Lítil skref í þágu jarðar

Það er kominn tími til að vakna upp úr mengunarfylleríinu og hætta að traðka á undirstöðu tilveru okkar.

Jörðin er lítil og fótspor okkar stórt. Við bræðum jökla og fyllum höfin af rusli milli þess sem við keyrum út í búð og kaupum enn annað parið af Nike-skóm í glansandi fínum plastpoka. Dýrategundum jarðar fer hríðfækkandi og brátt verða árstíðir tískuiðnaðarins jafn margar og plastflöskurnar í meltingarkerfi steypireiðsins í Faxaflóanum.

Fótsporið má minnka þó það hverfi ekki endilega alveg til fulls. Eins og er liggur það að mestu í höndum einstaklingsframtaksins þar sem stjórnvöld um allan heim virðast svo gott sem liggja í dvala yfir stöðu jarðarinnar. Blær ræddi við sex Reykvíkinga um lítil skref sem þau stíga í daglegu lífi í þágu umhverfisins, bæði meðvitað og ómeðvitað. Því eftir allt saman getum við kannski ekki öll gert allt, en allir geta gert eitthvað. 

Bjarnheiður Kristinsdóttir stærðfræðikennari

„Ég hef aldrei átt bíl og mér finnst ég vera frjálsari á hjólinu. Það er ekkert vandamál að finna stæði niðri í bæ, enginn bílastæðakostnaður og oftast gaman að takast á við veðrið. Auðvitað þarf oft að vera í góðum hlífðarfötum og með föt til skiptanna en þegar það er ekki mikið rok þá er líka mjög þægilegt að hjóla í kjól eða pilsi. Þegar það er hált þá er ég öruggari á hjólinu með nagladekkin heldur en að labba. Ég er svo heppin að hafa aðgang að sturtu í vinnunni svo ég nota hjóltúrinn á morgnana til að keyra aðeins púlsinn í gang í byrjun dags. Ef mig langar í lengra ferðalag þá annað hvort ferðast ég á puttanum, leigi bíl eða fæ lánaðan bíl hjá foreldrum mínum eða öðrum í fjölskyldunni. Ég reyni líka að taka frekar lestir og rútur þegar ég ferðast erlendis - það tekur lengri tíma en með flugvél en oftast kynnist maður skemmtilegu fólki á leiðinni eða getur lesið bók og hlustað á tónlist.

Afi og amma fyrir norðan flokkuðu alltaf og endurunnu rusl - notuðu mjólkurfernur undir útsæði og afleggjara, majónes- og hunangsdollur undir afganga, ísdunka fyrir nestið og berin í berjamó. Svipað var gert heima þótt við værum ekki með kartöflugarð. Ég flokka pappír, plast, málma, gler, rafhlöður/sparperur, kertavax og venjulegt rusl. Það er misjafnt hversu mikið fellur til í hverjum flokki en það hefur reynst erfitt að minnka plastið sem kemur inn á heimilið. Við notum gamla þvottahúsgrind og pappakassa undir flokkunina, mjög einfalt og þægilegt.“

„Þegar það er hált þá er ég öruggari á hjólinu með nagladekkin heldur en að labba“

Dofri Hermannsson heimsborgari

„Ég er með tunnu úti í garði sem allt lífrænt fer í - nema það sem fer í hundinn Þetta minnkar sorp frá heimilinu um ca 40% og býr til góða næringu fyrir gróðurmoldina sem ég nota til að rækta salat, tómata, paprikur, chillie og annað góðgæti. Að flokka er ekkert mál. Þegar maður er byrjaður á þessu finnst manni jafn fráleitt að setja óflokkað í ruslið eins og að pissa úti á götu.

Þess utan reyni ég að henda aldrei mat. Brauð sem er aðeins farið að harðna er ekkert vont - kallaðu það bara hrökkbrauð. Svoleiðis kostar helling svo maður er bara að græða. Ef það er til súrmjólk og múslí og mann langar ekki í það er maður bara ekki svangur. Og eitt enn, „best fyrir“ er ekki gefið út af heilbrigðiseftirlitinu heldur framleiðandanum sem vill endilega að þú kaupir meira. Djús, sýrður rjómi, súrmjólk og margt fleira er ljómandi gott þó þessi dagsetning sé horfin inn í fortíðina.

Því má ekki gleyma að það er ekki þetta risastóra sem örfáir gera sem mun bjarga heiminum heldur þetta litla sem næstum allir geta gert.

