Vinkonur vors og blóma: fimm árum síðar
Fimmtán ára Íris, Eva og Hildur ræða lífið í tíunda bekk.
Fyrir rúmlega fimm árum náði ég tali af vinkonunum Evu, Írisi og Hildi, þá tíu ára. Ég sá þær fyrst rúlla niður Frakkastíginn á hjólabrettunum sínum, sjálfsöruggar og áhyggjulausar með miðbæinn í höndum sér. Viðtalið vakti talsverða athygli en þær höfðu líflegar skoðanir á borgarskipulagi, sjálfsmyndum á Instagram og gamla fólkinu á Facebook.
Í dag eru þær í 10. bekk, Hagaskóla og mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Þær segjast ekki halda eins góðu sambandi og áður en spjalli saman í skólanum og fylgist með hver annarri á samfélagsmiðlum.
Sjá viðtalið við vinkonurnar „Vinkonur vors og blóma“ frá 2014.
Íris, Hildur og Eva
Ég hitti vinkonurnar Evu, Hildi og Írisi heima hjá síðastnefndri í Vesturbæ Reykjavíkur. Ég hafði enga hugmynd um hvort þær væru enn vinkonur eða hvað þær hefðu verið að bralla undanfarin fimm ár. Móðir einnar þeirra aðstoðaði mig við að komast í samband við þær og þarna vorum við, sameinaðar á ný.
Ég hafði ekki leitt hugann að því áður hversu félagslega og útlitslega mótandi tímabilið væri frá því að vera tíu til fimmtán ára. Ég átti bágt með að tengja saman andlitin sem ég sá fyrir fimm árum og þau sem sátu andspænis mér á sófanum nú. Auk þess var orðið langt síðan ég tók viðtal síðast og því var ég smá ryðguð þegar ég hóf upptökuna og sagði þeim að „þetta yrði bara hefðbundið“. Eitthvað var breytt, en hvort það var ég, þær eða samband þeirra, var óljóst á þessari stundu.
2014
Hvað eruð þið að gera í dag?
Eva: Við erum allar í Hagaskóla í tíunda bekk. Ég stunda jazzballett en er reyndar í smá pásu núna.
Hildur: Ertu ekki líka oft að teikna?
Eva: Jú, ég er á myndlistanámskeiði núna.
Íris: Ég er búin að vera í skóla og að vinna á kassa síðastliðið ár. Það er ekkert mjög skemmtileg vinna.
Hildur: Ég er mikið í fótbolta. Ég skrifaði nýlega undir samning hjá meistaraflokki í Val og spila fyrir U-16 landsliðið. Ég fékk síðan vinnu í Yoyo ís nýlega.
Hvernig hefur samband ykkar breyst frá því við hittumst síðast?
Hildur: Það hefur breyst helling.
Íris: Önnur áhugamál og þannig.
Eva: Við hittumst ekki jafn mikið, við vorum náttúrulega alltaf saman.
Hildur: Við tölum alveg saman í skólanum. Ég hefði aldrei trúað að við yrðum ekki jafn góðar vinkonur eftir 5 ár.
Eva: Það hefur svo margt breyst en samt ekki.
Íris: Rosalega margt búið að gerast. Ef einhver hefði sagt okkur allt sem hefði gerst á fimm árum, hefðum við ekki trúað því.
Eins og hvað?
Íris: Bara fólkið í kringum mann.
Eva: Já og allt sem gerist í skólanum, nýir vinir og vinir sem eru ekki lengur.
Hildur: Alls konar drama og svona.
2019
2014
Það er sem sagt ýmislegt sem gengur á í 10. bekk?
Íris: Já, en það er líka mjög gaman. Maður er mest bara að hanga með vinum sínum.
Hildur: Það er að minnsta kosti skemmtilegra að vera í tíunda bekk en áttunda og níunda.
Núna er mikið að gera í skólanum, þannig að ég fer bara á æfingu og svo heim að læra. Ekki beint spennandi. Maður er mest með vinkonum sínum, bara að tjilla.
Eruð þið enn á hjólabrettum?
Eva: Nei, þetta var svona æði í eitt ár svo bara hættum við.
Fyrir fimm árum sögðuð þið að það væri aðeins gamalt fólk á Facebook. Hefur það eitthvað breyst?
Íris: Ég veit ekki um neinn sem er á Facebook.
Eva: Ég sjálf kann ekkert á Facebook.
Hildur: Við erum kynslóð sem notar bara Snapchat og Instagram.
Íris: Já Instagram mest og Snapchat til þess að tala við fólk og kynnast fólki sem þú ert ekki endilega með í skóla.
Hvernig finnur maður fólk á Snapchat?
Eva: Oftast stendur það á prófilnum þínum á Instagram eða kannski einhver sem sendir þér prófilinn.
Íris: Fólk fer ekki upp hvert að öðru og byrjar að tala saman, það byrjar oftast í gegnum Snapchat.
Hildur: Já, ég er ekki að fara að tala við strák á Messenger eða á Instagram.
Hvers vegna er formlegra að tala saman á Instagram heldur en Snapchat?
