. Held ég reyni allavega að halda mér á einhvern hátt í skólaumhverfinu eins lengi og það býðst.