Ég hef skoðun á því hvort við eigum að bora eftir olíu á Drekasvæðinu, hvort við eigum að leggja háspennulínur og uppbyggðan veg yfir Sprengisand, hvort við eigum að breyta náttúruperlum í virkjanir. Ef maður segir ekkert samþykkir maður með þögninni. Ef maður nennir að kynna sér málið og segja sína skoðun er það lóð á vogarskál heimsins.“

„Því má ekki gleyma að það er ekki þetta risastóra sem örfáir gera sem mun bjarga heiminum heldur þetta litla sem næstum allir geta gert.“

Remi Spilliaert, Sigurbjörg Eðvarðsdóttir og Sylvía Spilliaert

Spilliaert fjölskyldan á Seltjarnarnesinu hefur alltaf verið meðvituð um umhverfisvernd og reynir eftir bestu getu að leggja eitthvað til málanna. Þau hjóla reglulega í vinnuna, flokka sorp og slökkva ljósið á eftir sér. En þeim finnst líka sjálfsagður hlutur að vera meðvitaður um vatnsnotkun sína.

„Að spara vatnið hér á Íslandi er ekki eitthvað sem Íslendingum finnst þeir þurfa að gera þar sem landið virðist eiga óþrjótandi vatnslindir. Við erum nú engir vísindamenn en við teljum að þessi auðlind okkar geti alveg eins horfið eins og fiskurinn í sjónum (sem í eina tíð var einnig talin óþrjótandi auðlind). Við reynum að leggja okkar af mörkum á heimilinu á ýmsa vegu eins og til dæmis þegar við þvoum salatið þá er vatnið síðan nýtt í að vökva plönturnar. Vatnið er heldur ekki látið renna á meðan við burstum tennurnar eins og margir aðrir gera og þvottavélarnar eru ekki settar í gang nema fullar.“

„Venjulegt heimili eyðir langmestu í að sturta niður í salernið þar sem u.þ.b. 9 lítrar af vatni fara við hverja notkun. Ef hver maður fer að meðaltali fjórum sinnum á salernið á dag hefur hann eytt 36 lítrum í lok dagsins bara í það að sturta niður. Þetta eru ógnvekjandi tölur sem ættu að vekja fólk til umhugsunar. Það þurfa ekki allir að vera verkfræðingar til að finna leiðir til að spara vatnið, allir geta lagt sitt lóð á vogarskálina með því til dæmis að sturta niður til hálfs, sleppa því að sturta niður á nóttunni eða jafnvel að pissa undir sturtunni. Er það ekki eitthvað?“

„Ef hver maður fer að meðaltali fjórum sinnum á salernið á dag hefur hann eytt 36 lítrum í lok dagsins bara í það að sturta niður. Þetta eru ógnvekjandi tölur sem ættu að vekja fólk til umhugsunar.“

Jón Pétur Þorsteinsson arkitektanemi

„Maður heyrir sjaldan spurninguna „af hverju borðar þú kjöt?“. Hins vegar eru þau okkar sem kjósa að borða ekki kjöt oft spurð út í okkar matarval. Það eru í raun og veru bara fjórar ástæður fyrir því að við borðum kjöt og er hefðin fyrir því sterkust af þeim öllum. Hinar þrjár eru þær að okkur finnst það gott, það er hentugra og við erum vön því. Á sama hátt og það er umhverfisvænna að nota ekki bíl er umhverfisvænna að borða ekki kjöt. Það er staðreynd. Mér finnst því ekkert nema eðlilegt að fólk spyrji sig að því hvers vegna það kýst að borða kjöt.

Þegar þú ert búinn að átta þig á því hvers vegna þú borðar kjöt, frekar en að sleppa því, getur þú svo velt því fyrir þér hvaða ástæður maður gæti mögulega haft til að hætta því. Þú gætir til dæmis skoðað þessar þrjár:
Í fyrsta lagi getur þú sleppt því að borða kjöt af siðferðislegum ástæðum. Að þú hafnir tvíhyggjunni maður vs. dýr, við vs. hinir og viðurkennir að dýr hafi hagsmuni. Að það sé betra að meiða ekki.
Í öðru lagi getur þú gert það af heilsufarslegum ástæðum. Margt bendir til þess að mataræði laust við dýraafurðir geri alls konar gott fyrir heilsuna. Að það sé betra að borða hollt.
Í þriðja lagi getur þú gert það af umhverfislegum ástæðum. Umhverfisfótspor þeirra sem borða kjöt er stærra en þeirra sem gera það ekki. Að það sé betra að skemma ekki jörðina.