Hildur: Því maður talar saman með myndum í gegnum Snapchat.
Eva: Líka ef þú sendir eitthvað á Instagram þá er það alltaf þarna, það hverfur ekki.
Íris: Það er reyndar svo fyndið að skoða gömul skilaboð á Instagram. Mér finnst magnað að við höfum mátt vera á Instagram svona ungar.
Hildur: Við vorum svona átta ára!
Vinkonur vors og blóma 2014
Þið voruð með sterkar skoðanir á ofnotkun sjálfsmynda á samfélagsmiðlun. Íris talaði um að þær væru ofnotaðar og Hildur sagði söguna af stelpu sem væri með 28 myndir á Instagram og 27 þeirra væru sjálfsmyndir. Hvað finnst ykkur um það í dag?
Hildur: Þetta er alltof fyndið, ég var að lýsa okkur sjálfum í dag!
Íris: Já vá, ég held við séum nánast bara með sjálfsmyndir núna.
Finnið þið fyrir pressu að vera á samfélagsmiðlum?
Íris: Já, mjög mikið. Það er kannski búið að minnka aðeins upp á síðkastið.
Eva: Sumir finna mikla pressu, sérstaklega þeir sem eru með mikið af fylgjendum.
Hildur: Já, sumar stelpur eru með svona 2.000 fylgjendur og þetta er bara eins og vinnan þeirra. Alltaf að setja í story og eitthvað.
Eva: Álag að þurfa alltaf að vera með myndir til að pósta.
Hildur, Eva og Íris
Hvað með samanburð á samfélagsmiðlum?
Íris: Ég pæli ekki mikið í því. Þú veist maður myndi ekkert vilja að það væri ógeðslega ljót mynd af manni í story hjá vinkonu manns sem er með 2.000 fylgjendur. En annars er manni oftast sama.. en samt ekki alveg.
Eitt af því sem ég hef tekið eftir á Instagram er notkun á uppfylliefni (e. filler content), ljósmyndir á Instagram, sem eru ekki sjálfsmyndir, og þjóna eingöngu þeim tilgangi að prófíllinn sé ekki uppfullur af sjálfsmyndum.
Allar: Já, við þekkjum þetta.
Eva: Ég er með nokkrar svoleiðis.
Hildur: Þetta snýst aðallega um lúkkið á prófílnum. Það séu ekki bara sjálfsmyndir.
Eva: Þetta séu ekki bara allt myndir af þér.
Íris: Ég er til dæmis bara með fjórar myndir á Instagram hjá mér.
Eruð þið farnar að huga að menntaskóla?
Hildur: Ég vil eiginlega ekki ákveða fyrr en ég veit einkunnirnar mínar, mögulega í Versló.
Eva: Ég er ekkert búin að ákveða.
Íris: Ég var að hugsa MR, kannski Versló en það kemur í ljós.
Hildur: Þú þarft nánast að vera með A í öllu til að komast inn í Versló.
Eva: Þetta er svo skrítið og flókið einkunnakerfi.
Hildur: Já maður fær framúrskarandi, hæfni náð og svo framvegis. Síðan eru allir litirnir grænir og bláir. Endalaust svona.
Eru engin samræmd próf?
Allar : Hvað er það?
Þegar við hittumst síðast þá rædduð þið kvíðann yfir því að þurfa að vinna einn daginn. Hildur þú talaðir um að eina vinnan sem þú myndir sinna væru hestar á sumrin og að þú þyrftir ekki einu sinni að fá borgað fyrir það.
Hildur: Þetta var sumarið sem ég fór í sveit til frænku minnar og fékk hesta á heilann! Ég veit ekki alveg hver pælingin var að vera í vinnu sem er ekki launuð.
Íris: Við höfðum svo miklar skoðanir þarna. Hvað vorum við eiginlega gamlar?
Hildur: 10 ára, við höfðum held ég meiri skoðanir þá en nú.
Eva: Meira að segja á Sundhöllinni, við vorum mjög ósáttar með hana. Hún er reyndar orðin miklu betri í dag.
Eva: Líka að sjá krakka á þessum aldri, í fimmta bekk, manni finnst þau svo lítil.
Íris: Og þá fannst manni tíundu bekkingar vera fullorðið fólk.
Hildur: Já eiginlega, eins og fullorðið fólk.
Finnst ykkur þið fullorðnar núna?
Allar: Nei!
Vinkonur vors og blóma 2014
Hvar verðið þið eftir fimm ár?
Eva: Líklega bara í skóla.
Hildur: Vonandi í háskóla, kannski í Bandaríkjunum.
Íris: Ef við förum allar í sitthvorn skólann þá veit maður aldrei hvernig verður með okkur.
Eva: Já, það breytir öllu. Ég vona að við verðum enn vinkonur, maður veit aldrei.
Hildur: Við munum alltaf heilsa hver annarri en verðum kannski ekki alltaf að hittast.
Eva: Kannski lenda einhverjar af okkur saman í bekk.
Hildur: Instagram hjálpar okkur samt að vera vinkonur áfram, við getum alltaf fylgst með hvað hver önnur er að gera.