Fimm kaffihús í London

Blær heimsótti London til að drekka gott kaffi, því kaffi er lífið.

Blær skellti sér til London nýverið og naut alls þess sem borgin hefur upp á að bjóða. Vandað var valið á kaffihúsum enda er kaffi ekki það sama og kaffi í okkar orðabók. Við tókum saman lista yfir kaffihús víðsvegar um borgina sem við getum eindregið mælt með. 42 flugferðir verða farnar vikulega til London frá Keflavík árið 2015. Hvers vegna ekki að skella sér þó það væri ekki nema til þess eins að drekka gott kaffi?

1. Federation Coffee

Brixton er rísandi hverfi í Suður London þar sem Brixton Market er opinn alla daga með miklu úrvali af ferskum matvælum. Inni í markaðnum má finna Brixton Village; opið rými með litlum og skrautlegum búðum, börum og frábærum veitingastöðum. Þar inni er Federation Coffee sem býður upp á einfaldan morgunmat; súrdeigsbrauð, crossiant og jógúrt með heimagerðu múslí. Kaffið rista þau sjálf og er með því betra í allri Lúndúnaborg. Ef leitað er að hádegismat í kjölfarið er guðdómlegur crepes staður, Senzala, þar beint á móti sem svíkur engan.

2. Workshop Coffee

Í Marylebone er lítið og fallegt kaffihús með bláum kaffibollum og nokkrum barstólum. Workshop Coffee er einnig á þremur öðrum stöðum í borginni. Þau eru þekkt fyrir himneskan aeropress uppáhelling sem er þó í dýrari kantinum, algjört spari. Starfsfólkið veit allt um kaffi og fræðir þig um hvaðan kaffið er og hvernig baunir þú átt að taka með þér heim. Ein brownie er síðan ekki vitlaus hugmynd til þess að fullkomna ferðina.

3. Kaffeine

Tveimur mínútum frá Oxford Circus er Kaffeine. Huggulegt og mjög vinsælt kaffihús sem skal forðast á háannatíma ef vonast er eftir sæti. Hér voru smakkaðar allar tegundir af kaffi og uppi stóð flat white og macchiato. Ristaða bananabrauðið þeirra með heimagerðri sultu er nauðsynlegt með!

4. Kahaila

Kahaila er í Austur London á hinni einu sönnu Brick Lane, mekka hipstersins. Á þeirri götu og í hverfinu þar í kring er mikið úrval af skemmtilegum kaffihúsum. Á Kahaila er andrúmsloftið þægilegt, nóg pláss og og sanngjarnt verð. Kökurnar í glugganum laða hvern viðskiptavininn inn af öðrum og er rauða flauelskakan í uppáhaldi flestra, okkar þar á meðal.

5. The Attendant

Stuttu frá Oxford Street er yfirgefið neðanjarðarklósett frá Viktoríu tímum í kringum 1890. Fyrir nokkrum árum var klósettið gert upp og umbreytt í fallegan kaffibar, The Attendant. Á þessum tímapunkti var kaffidrykkjan orðin okkur um megn þannig að te varð fyrir valinu. Kaffið á samt sem áður að vera afbragðs gott og bakkelsið ekkert síðra. Skemmtileg upplifun á huggulegum stað með vinalegu starfsfólki.