Kannski finnst einhverjum það að kjöt sé gott á bragðið nógu góð ástæða til þess að halda áfram að borða það, eða vegna þess að það er hentugra að vera ekkert að breyta til. Líklegast mun flestum finnast það, ég veit það ekki. Þetta er svo líka bara alltaf spurning um hvað maður nennir að gera. Ég er til dæmis alls ekki duglegur að endurvinna. Af hverju er það? Ég nenni því ekki. Ég ætti kannski að byrja að endurvinna...“

„Á sama hátt og það er umhverfisvænna að nota ekki bíl er umhverfisvænna að borða ekki kjöt. Það er staðreynd.“

Margrét Marteinsdóttir, rekstrarstjóri Kaffihúss Vesturbæjar og annar höfundur bókarinnar Vakandi Veröld

„Það er í raun bara stutt síðan ég hætti alveg að nota plastpoka og enn styttra síðan ég lokaði á allt plast. Auðvitað er erfitt að komast alveg hjá því, það er plast í nánast öllu en ég geri mitt besta. Plastumbúðir eru fáránlega stórar og miklar og maður skilur ekki alveg af hverju. Ef við tökum sem dæmi umbúðir utan um leikföng. Þegar börn eru að fá jólagjafir tekur nánast allt aðfangadagskvöld að losa t.d dúkkuna úr plastinu. Það er eins og verið sé að pakka inn einhverjum vopnum.

Árið 2011 var ég með fjölskyldunni í Frakklandi í þrjá mánuði. Á meðan á dvölinni stóð var ég með hálfslítra Topp-plastflösku á mér. Ég þreif hana reglulega, oft með eldheitu vatni og tókst að endurnýta hana í sex vikur. Síðar komst ég að því að þetta má bara alls ekki því hiti leysir úr læðingi hættuleg efni í sumu plasti. Ég sem var að passa mig svo að vera umhverfisvæn með því að nota alltaf sömu flöskuna, var kannski ekki að gera mér neitt sérstklega gott. Síðan þá hef ég bara verið pínu hrædd við plast og reyni að nota það sem minnst. Þegar Krabbameinsfélag Íslands er farið að vara við ofnotkun á plasti held ég að við þurfum að fara að hugsa okkur svolítið um hvað við erum að gera.

Mér finnst aðalmálið hérna heima að við hættum þessari rosalegu plastpokanotkun. Það er ekki erfitt, enda ekkert mál að taka taupoka með sér í búðina. Þetta er sáraeinfalt þegar maður byrjar á því enda kemur alltaf plast í taupokann. Heima má til dæmis nota plastpokann undan brauðinu undir rusl og svo framvegis. Eins og er liggur þetta í einstaklingsframtakinu en það er óskandi að meiri vakning verði hjá bæði verslunareigendum og stjórnvöldum.“

„Það er eins og verið sé að pakka inn einhverjum vopnum.“

Arnór Bogason, grafískur hönnuður

„Ég er ekki bíllaus af umhverfisverndarástæðum. Það spilar auðvitað inn í en mér finnst dýrt að reka bíl og ég vil frekar nota peninginn í annað. Mér finnst líka bara leiðinlegt að keyra. Ég held að allir geti verið bíllausir, allavega að einhverju leyti, og það verður alltaf auðveldara eftir því sem fleiri koma í bíllausa liðið.

Ég áttaði mig fyrst á því hvað það er í rauninni mikilvægt að hafa frelsi til að geta verið bíllaus eftir að ég fór í skiptinám til Hamborgar í Þýskalandi. Það er miklu meiri bílaborg en til dæmis Berlín en samt voru hjólastígar allsstaðar og strætó og neðanjarðarlestir komu mér hvert sem ég þurfti að fara.

Ég prófaði að hjóla heilan vetur í hittifyrra. Stundum var gott að eiga strætómiða í veskinu þegar illa viðraði en nagladekkin björguðu mér annars alveg.

Ef ég myndi einn daginn meta það sem svo að ég þyrfti að kaupa bíl þá yrði það rafmagnsbíll. Það er stutt í að það verði hagkvæmara val en annað sem er í boði. Það þýðir heldur ekki ekki að maður sé hættur að lifa bíllausum lífsstíl þótt maður eigi bíl og noti hann bara stundum. Það væri líka mjög fínt að geta bara leigt bíl eftir þörfum. Rölt í hverfisbílaleiguna og leigt bíl í til dæmis hálfan dag ef maður þarf að útrétta eða skreppa út á land.“

„Ég held að allir geti verið bíllausir, allavega að einhverju leyti, og það verður alltaf auðveldara eftir því sem fleiri koma í bíllausa liðið.“