Starfsnám skemmtilegra en uppvask

Blær heimsótti listamanninn Egil Sæbjörnsson og Ívar Glóa starfsnema hans í Berlín.

Að loknu listnámi getur það reynst nýútskrifuðum myndlistarmanni snúið að koma sér út á vinnumarkaðinn. Störf beintengd myndlist eru af skornum skammti og það að starfa sjálfstætt sem myndlistarmaður getur verið erfitt, sérstaklega til að byrja með. Starfsnám eftir útskrift getur þá reynst ágæt leið til þess að brúa bilið milli skóla og hins raunverulega myndlistarheims. Menntaáætlun ESB veitir svokallaða Erasmus+ styrki sem ætlaðir eru til uppihalds á meðan á starfsnámi stendur. Við hittum þá Ívar Glóa, sem útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands í vor, og listamanninn Egil Sæbjörnsson til að forvitnast um hvað felst í því að vera í starfsnámi. Egill hefur starfað og rekið um árabil vinnustofu í Berlín og reglulega fengið til sín nýútskrifað ungt fólk til að aðstoða sig í nokkra mánuði í senn. Seinustu vikur hefur Ívar Glói verið hans hægri hönd og aðstoðað hann í ýmsum verkefnum.

Egill: Þetta er aðallega svona „hang around“ á vinnustofunni, oft ekkert sérstakt.

Ívar: Já, ég er svolítið svona bara hangandi hérna, að sjá hvað gerist. Í dag er ég til dæmis búinn að vera að ryksuga brauð og frysta. Það voru komnar fullt af flugum í þau.

Egill: Já, þetta er partur af bakarísverkefninu mínu. Þá tökum við alltaf það sem var síðast eftir í bakaríinu og setjum til dæmis upp á vegg, og svo hrúgast alltaf upp meira og meira dót. Hér er til dæmis gervi skegg og gervi augabrúnir á bakarann. 

Þannig að það er enginn dæmigerður dagur á vinnustofunni?

Egill: Þetta er fyrst og fremst búið að vera rosalega fínt hangs með honum Ívari Glóa. Ekkert „chill“ en engin ákveðin dagskrá. Það sem þarf að gera er gert. Núna erum við að setja saman þessi borð. Þá er hann að slípa borðin og lakka þau. Stundum er ekki mikið í gangi og þá er hann að vinna að sínu eigin dóti. Ég er sjálfur rosalegur „workaholic“ þannig að við erum hérna í svona tólf tíma í senn. Ég sagði við Ívar að hann þyrfti bara að vera í sex tíma á dag. En frá því hann byrjaði hefur hann unnið tólf tíma á dag, sex daga vikunnar í staðinn fyrir fjóra.

Ívar: Það var svolítið fyndið um daginn þegar við vorum í Brussel að klára hluti fyrir sýningu þar. Við vorum alveg að vinna til eitthvað eitt eða tvö um nótt. Ákváðum samt að fara út í búð og kaupa osta, og vera bara eitthvað að hanga í klukkutíma eða tvo í viðbót. En samt var allt í mega stressi einhvern veginn. Ég ætla samt að vera farinn klukkan fjögur í dag.

Hvernig endaðir þú hér? Af hverju í Berlín og af hverju hjá Agli?

Ívar: Ég sendi Berki í Gallerý i8 tölvupóst, þar sem ég var að leita að einhverjum til þess að fara í starfsnám til. Hann benti mér á Egil og ég sendi honum póst. Tilgangurinn með þessu er fyrst og fremst að komast í burtu frá Íslandi, kynnast einhverju nýju. Ég held það séu rosa fáir listamenn með fólk í vinnu hjá sér heima á Íslandi. Það er frekar áhugavert. Það var í boði að fá þennan styrk, til að fara út og gera eitthvað. Ég nennti ekki að fara að vinna einhvers staðar í uppvaski á Íslandi og rotna þar.

Egill: Þessi skiptinema- og starfsnámsverkefni, ég held þau séu að skila rosalega miklu. Ég fór sem Erasmus stúdent til Parísar þegar ég var í myndlistarskólanum, 95 til 96, þú veist, fyrir hundrað árum síðan. Þó maður hafi kannski ekkert endilega gert sér grein fyrir því á sínum tíma þá seinna meir áttar maður sig á því hvað gerðist mikið. Hvað það víkkaði sjóndeildarhringinn. Þetta var viðburðaríkasta ár í mínu lífi og stendur alveg upp úr. Svo margt sem maður prófaði og gerði sem maður býr að í dag. Eins og að eiga einskonar fjársjóði eða poka með allskonar dóti sem hægt er að seilast í seinna meir. Ég held því að peningunum sé vel varið með því að styrkja unga listamenn með þessum hætti. Ágætt að það komist til skila til þeirra sem eru að standa í þessu. Þetta er ekki afsökun til að vera að hanga einhvers staðar, þú veist þetta með að komast í burtu. 

Á vinnustofunni er Egill með nokkra fasta starfsmenn sem meðal annars sinna bókhaldi en mikil pappírsvinna fer í það að reka fyrirtæki í Þýskalandi. Auk þess eru margir sem koma og fara, sinna hreyfimyndvinnslu eða koma tímabundið í ákveðin verkefni.

Egill: Ég er búinn að vera með nokkra íslenska starfsnema núna undanfarið og hef verið að fá fólk inn síðan 2008. Ég hef verið með mismunandi nálgun á þetta. Stundum hef ég verið að setja fólk í ákveðin verkefni, eftir því hvaða bakgrunn þau hafa. Núna er þetta frjálslegra hjá mér. Stundum er Ívar Glói bara að vinna í sínu og ég hef ánægju af því að sjá fólki miða áfram, ég myndi sjálfur vilja hafa það þannig. Stundum er Ívar með okkur á fundum þannig að hann fær reynslu af því líka. Ég reyni að miðla eins miklu og hægt er, með einum eða öðrum hætti. Stúdíóið er bara eitthvað svona „beast“ svo margt mismunandi um að vera. Maður áttar sig ekki á því í myndlistarskóla hvað það er margt rekstrartengt, allskonar drasl sem er í kringum þetta sem er ágætt að kynnast þegar maður er að koma út úr skóla. Stúdíóið í skólanum er aðeins öðruvísi en þau sem eru fyrir utan hann.

Hvað er svo framundan hjá ykkur?

Egill: Við erum að fara til Feneyja á sunnudaginn. Það er eiginlega bara skemmtiferð. Við ætlum að fara smá hópur og sjá arkitektúrtvíæringinn. Ætlum að vera hvað, þrjár nætur? Draga þennan unga mann með að kíkja á þetta.

Ívar: Ég veit ekkert um arkitektúr, þannig þetta verður smá grunnkennsla í því.

Egill: Svo er hann í gestavinnustofudvöl hérna hann Magnús Jensson, arkitekt og tónskáld. Ég held hann hafi farið út að fá sér að borða, þess vegna er hann ekki hérna núna. Hann er mikill arkitektúrspekúlant og kemur með í ferðina. Við erum svo aðeins að taka rýmið í gegn, þess vegna erum við að pússa þessi borð til að geta leigt þau út og þá getur fólk komið og fengið vinnupláss. Svo eru það sófarnir.

Ívar: Ég hélt að þeir væru „out“?

Egill: Já, þeir verða eiginlega að fara. Við ætluðum að gera svona rými með fullt af sófum, því ég trúi því að stundum komi bestu hugmyndirnar þegar maður liggur í sófanum. Það er nauðsynlegt að geta lagt sig, vera ekki sitjandi við borð allan daginn.

Ívar: Félagi minn Brynjar var alltaf bara með einn sófa á vinnusvæðinu sínu í Listaháskólanum. Lítill sófi og svo bara eitt borð þar sem draslið hrúgaðist upp. 

Ætlar þú að vera áfram í Berlín að starfsnámi loknu?

Ívar: Tja, ætli ég þyrfti þá ekki að fá mér vinnu í uppvaskinu, en jújú kannski.

Egill: Ef þú ert rosa duglegur þá færðu kannski starf hérna.

Ívar: Nú fer ég að pússa þessi borð alveg á fullu…


Þegar við kveðjum þá félaga er klukkan að verða fimm og Ívar Glói ekki enn farinn að sýna á sér fararsnið.